Drift EA á Akureyri, ný miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar, hefur valið sex nýsköpunarverkefni áfram til að fá sérstaka og heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuðina. Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í svonefndan nýsköpunarhraðal er nefnist Slipptakan. Næsta skrefið er nefnt Hlunnurinn og er að sænskri fyrirmynd.
Sænska frumkvöðlasetrið Sting hefur náð þeim árangri að 67% verkefna sem fóru í gegnum hraðal þess eru enn starfandi í dag. Forráðamenn Driftar vonast til að ná svipuðum ef ekki betri árangri hér á landi.
„Við fórum af stað með þetta verkefni með það fyrir augum að styðja við valin verkefni þannig að frumkvöðlar gætu einbeitt sér að því að ná árangri,“ segir Hreinn Þór Hauksson, leiðtogi frumkvöðlaverkefna og fjárfestinga hjá Drift EA.
Drift EA er í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg í hjarta Akureyrar og þar verður boðið upp á fjölbreyttar leiðir til að styðja við frumkvöðla, m.a. í formi fjármögnunar, aðstöðu og þekkingar.
Verkefnin sex
Verkefnin sem komast í Hlunninn eru hugbúnaðarfyrirtækið Quality Console (QC), Sea Thru, sem er íslenskt-pólskt verkefni á Akureyri er þróar rekjanleikakerfi fyrir sjávarafurðir, og Grænafl á Siglufirði, sem vinnur að rafvæðingu strandveiðiflotans. Síðan fara þrjú samfélagsverkefni áfram í Hlunninn, sem stuðla að því að efla atvinnulíf og búsetugæði á Norðurlandi. Verkefnin sem hér um ræðir nefnast Kompliment, Íbúðir út í lífið og IWB.
Kompliment er markaðs- og ráðgjafarfyrirtæki á Akureyri sem veitir fyrirtækjum faglega aðstoð við að efla ímynd sína og markaðsstarf. Íbúðir út í lífið þróar húsnæðislausnir fyrir fólk á miðjum aldri með áherslu á sveigjanlegt húsnæði í lífsgæðakjarna og IWB er nýstárleg nálgun á íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
Slipptaka aftur í sumar
Drift EA gerði samstarfssamning síðasta sumar við sex ráðgjafarfyrirtæki um að taka þátt í þessum nýsköpunarverkefnum. Um er að ræða Eflu, COWI, Deloitte, Enor, KPMG og Geimstofuna, sem fengið hafa samheitið Driftarar. Háskólinn á Akureyri er einnig virkur þátttakandi með nýráðinn verkefnastjóra í frumkvöðla- og nýsköpunarmálum.
Stefnt er að því að hefja aðra Slipptöku í sumar og opna þá fyrir fleiri umsóknir hjá Drift. Sesselja Ingibjörg Barðdal framkvæmdastjóri Driftar segir Akureyri og Eyjafjörð bjóða upp á kjöraðstæður fyrir nýsköpun og vöxt nýrra hugmynda, hvort sem það sé nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum eða ný sprotafyrirtæki. „Hér höfum við allt til alls; háskóla, fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf og blómlegt menningar- og listalíf,“ segir Sesselja og bindur miklar vonir við Hlunninn.