Eftirlit Þótt allsherjargoðinn og forsetafrúin hafi haft vakandi auga á WOW air þarna er ljóst að Samgöngustofa beindi lengi blinda auganu.
Eftirlit Þótt allsherjargoðinn og forsetafrúin hafi haft vakandi auga á WOW air þarna er ljóst að Samgöngustofa beindi lengi blinda auganu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rekstrarvandi WOW air tók að teiknast upp þegar uppgjör ársins 2017 lá fyrir. Tapið reyndist 2,4 milljarðar króna. Enn syrti í álinn á fyrstu mánuðum ársins 2018 og kvisast tók út að hökt væri á rekstrinum

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Rekstrarvandi WOW air tók að teiknast upp þegar uppgjör ársins 2017 lá fyrir. Tapið reyndist 2,4 milljarðar króna. Enn syrti í álinn á fyrstu mánuðum ársins 2018 og kvisast tók út að hökt væri á rekstrinum. Var það í samræmi við það sem birtist í bókum Icelandair, og hafði raunar gert um alllangt skeið. Munurinn á félögunum tveimur var þó sá að síðarnefnda félagið var skráð á hlutabréfamarkað og skilaði opinberu uppgjöri ársfjórðungslega en WOW air var að fullu og öllu leyti í eigu Skúla Mogensen. Stundum birti félagið hálfsársuppgjör, en annars ekki. Eftir á að hyggja virðist þar fyrst og síðast hafa ráðið för hvort upp gat teiknast hagfelld mynd eða ekki.

Það segir sína sögu einna helst að 20. ágúst 2018 fundaði sérstakur starfshópur stjórnvalda um mögulegan viðbúnað stjórnvalda vegna erfiðleika í flugrekstri. Var farið með þá fundi eins og mannsmorð – eðli málsins samkvæmt – enda alkunna að ef markaðurinn fær það á tilfinninguna að þungt sé í ári hjá flugfélagi dragast bókanir umsvifalaust saman. Fólk ætlar ekki að sitja uppi með ónýta miða þegar að ferðalagi kemur.

Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra ræddi við fréttamann Ríkisútvarpsins sama dag og starfshópurinn fundaði og sagði hún þar að ekki hefði komið til tals að ríkið myndi grípa inn í vegna erfiðrar stöðu flugfélaganna. Sagði hún þó að ríkisstjórnin fylgdist vel með þróun mála.

Forsætisráðherra tjáir sig

„Það liggur algjörlega fyrir að staðan á evrópskum flugmarkaði almennt er þung, þannig að við fylgjumst auðvitað náið með þróun mála. En þetta eru auðvitað einkafyrirtæki á markaði og það ber auðvitað að líta til þeirra sem slíkra,“ sagði Katrín.

Ekki er að fullu ljóst hvað varð til þess að starfshópurinn kom saman, en ekki er ósennilegt að þar hafi haft talsverð áhrif að sex dögum fyrr hafði lekið út fjárfestakynning sem verðbréfafyrirtækin Pareto Securities og Arctica Finance höfðu unnið fyrir WOW air og ætlað var að afla flugfélaginu nokkurra milljarða í sjóði til þess að fleyta því fram á árið 2019.

Fyrirhugað skuldabréfaútboð var mikilvægt fyrir fyrirtækið, ekki síst í ljósi þeirra fyrirætlana sem Skúli Mogensen hafði kynnt á árinu 2017 þess efnis að WOW færi á hlutabréfamarkað árið 2019 í kjölfar hlutafjárútboðs. Skuldabréfaútgáfan átti því að þjóna sem eins konar brúarfjármögnun fram að þeim darraðardansi öllum.

Þá verður einnig að skoða viðbrögð forsætisráðherra og fundi starfshópsins í ljósi þess að samgönguráðuneytið, undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, virðist hafa rumskað strax á vordögum 2018. Þannig kallaði ráðuneytið á þeim tíma eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um það með hvaða hætti eftirliti stofnunarinnar væri háttað með WOW air.

Síðar fór Ríkisendurskoðun yfir þau samskipti og til hvers þau leiddu og var niðurstaða stofnunarinnar sú að nauðsynlegar breytingar, sem kallað hefði verið eftir af hálfu ráðuneytisins og vörðuðu eftirlitið með flugfélaginu, hefðu ekki náð fram að ganga þegar kom fram í ágúst.

Ráðuneytið hlutast til

Varð það til þess að ráðuneytið sendi Samgöngustofu, sem þá var undir stjórn Þórólfs Árnasonar, leiðbeiningar og fyrirmæli í september um það með hvaða hætti stofnuninni bæri að haga þessu starfi sínu.

Þegar Ríkisendurskoðun opinberaði þetta árið 2021 ræddi blaðamaður Vísis við Sigurð Inga og var hann ómyrkur í máli: „En við bentum á að eftirlit með fjárhagsstöðunni væri ekki eins og við töldum eðlilegt.“

Þetta hnútukast milli Samgöngustofu og ráðuneytis samgöngumála er afar áhugavert þegar litið er um öxl, enda Samgöngustofa sú stofnun ríkisins sem hefur eftirlit með flugfélögum og flugrekendum með hendi. Er það eftirlit niðurnjörvað og samevrópskt. Lýtur það fyrst og síðast að flugöryggi en hluti af þeirri jöfnu telst rekstrarhæfi fyrirtækjanna sem undir eftirlitið heyra. Slælegur rekstur og þröngt bú getur leitt til freistnivanda eða yfirsjóna sem komið geta niður á flugöryggi. Á það ekki síst við kostnaðarsamt viðhald sem öllu skiptir, en einnig mönnun og eftirfylgni við að verklag sé eins og best verður á kosið.

