Ríflega 40% háskólakennara mælast með mikil eða mjög mikil einkenni kulnunar og eru þ.a.l. í hættu á kulnunarröskun samkvæmt nýrri rannsókn sem byggð er á könnun meðal háskólafólks. Önnur könnun frá árinu 2022 benti í sömu átt

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ríflega 40% háskólakennara mælast með mikil eða mjög mikil einkenni kulnunar og eru þ.a.l. í hættu á kulnunarröskun samkvæmt nýrri rannsókn sem byggð er á könnun meðal háskólafólks. Önnur könnun frá árinu 2022 benti í sömu átt.

Ragna Benedikta Garðarsdóttir, prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands, sem stendur að þessum rannsóknum, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að háskólakennarar séu undir miklu og vaxandi vinnuálagi. Sífelld togstreita á milli starfsþátta valdi hvað mestu álagi. Einkenni kulnunar eru mest áberandi meðal ungra háskólakennara. „Við sjáum að unga fólkinu sem er nýkomið í kennslustörf, lektorum og aðjunktum, er hreinlega drekkt í vinnu,“ segir hún.

Auk kennsluálags geri háskólar nú ríka kröfu um að fjölga birtingum greina í ritrýndum tímaritum. „Sú krafa hefur mögulega og algerlega þvert á markmið dregið úr gæðum rannsókna,“ segir hún. Háskólafólki gefist ekki nægur tími til að greina gögn og koma þeim almennilega til skila ef keppast þarf við að birta fjölda greina á hverju ári. Þetta hafi leitt til þess að sumir séu farnir að stunda það sem nefnt er „salami slicing“, að skera pylsuna þunnt og gefa út margar þynnri greinar, sem eru þá kannski lakari fyrir vikið. „Það má líkja þessu við hraðtísku frekar en að búa til vandaðar flíkur.“

Að sögn Rögnu veigrar ungt fólk sér við að fara í doktorsnám vegna þess að launin eru lág. „Ef unga fólkið okkar hefur ekki lengur áhuga á að fara í doktorsnám þá erum við ekki samkeppnishæf þjóð,“ segir hún.

Höf.: Ómar Friðriksson