Þýskaland
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Tilfinningin er frábær. Ég er mjög ánægð með þetta næsta skref hjá mér,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið. Hún skrifaði á fimmtudag undir tveggja ára samning við þýska félagið Blomberg-Lippe og gengur til liðs við það að yfirstandandi tímabili með Val loknu.
Hjá Blomberg-Lippe hittir Elín Rósa fyrir tvo liðsfélaga sína í íslenska landsliðinu, þær Díönu Dögg Magnúsdóttur og Andreu Jacobsen. Spurð hvort það hafi skipt hana máli að tveir íslenskir leikmenn væru fyrir hjá félaginu sagði Elín Rósa:
„Já, auðvitað. Það var kannski ekkert sem ég hugsaði fyrir fram en svona eftir á að hyggja er það ekkert smá gott fyrir mig. Þær eru strax búnar að hjálpa mér fullt. Það er mjög gott að hafa þær þarna.“
Elín Rósa er 22 ára gömul, leikur í stöðu leikstjórnanda og vinstri skyttu og hefur verið lykilmaður hjá sigursælu liði Vals undanfarin ár eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu Fylki árið 2019.
Þurfti rétta tímapunktinn
Hefur þér áður boðist að fara í atvinnumennsku?
„Já, en maður var kannski ekki alveg á þeim stað þá. Bæði út af náminu sem ég er í og ég var ennþá að einbeita mér að deildinni hérna heima. Mér fannst þetta vera fullkominn tímapunktur fyrir mig núna,“ sagði hún.
„Ég er í sálfræði í HÍ. Ég er að klára BS en mun reyndar eiga einn áfanga eftir vegna þess að ég er að taka aukagrein. En það er bara einn áfangi,“ sagði Elín Rósa, spurð að því hvað hún væri að læra.
Þó að Elín Rósa hafi í raun ekki litið til þess að halda út í atvinnumennsku fyrr en nú sagði hún það ekki breyta því að það hefði ávallt verið markmið sitt.
„Þetta var alltaf markmið sem maður stefndi hundrað prósent að en það þurfti bara að finna rétta tímapunktinn. Að finna hvenær ég væri tilbúin, bæði líkamlega og auðvitað andlega.
Þetta er svo risastórt skref að ég vildi ekki hoppa á neitt án þess að vera búin að hugsa þetta vel og vandlega.“
Ótrúlega spennandi
Blomberg-Lippe er á meðal sterkustu liða þýsku 1. deildarinnar. Liðið tapaði nýverið í úrslitum þýsku bikarkeppninnar, er í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar og í fjórða sæti deildarinnar af 12 liðum.
Hverju býstu við af dvöl þinni hjá sterku liði Blomberg-Lippe?
„Ég vonast til að þróa minn leik sem handboltakona. Þetta félag er þekkt fyrir það að þróa og bæta leikmenn, er með sterkt lið og góða umgjörð. Þetta var ótrúlega spennandi þegar þau höfðu samband.“
Gott skref fyrir nöfnurnar
Á fimmtudag var einnig tilkynnt að nafna hennar og liðsfélagi í íslenska landsliðinu, Elín Klara Þorkelsdóttir, væri búin að semja við sterkt lið, Svíþjóðarmeistara Sävehof. Elín Rósa telur það góðs viti að landsliðskonur fari í sterk erlend lið.
„Já, ég held að þetta sé gott skref fyrir okkur báðar og fyrir landsliðið af því að deildirnar þarna úti eru aðeins sterkari. Þú ert að spila á móti sterkum leikmönnum.
Svo eru jafnari lið heldur en í deildinni heima. Auðvitað hefur það áhrif í hvernig umhverfi þú spilar og æfir þannig að þetta er klárlega gott skref fyrir okkur nöfnurnar!“
Ennþá mikið í boði með Val
Þó að spennandi tímar séu fram undan hjá henni með nýju félagi er enn til margs að vinna með Val. Deildarmeistaratitill blasir við og Valur freistar þess að verða Íslandsmeistari þriðja árið í röð auk þess sem liðið er komið í undanúrslit Evrópubikarsins.
„Mér líður eins og það sé mjög langt í að ég fari út þó að það sé ekki þannig, af því að það er svo mikið eftir, mikið í boði. Fókusinn er klárlega ennþá hérna heima og það er allt of mikið eftir til þess að vera farin eitthvað of langt fram í tímann,“ sagði Elín Rósa.
Hún reiknar ekki með því að það verði erfitt fyrir sig að halda einbeitingu á Val.
„Nei, ég held ekki. Einbeitingin er hundrað prósent hjá Val akkúrat núna. Þetta lið sem við erum með er geggjað og ég er ógeðslega spennt fyrir framhaldinu. Við erum búin að eiga frábær síðustu ár þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að þetta trufli neitt.“
Spenna heima og í Evrópu
Ertu bjartsýn á að þið verjið Íslandsmeistaratitilinn og farið jafnvel alla leið í Evrópubikarnum?
„Já, já, maður þarf að vera bjartsýnn og við erum með frábært lið. En það er nóg eftir og það getur allt gerst. Við erum ótrúlega spenntar fyrir framhaldinu hér heima og líka í Evrópu.
Það fer mikill tími í þetta allt saman. Við erum með fullan fókus á þessu og mjög spenntar fyrir framhaldinu,“ sagði Elín Rósa að lokum í samtali við Morgunblaðið.