Einstakur Þorskur er dýr hágæðavara sem fólk er tilbúið að greiða fyrir.
Einstakur Þorskur er dýr hágæðavara sem fólk er tilbúið að greiða fyrir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það kann að vera lítil ástæða til að óttast innflutningstolla á íslenskar sjávarafurðir til Bandaríkjanna, að minnsta kosti í tilfelli þorsksins þar sem hann er orðinn dýr hágæðavara og er víða að finna kaupendur sem tilbúnir eru að greiða hátt verð

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það kann að vera lítil ástæða til að óttast innflutningstolla á íslenskar sjávarafurðir til Bandaríkjanna, að minnsta kosti í tilfelli þorsksins þar sem hann er orðinn dýr hágæðavara og er víða að finna kaupendur sem tilbúnir eru að greiða hátt verð.

Þetta segir Friðleifur Friðleifsson, sölustjóri frystra afurða hjá Iceland Seafood, inntur álits á horfunum á Bandaríkjamarkaði í ljósi stefnu þarlendra yfirvalda í tollamálum.

„Ef tollur er settur á íslenskan þorsk á Ameríkumarkaði þá hækkum við bara verðið, því þessi fiskur getur í dag leitað á aðra markaði. Það er liðin tíð að við eigum að framleiða þorskafurðir fyrir hvern sem er. Tollur á íslenskar afurðir inn á Bandaríkjamarkað er aldrei fagnaðarefni, ég mun aldrei styðja álagningu slíkra tolla, en ég held að í tengslum við þorskinn þá séum við með spil á hendi sem gerir okkur einfalt fyrir að leysa það mál ef sú staða kemur upp. Jafnvel fyrir ýsuna líka,“ segir Friðleifur.

Úrvalsvara

Friðleifur segir þorskinn kónginn í sjávarafurðum. „Við erum í mjög sterkri stöðu í þorski á þessum markaði. Við seljum mikið af dýrum ferskum vörum, hnökkum og bitum, til Bandaríkjanna. Þetta er hágæðavara sem unnin er hér á Íslandi og við fáum mjög gott verð fyrir hana. Ef staðan heldur áfram svona þá munu verð bara halda áfram að hækka.“

Þá segir hann þorskinn einnig sérstaklega í sterkri stöðu þar sem mikil eftirspurn sé eftir honum í mörgum afurðaflokkum á mörgum mörkuðum, hvort sem það er í Evrópu eða Norður-Ameríku. „Þorskurinn getur farið í saltaðar afurðir, ferskar, frosnar eða fisk og franskar í Bretlandi. Þorskurinn hefur svo marga snertifleti í markaðsstarfi okkar að ég hef mjög litlar áhyggjur af þorski verðlega séð, allavega út þetta ár og jafnvel fram á næsta ár.“

En getur verð á þorski hækkað endalaust, eru einhver efri mörk hvað verð varðar þar sem neytendur byrja að hafna þorskinum?

„Við þurfum að leita í ákveðin lög af markaðnum með okkar vörur. Ég held að það sé löngu tímabært að við reynum að hætta að fóðra heiminn á þorski. Við eigum að selja þeim sem geta borgað það sem þarf til að sækja þetta og vinna þetta. Þegar horft er á sjósóknina, framleiðsluna og hátæknina sem við erum með, þá er alveg eðlilegt að þetta sé dýr vara. […] Það er ekki endilega eðlilegt að þessi vara sé þá í öllum lögum markaðarins.“

Ítarlegra viðtal við Friðleif verður birt á 200 mílum á mbl.is í dag.

Tollastríð

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur í tvígang tilkynnt tolla á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína en síðan slegið þeim á frest.

Einnig hafa verið viðraðar hugmyndir um tolla á evrópskar vörur, einkum Evrópusambandið.

Óvíst er hvort Ísland verði fyrir barðinu á tollaaðgerðum stjórnvalda í Bandaríkjunum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson