Kristján Jóhann Jónsson fæddist 8. mars 1933 í Aðalstræti 17 á Vatneyri í Patreksfirði. Hann lést á líknardeild Landspítalans 22. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Rannveig Guðmundsdóttir húsmóðir og Jón Ingibjörn Jónsson, trésmiður og verkstjóri. Kristján var yngstur sex systkina sem öll eru látin.
Kristján kvæntist á gamlársdag 1965 Valgerði Theodórsdóttur, f. 19. desember 1930, d. 24. mars 2012.
Valgerður átti tvær dætur, Þóru og Heiðu, þegar hún giftist Kristjáni. Kristján varð uppeldisfaðir Þóru og ættleiddi Heiðu. Saman eignuðust þau tvö börn, Ingibjörgu Rannveigu og Theodór.
Börn Kristjáns og Valgerðar eru: 1) Þóra Vignisdóttir, f. 1953, dóttir Valgerðar og uppeldisdóttir Kristjáns. Hún er gift Ragnari Þorsteinssyni f. 1951. Þau eignuðust þrjá syni; Halldór Gunnar, f. 1972, d. 1991, Þorstein Theodór, f. 1978, og Valgeir Örn, f. 1983. 2) Heiða Theodórs Kristjánsdóttir, f. 1956. Hún var gift Ásgeiri Sigtryggssyni, f. 1946, d. 2018. Þau eignuðust þrjár dætur; Valgerði Sif, f. 1995, og tvíburasysturnar Bryndísi Lilju og Snædísi Maríu, f. 1997. Áður átti Ásgeir dæturnar Sigrúnu og Berglindi. 3) Ingibjörg Rannveig Kristjánsdóttir, f. 1966. Sambýlismaður hennar er Júlíus Ármann Júlíusson, f. 1969. Þau eignuðust fjögur börn; Kristján Jóhann, f. 1987, d. 2022, Rakel Kristínu, f. 1993, Söru Valgerði, f. 1995, og Júlíus Aron, f. 2002. 4) Theodór Kristjánsson, f. 1968. Hann var kvæntur Bergþóru Bergsdóttur, f. 1963, og þau eignuðust Ingunni Valgerði, f. 1991. Seinni kona Theodórs er Jarþrúður Þórarinsdóttir, f. 1969. Þau eignuðust þrjú börn; Þórarin Jóhann, f. 2002, Sigurgeir Bjarna, f. 2005, og Guðrúnu Margréti, f. 2010.
Útför fór fram í kyrrþey.
Kristján var farsæll maður í einkalífi og starfi. Hann var hlýr og hjálplegur við alla og vildi öllum gott. Hann var hæglætismaður og nægjusamur á veraldleg gæði en hafði alltaf gaman af að njóta lífsins með sínu fólki, hvort sem var í ferðalögum eða bara að skreppa á kaffihús og spjalla. Hann var alla tíð talsmaður þeirra sem minna mega sín.
Kristján var afskaplega skapandi maður og þurfti alltaf að hafa eitthvað á milli handanna, hvort sem um var að ræða að skrifa texta, mála myndir eða renna í tré.
Kristján innritaðist í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og útskrifaðist þaðan sem leikari 1960. Eftir útskrift í Leiklistarskólanum lék Kristján í fjölda leikrita. Fljótlega tók hann að sér leikstjórn sem varð hans aðalstarf í yfir 20 ár. Hann vann með fjölmörgum leikfélögum um allt land. Samhliða leikstjórninni samdi hann og bjó til flutnings útvarpsleikrit fyrir Þjóðleikhúsið og lék í nokkrum kvikmyndum.
Kristján kvæntist á gamlársdag 1965, Valgerði Theodórsdóttur sem fæddist 19. desember 1930. Hún lést 24. mars 2012. Valgerður var frá Brennistöðum í Flókadal í Borgarfirði. Kristján og Valgerður kynntust þegar hann setti upp leikrit í heimabyggð hennar og hún lék í leikritinu. Kristján sagði alla tíð að uppsetning á því leikriti hefði verið hans gæfa og stærsti sigur, að krækja í leikkonuna Valgerði. Valgerður og Kristján keyptu sér 1966 íbúð að Einarsnesi 78 í Skerjafirði í Reykjavík og bjuggu þar alla tíð, hún í 46 ár og hann í 58 ár.
Strax sem ungur maður hóf Kristján að skrifa unglingabækur undir rithöfundarnafninu Örn Klói. Bækurnar hans um Jóa, Kittý Mundu og ævintýri þeirra urðu alls átta og urðu geysivinsælar meðal ungmenna á árunum 1955-1963. Um 1990 byrjaði hann að skrifa unglingabækur undir eigin nafni og gefnar voru út um tíu bækur eftir hann sem voru mikið lesnar. Eftir að Kristján kvaddi leikhúsin þá vann hann um árabil hjá Eimskip og í fjölda ára sem sundlaugarvörður í Laugardalslauginni.
Uppeldisstaður Valgerðar, Brennistaðir í Flókadal, var alla tíð athvarf þeirra hjóna í sumarfríum og eftir að þau hættu að vinna. Þau eignuðust gamla húsið á Brennistöðum og góða lóð í kringum það. Gleði þeirra og ánægja fólst í því að vera í sveitinni, hafa snyrtilegt í kringum sig, Valgerður í garðinum og Kristján að lagfæra húsið.
Hann saknaði alla tíð Valgerðar sinnar og þegar heilsan fór að gefa sig og undir það síðasta leit hann þakklátur yfir líf sitt í þeirri vissu að Valgerður tæki á móti honum í Sumarlandinu og þar héldi líf þeirra áfram um alla eilífð.
Kristján var sjálfstæður maður og vildi helst sjá um sig sjálfur og köttinn sinn, hann Klóa, sem veitti honum mikinn félagsskap.
Við leiðarlok viljum við og fjölskylda okkar þakka samfylgdina og allar góðar stundir með Kristjáni. Við minnumst Kristjáns með þakklæti og virðingu.
Þóra og Ragnar.