Haraldur Karlsson
Plast er orðið ómissandi hluti af daglegu lífi okkar en hefur skapað eina alvarlegustu umhverfisógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Míkróplast, agnir minni en 5 millimetrar, er nú að finna alls staðar – í vatni, lofti, jarðvegi og í líkömum okkar.
Rannsóknir hafa sýnt að míkróplast getur smogið í gegnum húð okkar og lungu, og safnast upp í líffærum eins og heila þar sem það getur náð allt að 7 grömmum að meðaltali hjá fullorðnum einstaklingum. Þessar agnir halda áfram að safnast upp með tímanum án þess að líkaminn geti losað sig við þær á skilvirkan hátt. Vísindamenn hafa vaxandi áhyggjur af langtímaáhrifum þessarar uppsöfnunar á heilsu okkar, þar sem míkróplast getur innihaldið eitruð efni og valdið bólgum í vefjum.
Plastframleiðendur hafa á kænlegan hátt fært ábyrgðina yfir á neytendur. Árið 1971 settu drykkjarvöruframleiðendum herferðina „Keep America Beautiful“ af stað af til að beina athyglinni frá eigin framleiðsluaðferðum og yfir á hegðun neytenda. Þessi áróðursherferð skapaði hugmyndina um að mengun væri vandamál einstaklingsins en ekki framleiðandans. Á meðan halda þessi fyrirtæki áfram að framleiða einnota plastvörur í gríðarlegu magni.
Stjórnvöld um allan heim hafa brugðist í að setja skilvirkan lagaramma utan um plastframleiðslu. Þau hafa látið undan þrýstingi frá iðnaðinum og samið veika lagasetningu sem leyfir áframhaldandi offramleiðslu á plasti. Í mörgum tilfellum eru lögin hönnuð til að líta út fyrir að vera umhverfisvæn en innihalda í raun glufur sem fyrirtæki geta nýtt sér. Endurvinnslukerfi eru oft ófullnægjandi og mikið af plasti sem við flokkum endar samt sem áður á urðunarstöðum eða í höfunum.
Til að takast á við þetta vandamál þurfum við að krefjast ábyrgðar frá framleiðendum og stjórnvöldum. Við þurfum að þrýsta á um strangari reglur um plastframleiðslu, bann við óþarfa einnota plasti og raunverulega ábyrgð framleiðenda á vörum sínum allan lífsferil þeirra. Þetta er ekki vandamál sem neytendur einir geta leyst, heldur krefst það kerfisbreytinga á því hvernig við framleiðum, notum og förgum plasti.
Höfundur er myndlistarmaður.