Því gilda mjög strangar reglur um það hvernig fjármögnun flugfélaga skuli háttað og verða þau að geta sýnt fram á rekstrarhæfi, langt umfram þær kröfur sem gerðar eru almennt til fyrirtækja. Verða félögin að geta sýnt fram á að lausafjárstaða þeirra geri þeim kleift að halda starfseminni áfram mánuðum saman, jafnvel þótt algerlega myndi skrúfast fyrir fjármagn inn á bækur þeirra.

Stofnunin rumskar

Það var í byrjun september sem sífellt fleiri áttuðu sig á að staða WOW air var orðin mjög slæm. Þann 7. september skipaði samgönguráðuneytið Samgöngustofu að hefja ítarlegt fjárhagseftirlit með WOW air. Það tók hins vegar stofnunina nokkurn tíma að bregðast við og hófst það eftirlit ekki fyrr en sléttum tveimur vikum síðar eða þann 21. september. Það var eftir að tilkynnt var um að á sjöunda milljarð króna hefðu safnast í skuldabréfaútboði fyrirtækisins.

Eftir þetta var WOW air svo að segja í gjörgæslu eftirlitsstofnunarinnar. Hún lét þó aldrei til skarar skríða. Félagið var enn með ótakmarkað flugrekstrarleyfi þegar það féll í lok marsmánaðar 2019. Á þeim tímapunkti sem það gerðist var forstjóri Samgöngustofu staddur á sólarströnd úti fyrir ströndum Afríku.

Í kjölfar falls WOW air var ráðist í úttekt á framgöngu Samgöngustofu. Ráðherra auglýsti stöðu forstjóra stofnunarinnar og nýr maður fékkst í brúna.

Nýverið lauk endurmati á úttekt Ríkisendurskoðunar og þeim lærdómi sem draga mátti af henni. Um þann kafla í þessari mögnuðu sögu verður fjallað síðar.

Hér á eftir getur að líta tímalínu þar sem dregnir eru fram helstu atburðir sem tengjast þessari tilteknu umfjöllun um fall flugfélagsins WOW air.

tímalína

2018

1. janúar 2,4 milljarða króna tap verður af rekstri WOW air á árinu 2017.

15. ágúst Fjölmiðlar greina frá fyrirætlunum um stórtækt skuldabréfaútboð hjá WOW air.

20. ágúst Starfshópur stjórnvalda fundar um viðbúnað við mögulegum erfiðleikum hjá flugfélögunum.

7. september Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gefur Samgöngustofu fyrirmæli um að ítarlegt mat verði gert á fjárhagsstöðu WOW air.

12. september Drög eru tilbúin að viðbragðsáætlun ef starfsemi flugfélags stöðvast.

15. september Morgunblaðið greinir frá því að WOW air skuldi Isavia á Keflavíkurflugvelli 2 milljarða króna í lendingar- og þjónustugjöld.

18. september Skuldabréfaútboði WOW air lýkur. Félagið segist hafa safnað 6,8 milljörðum en margir fyrirvarar lágu þar að baki.

21. september Samgöngustofa ræðst í ítarlegt eftirlit með fjárhagsstöðu WOW air.

5. nóvember Tilkynnt að Icelandair hafi keypt allt hlutafé í WOW air með fyrirvörum.

29. nóvember Fallið frá kaupum Icelandair á WOW air. Viðræður hefjast milli eiganda WOW air og Indigo Partners.

30. nóvember Samgöngustofa sendir WOW bréf og gerir athugasemdir við hugmyndir um hvernig möguleg aðkoma Indigo að kaupum WOW yrði.

6. desember Samgöngustofa lýsir því yfir í bréfi að ekki sé nægilega langt gengið í hugmyndum um aðkomu Indigo Partners. Staða WOW sögð ófullnægjandi og að til skoðunar sé að takmarka eða afturkalla flugrekstrarleyfi.

2019

1. janúar Tap WOW air á árinu 2018 reynist 22 milljarðar króna.

1. mars Samgöngustofa lýsir því yfir í bréfi til WOW air að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé ekki fullnægjandi og uppfylli ekki kröfur reglugerða. Takmörkun eða afturköllun flugrekstrarleyfis í skoðun.

15. mars Samgöngustofa færir til bókar að WOW hafi tilkynnt að menn sæju til lands með fyrirvara um þátttöku og biðlund kröfuhafa. Lokatilraun til fjárhagslegrar endurskipulagningar sé hafin.

21. mars. Indigo Partners slítur viðræðum við WOW air. Viðræður teknar upp að nýju við Icelandair. Samgöngustofa kallar eftir upplýsingum um hvaða áhrif viðræður við Icelandair kunni að hafa á afstöðu skuldabréfaeigenda, lausafjárstöðu og sjóðstreymi.

24. mars Icelandair útilokar kaup á WOW air.

26. mars Samgöngustofa sendir síðasta bréfið til WOW air. Þar kemur fram að WOW hafi fengið samþykki fyrir því að breyta kröfum skuldabréfaeigenda í hlutafé. Aðrir kröfuhafar fái möguleika á greiðslu í formi nýs hlutafjár. Þar kemur fram að ekki sé hægt að framlengja frestinn til ákvörðunar um stöðu flugrekstrarleyfis sem áður hafði verið veittur.

27. mars Vélar WOW air eru kyrrsettar í Bandaríkjunum og Kanada.

28. mars Flugrekstrarleyfi WOW air skilað inn og fyrirtækið lýst gjaldþrota.

Höf.: Stefán E. Stefánsson