Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist sannfærður um að rétt hafi verið að rannsaka sakborningana Sindra Snæ Birgisson og Ísidór Nathansson á grundvelli hryðjuverkaákvæðis

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist sannfærður um að rétt hafi verið að rannsaka sakborningana Sindra Snæ Birgisson og Ísidór Nathansson á grundvelli hryðjuverkaákvæðis.

Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2022 þegar lögregla blés til blaðamannafundar eftir að fjórir voru handteknir í aðgerðum lögreglu í Holtasmára í Kópavogi og síðan í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ.

Kom fram á blaðamannafundi ríkislögreglustjóra í kjölfar þess að ætla mætti að sakborningarnir væru að skipuleggja árás á stofnun og var Alþingi síðar nefnt í því samhengi. Sagt var á þeim tíma að hættuástandi hefði verið afstýrt. Grímur var í forsvari á blaðamannafundinum ásamt Karli Steinari Valssyni hjá ríkislögreglustjóra og Sveini Ingibergi Magnússyni hjá héraðssaksóknara.

Síðan hafa þeir Sindri og Ísidór tvívegis verið sýknaðir í hryðjuverkaþætti málsins en Landsréttur dæmdi þá í 18 og 12 mánaða fangelsi fyrir vopnalagabrot.

„Það lá fyrir að það gæti brugðið til beggja vona hvernig hryðjuverkaákvæðið yrði túlkað í hegningarlögunum. Að því leyti til kemur niðurstaðan ekki endilega á óvart enda var niðurstaðan samhljóðandi með héraðsdómi,“ segir Grímur.

Grímur kveðst ekki telja að farið hafi verið of geyst þegar málið var kynnt fjölmiðlum. „Ég lít þannig á að á þessum tímapunkti hafi verið full ástæða til rannsóknar á þessum gögnum sem voru fyrirliggjandi. Og það hefur komið fram undir rekstri málsins að vitnað var til skýrslu Europol þar sem niðurstaðan var sú að full ástæða hafi verið til rannsóknar. Það má ekki gleyma því að þarna varð niðurstaðan 18 mánaða dómur fyrir vopnalagabrot, sem ekki er léttvægt,“ segir Grímur.

„Rannsóknin er algjörlega sjálfstæð og svo hið sjálfstæða ákæruvald sem tekur við málinu þegar rannsókninni er lokið og metur hvort ákæra á eða ekki,“ segir Grímur. vidar@mbl.is