Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Bifreiðaumboðið BL ehf. hefur sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um breytingu á notkun lóðar fyrirtækisins nr. 2 við Sævarhöfða úr viðskipta- og þjónustulóð í íbúðarlóð, samkvæmt tillögu Arkís arkitekta. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Fram kemur í fyrirspurninni að núverandi byggingar BL myndu víkja og mögulegt yrði að byggja allt að 550 íbúðir á lóðinni. BL myndi því þurfa að finna nýja staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar.
„Við stöndum á tímamótum í þróun Ártúnshöfða, þar sem nýtt skipulag mun breyta svæðinu úr iðnaðar- og viðskiptaumhverfi yfir í nútímalegt og sjálfbært íbúðahverfi,“ segir í fyrirspurn BL.
Með þessari breytingu á virkni lóðarinnar sé stefnt að því að samræma nýtingu svæðisins við framtíðarsýn Reykjavíkur um sjálfbæra og blandaða byggð. Þessi þróun sé þegar komin af stað í svæðinu í kring.
Bent er á að endurskipulagning Ártúnshöfða sé hluti af stærri stefnumótun þar sem áhersla er lögð á samþættingu nýrra og gamalla hverfa með sérstakri tengingu við náttúruperlur eins og Elliðaárvoginn og græna innviði borgarinnar.
Nýtt skipulag svæðisins taki mið af þessum tengingum, þar sem áhersla er lögð á að skapa aðlaðandi og heilbrigt umhverfi fyrir íbúa framtíðarinnar. Tryggt verði að íbúarnir njóti bæði nábýlis við náttúru og tengingar við borgarlífið.
Í fyrirspurninni, sem send er í nafni Arkís arkitekta, er bent á í næsta nágrenni, þ.e. í samþykktu deiliskipulagi fyrir Ártúnshöfða, svæði 1, séu leyfð 3-12 hæða hús og nýtingarhlutfall allt að 4,6. Með fylgja hugmyndir a mögulegu útliti sem eftir er að útfæra.
Heildarstærð lóðarinnar Sævarhöfði 2 er 23.368 fermetrar. Gerð er tillaga að 49.220 fermetra byggingamagni ofanjarðar og 19.340 fermetrum neðanjarðar í bílakjallara. Nýtingarhlutfall verði 2,10. Íbúðir á reitnum verði á bilinu 490 til 550 og meðalstærð íbúða 85-100 fermetrar.
Reiknað er með sameiginlegu rými íbúanna í inngörðum þar sem plantað verði fjölbreyttum gróðri.
Tvö bílaumboð sameinuð
Grunnurinn að bílaumboðinu BL eru tvö fyrirtæki Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf. (B&L), stofnað 1954 og Ingvar Helgason hf, stofnað 1956.
Ingvar Helgason hf. flutti starfsemi sína í nýbyggðar höfuðstöðvar að Sævarhöfða 2 í apríl 1989. B&L flutti starfsemi sína frá Grjóthálsi í Sævarhöfða í mars 2010. Rekstur fyrirtækjanna var sameinaður 2012 í nýtt félag, BL. Er þetta eitt stæsta og umsvifamesta bílaumboð landsins með umboð fyrir 12 framleiðendur bifreiða.
Samanlögð stærð fasteigna að Sævarhöfða 2 er 3.877 fermetrar og brunabótamat er 1.450 milljónir króna. Þessar byggingar verða rifnar ef áformin um íbúðarbyggð á lóðinni fá grænt ljós hjá Reykjavíkurborg.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er Sævarhöfði 2 á skilgreindu miðsvæði (M4a – Höfðar-vestur). Miðsvæði eru svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi. Svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.
Á miðsvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Væntanlega þarf að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Sævarhöfða 2 ef eingöngu verður íbúðarbyggð á lóðinni.
Uppbygging á Ártúnshöfða
Fram kemur á heimasíðu Reykjavíkurborgar að Ártúnshöfði/Elliðaárvogur sé stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði borgarinnar. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta rísi allt að 8.000 íbúðir og að íbúar verði allt að 20.000 talsins.
Á fyrstu uppbyggingarsvæðunum er gert ráð fyrir 3.500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við þjónustu- og atvinnustarfsemi við Krossmýrartorg. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar verði meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið.