Pistill
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Mig langar að trúa því að mýktin sigri hörkuna eins og listamaðurinn Sverrir Norland talar um í viðtali hér á síðunni. En miðað við heimsmyndina sem við búum nú við dvínar hratt sú von í hjarta mínu. Þegar engin takmörk eru fyrir lágkúrunni og illskunni sem vellur út úr Hvíta húsinu fallast manni hendur.
Sem kaldastríðsbarn man ég eftir ógninni úr austri; ég man eftir óttanum við kjarnorkusprengjur; óttanum að þriðja heimsstyrjöldin yrði að veruleika. Í huga barnsins gat stórveldið Bandaríkin aðeins komið í veg fyrir slíkt. Í dag eru börnin okkar haldin ótta, enda heyra þau foreldra ræða saman um heimsmálin og þau eldri lesa sjálf fréttir. Hef ég heyrt að börn allt niður í leikskólaaldur hræðist manninn í Hvíta húsinu.
Ég held að óhætt sé að fullyrða að fæstir Vesturlandabúar aðhyllast hugmyndafræði Trumps, sem veður yfir allt og alla á skítugum skónum, algjörlega laus við nokkuð sem heitir samkennd. Það sást best á myndbandi sem birtist á miðli hans fyrir skömmu þar sem mátti sjá hann, Elon Musk og Netanjahu spóka sig um á fagurri strönd á Gasa; eins konar útópíuheimi Trumps þar sem peningum rignir úr lofti og gullstytta af Trump gnæfir yfir stræti og torg. Þarna sýndi Trump sitt rétta andlit; engin er virðingin fyrir fólki í hörmulegu stríði, engin samúð, aðeins grín og glens og sjúklegar hugmyndir um auð og völd. Það er varla hægt að leggjast lægra.
Þó má búast við að það gerist.
Uppákoman í Hvíta húsinu þegar Selenskí mætti þar til fundar er annað dæmi um innræti forsetans sem bandaríska þjóðin kaus yfir sig, og það í annað sinn. Eins og flestir sáu fór allt í háaloft þegar Trump og Vance bókstaflega réðust að Selenskí með öskrum, sögðu manninn ekki nógu þakklátan og sökuðu hann um að stuðla að þriðju heimsstyrjöldinni. Selenskí, hetjan sem rær lífróður fyrir land sitt og þjóð, komst varla að, en þarf nú líklega að leggjast við fætur forsetans og grátbiðja hann um aðstoð, en ljóst er að án aðstoðar Bandaríkjanna mun stríðið aðeins halda áfram.
Þvílík hneisa fyrir Bandaríkjamenn, enda gengur nú hálf þjóðin um með hauspoka. Maðurinn má sannarlega skammast sín en það kann hann alls ekki, þvert á móti. Þessi sirkus tekur engan enda. Því miður eru þrjú ár og tíu mánuðir eftir af einræðistilburðum Trumps. Maður óttast líka að hann nái til sín Grænlandi á einhvern hátt en hvað svo? Erum við óhult, eða vill hann líka gera Ísland að ríki í Bandaríkjunum?