Vigri Togarinn er í sinni síðustu veiðiferð og áhöfninni sagt upp.
Vigri Togarinn er í sinni síðustu veiðiferð og áhöfninni sagt upp. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Áhöfninni á Vigra RE 71 hefur verið sagt upp störfum, en skipið er í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Brims hf. Alls var 52 sjómönnum sagt upp, en þeir munu fá forgang í laus skiprúm á öðrum fiskiskipum fyrirtækisins

Áhöfninni á Vigra RE 71 hefur verið sagt upp störfum, en skipið er í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Brims hf.

Alls var 52 sjómönnum sagt upp, en þeir munu fá forgang í laus skiprúm á öðrum fiskiskipum fyrirtækisins.

Frá þessu var greint á fréttavef Morgunblaðsins, Mbl.is, og vísað í heimildir Fiskifrétta sem greina frá því að skerðing á kvóta sé ástæða uppsagnanna.

Vigri var byggður árið 1992 og er 2,157 brúttótonn að stærð. Togarinn var smíðaður í skipasmíðastöðinni Flekkefjord slipp og maskinfabrikk AS í Noregi. Vigri er 66,96 metra langur og breiddin 13 metrar.

Brim gerir út þrjá frystitogara; Vigra RE 71, Þerney RE 1 og Sólborgu RE 27, en að auki gerir fyrirtækið út þrjá ísfisktogara; Akurey AK 10, Viðey RE 50 og Helgu Maríu RE 3. Línubáturinn Kristján HF 100 er og í flota Brims sem og uppsjávarskipin Venus NS 150, Víkingur AK 100 og Svanur RE 45.

Í samtali við Mbl.is segir Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, að félagsmenn sínir hafi ekki leitað ásjár sjómannafélagsins vegna uppsagnanna. Hann hafi sjálfur frétt af uppsögnunum í fjölmiðlum.

Uppsagnirnar kveður hann ekki koma á óvart þar sem rætt hafi verið um það undanfarin ár að mögulegt væri að Vigra yrði lagt, bæði vegna aldurs togarans sem og ástands búnaðarins um borð og nefnir sérstaklega frystikerfið sem komið sé til ára sinna.

Vigri er nú að veiðum og gera má ráð fyrir að yfirstandandi veiðiferð sé hans síðasta undir merkjum Brims.