Formaður Heiða Björg Hilmisdóttir.
Formaður Heiða Björg Hilmisdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Laun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra vegna formennsku hennar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa hátt í þrefaldast frá árinu 2023. Í upphafi árs voru stjórnarlaun formanns sambandsins 762.921 króna á mánuði, en þau voru 285.087 krónur í upphafi árs 2023

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Laun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra vegna formennsku hennar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa hátt í þrefaldast frá árinu 2023.

Í upphafi árs voru stjórnarlaun formanns sambandsins 762.921 króna á mánuði, en þau voru 285.087 krónur í upphafi árs 2023. Nemur hækkun síðustu tveggja ára því um 170%.

Til viðbótar við stjórnarlaun fær Heiða Björg 105.750 kr. vegna aksturs og nema heildarlaun hennar vegna formennskunnar því 868.671 krónu á mánuði.

Samkvæmt reglum sem samþykktar voru á síðasta ári fær formaður stjórnar greidd 50% af þingfararkaupi óháð fjölda funda, auk 750 km aksturs.

Þess má geta að almenn stjórnarlaun sambandsins voru 274.651 í byrjun árs samanborið við 171.051 í byrjun árs 2023 og nemur hækkun þeirra því 60% á tveimur árum.

Einn styttri fjarfundur bæst við

Í svari sambandsins við fyrirspurn Morgunblaðsins um kjör formannsins var tekið fram að fundum stjórnar hefði verið fjölgað úr einum í tvo á mánuði.

Blaðamaður spurði í kjölfarið hvers vegna þeim hefði verið fjölgað og hvort það helgaðist af mikilli fjölgun verkefna.

„Stjórn fundar, sem fyrr, einu sinni í mánuði á staðfundi en fundar einnig einu sinni í mánuði á styttri fjarfundi. Það var í raun bara gert til þess að einfalda afgreiðslu mála og auka skilvirkni,“ segir í svari sambandsins.

Með tæpar 4 milljónir á mánuði

Morgunblaðið hefur áður fjallað um að heildarlaun Heiðu Bjargar nemi rúmlega 3,8 milljónum króna.

Þar af fær hún um 2,6 milljónir greiddar sem borgarstjóri samkvæmt ráðningarsamningi, um 155 þúsund krónur vegna starfskostnaðar og um 229 þúsund krónur vegna stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu auk áðurnefndra launa fyrir stjórnarformennsku í sambandinu.

Heiða Björg var kjörin formaður sambandsins haustið 2022. Hún hefur sem kunnugt er gegnt embætti borgarstjóra frá því í síðasta mánuði.

Mikill styr hefur staðið um formanninn innan sambandsins að undanförnu, eins og Morgunblaðið hefur fjallað um, eftir að hún fór gegn vilja stjórnar SÍS í kennaradeilunni.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir