Rímnaskemmtun Bolti hættu að rúlla!
Rímnaskemmtun Bolti hættu að rúlla!
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Komið hingað blessuð börn/burt með skjá og síma,“ segir Þórarinn Eldjárn í upphafsorðum Dótarímna. Brýnasta mál nútímans er einmitt að eiga stund með börnunum. Í þetta sinn nýtir Þórarinn sér rímnaformið og þá um leið mansönginn þar sem…

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Komið hingað blessuð börn/burt með skjá og síma,“ segir Þórarinn Eldjárn í upphafsorðum Dótarímna. Brýnasta mál nútímans er einmitt að eiga stund með börnunum.

Í þetta sinn nýtir Þórarinn sér rímnaformið og þá um leið mansönginn þar sem bragarsmiðurinn gerist persónulegur: hann „klikkar á kvæðastuði“, „brageitrunin bölvanlega/ blasir við“; og það „brakar í bragliðunum“. En alltaf er hann vongóður um að „allir vísnatakkar virki“ svo að hann geti leitað með börnunum að dóti sem yrkja mætti um.

Í fyrstu rímu rúllar bolti inn (sem síðar springur með hvelli); í næstu rímu birtist bangsi, svo kubbar, vélar, púsl, pleimó, leggur og skel (sem vafasamur gleðigjafi úr forneskju hristir úr „gullastokki“); og loks „æpaddinn“ þar sem „áskoranir“ mæta barninu í blóðugum slag. En áður en leiknum lýkur drepst á tækinu og hleðslusnúran týnist. Þetta fór illa: „Mér er illt í augunum/ öndunin of hröð/ truflanir í taugunum/ tæmd hver heilastöð. Og niðurstaðan: „Aldrei framar gón.“

Æpadds-morðin fengu mjög á skáldið. Allir vildu þó nýjan rímnaskammt, og því var ákveðið að yrkja um bækur. Þetta leiddi síðan til þess að í lok níundu rímu birtist skáldinu bókstaflega „BESTA DÓT SEM ER AÐ FÁ“: íslenskan, sem verður svo viðfangsefni síðustu rímu.

Dótarímur eru bráðskemmtileg áminning. Símanum og skjánum verður ekki úthýst með geðvonsku og nöldri, heldur glensi og gamni – og með því að bjóða eitthvað betra. Til dæmis að yrkja og kveða óð um bolta sem brýtur allt „í mél og mask“, kalla boltann hrekkjusvín og láta orðið bolti koma sex sinnum fyrir í vísu þegar allt er á suðupunkti. „LJÓTI BOLTI – BOLTI STOPP!“

En eftir sprunginn bolta birtist huggun: „Þarna kemur einhver inn/ öðlingurinn BANGSI.“ Hann er með hlýjan og fagran feld úr „fínu gerviefni“ en „dúnmjúkt perlu-innvols úr/ einangrunarplasti“. Augun eru tölur sem vaka yfir drengnum, enda alltaf galopin.

Kastalinn í kubbarímunni fór illa því að „Burðarþolið þoldi' allsekki þungan stromp/ það varð hrun og heyrðist pomp“ (stúfhent). Setjum áhersluþungann á ljóðstafina og látum þá hjálpa okkur að finna taktinn. Börnin þyrstir í hljóm og hrynjandi, og ósjálfrátt festast rímorðin í minni og síðan vísan í heild. Við förum með hana aftur og aftur og skoðum fallegu myndirnar eftir Þórarin Má Baldursson. Taktföst hending, rímið og stuðlunin róa hugann „þegar geislar dagsbirtunnar dofna“ – og innan skamms er barnið sofnað. Næsta ríma bíður næsta dags.

Þegar komið er að tíundu rímu fær barnið til dæmis að sjá að í 26 atkvæða vísu má komast af með fjögur orð, eitt í hverri braglínu – en einnig má fylla vísuna með 26 orðum, einu á atkvæði.

Dótarímur skemmta öllum aldurshópum. Sem áður oft fær Þórarinn okkur til að „gera þetta saman“, og allir græða. Málkenndin glæðist og skilningurinn dýpkar. Börnunum fer að þykja vænt um móðurmálið sitt.