Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir sérstakri dagskrá í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna í dag, laugardaginn 8. mars. Af því tilefni verður til að mynda sýningin List er okkar eina von! opnuð í Hafnarhúsi klukkan 15. Segir í tilkynningu að sýningin státi af nýjum aðföngum, innkaupum og gjöfum, eftir núlifandi konur. Þar megi sjá verk kvenna á öllum aldri, unnin í ýmsa miðla og með tilvísanir í ólík viðfangsefni. „Sýnd eru verk úr veglegri gjöf Gjörningaklúbbsins til safnsins, auk verka sem hafa verið keypt á síðustu fimm árum.“ Þá ber einnig að nefna málþing í tengslum við samsýninguna Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum sem verður haldið í dag milli klukkan 12 og 14 á Kjarvalsstöðum. Skipuleggjandi og fundarstjóri er dr. Æsa Sigurjónsdóttir en erindi flytja þær Becky Forsythe, Heiða Björg Árnadóttir, Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Harpa Björnsdóttir og Brynhildur Þorgeirsdóttir.