Sprengja frá tímum síðari heimsstyrjaldar í nágrenni Gare du Nord-lestarstöðvarinnar í París setti ferðaáform þúsunda í uppnám í gær.
Öllum lestarferðum til og frá lestarstöðinni var aflýst, þar á meðal ferðum Eurostar milli Lundúna og Parísar. Langar biðraðir mynduðust bæði í Gare du Nord og í St. Pancras-lestarstöðinni í Lundúnum þar sem margir sátu með ferðatöskur sínar og leituðu að öðrum leiðum til Frakklands.
Sprengjan, sem er um hálft tonn að þyngd og innihélt 200 kg af sprengiefni, fannst á fimmtudagskvöld nærri brautarteinum í Saint Denis, úthverfi Parísar í um 2,5 km fjarlægð frá Gare du Nord, þegar unnið var að viðhaldi á teinunum. Ekki var talin þörf á að rýma svæðið.
Á fjórða tímanum í gær var tilkynnt að búið væri að gera sprengjuna óvirka og starfsemi myndi smátt og smátt færast í eðlilegt horf þegar liði á kvöldið.
Föstudagurinn byrjaði ekki vel hjá Lundúnabúanum Michelle Abeyie, sem ætlaði ásamt vinum sínum að halda upp á fertugsafmæli sitt í París.
„Við ætluðum að taka 11.30-lestina til Parísar og skoða Louvre-safnið og fara á sýningu í Moulin Rouge,“ sagði Abeyie grátklökk við AFP. „Við erum búin að bóka miða. Ég er afar vonsvikin og í uppnámi.“
Vinir hennar voru hins vegar staðráðnir í að komast til Parísar með einhverjum ráðum og leituðu að lestarferðum til Dover þar sem þeir ætluðu að taka ferju til Calais.
Eurostar sagði síðdegis í gær að aukaferðir yrðu farnar milli Parísar og Lundúna í dag.
Í París riðluðust ferðaáform fjölmargra enda er Gare du Nord fjölfarnasta brautarstöðin í París og ein sú stærsta í Evrópu. Um 260 milljónir farþega fóru um stöðina árið 2023.
Í samtali við AFP um hádegisbil í gær sagði kona að nafni Corinne Schiavenato að hún hefði beðið frá því klukkan 6 um morguninn eftir lest til bæjarins Goussainville norður af París. „Ég reyndi að taka rútu en þær voru allar fullar af farþegum. Ég er sjálfstæður atvinnurekandi og viðskiptavinur hefur beðið eftir mér síðan klukkan 7.“
Talsmenn lestarfyrirtækja sögðu afar óvenjulegt að finna svona stórar ósprungnar sprengjur en í heimsstyrjöldinni hefði fjölda sprengja verið varpað á járnbrautarteina í París, einkum í norðurhluta borgarinnar þar sem margar verksmiðjur var einnig að finna.
Fjöldi ósprunginna sprengja er enn víða í Evrópu þótt 80 ár séu liðin frá heimsstyrjöldinni, einkum í Þýskalandi þar sem slíkar sprengjur finnast oft á byggingarsvæðum.