Einar Guðberg Norðfjörð fæddist 10. júní 1943. Hann lést 21. janúar 2025.
Útför Einars fór fram 4. febrúar 2025.
Nú hefur kæri afi minn kvatt þennan heim. Þrátt fyrir veikindin sýndi hann alltaf svo mikla auðmýkt, hlýju og kærleika og þær minningar um hann munu lifa með mér að eilífu. Þegar afi greindist með Alzheimer var ég aðeins sjö ára og skildi ekki alveg hvað það þýddi. Hann var þó alltaf hlýr og góður og við afabörnin sáum ekki sjúkdóminn í fyrstu. Afi var alltaf áhugasamur um námið mitt í MR og spurði gjarnan hvernig mér gengi í boltanum þegar ég var yngri.
Þegar ég hugsa til afa koma margar sögur upp í huga minn og einni langar mig til að deila.
Ég og Karítas Björg ákváðum oft að skrifa og skreyta bréf til afa. Í bréfunum óskuðum við oftast eftir jarðarberjaísblómum sem hann átti alltaf til í frystikistunni í kjallaranum. Þá fórum við og settum skreytta bréfið inn um lúguna í Ósabakkanum áður en við hlupum fljótt aftur upp í Maríubakkann. Afi hringdi svo alltaf eða sendi bréf til baka og sagði að við værum auðvitað alltaf velkomnar að koma og fá ísblóm. Þá fórum við aftur í Ósabakkann og eyddum dýrmætum tíma með afa og nutum ísblómanna.
Það var líka alltaf svo gott að eyða áramótunum saman, borða möndlukökur og leysa krossgátur með elsku afa.
Það er ekki hægt að óska sér betri afa. Takk fyrir allt og hvíldu í friði með ömmu, elsku afi Einar.
Þín
Kristín Ísafold.