Ég hafði reynt að svipta mig lífi og var inni á geðdeild. Ég gæti ekki nefnt eitt einasta lag með Lamb of God en þeir voru með bókina þína, Dark Days, þar inni. Ég las hana og hún hjálpaði mér að setja mínar eigin raunir í samhengi. Ég stend í ævilangri þakkarskuld við þig – bókin hjálpaði mér að komast burt frá mjög dimmum stað. Og hún hjálpar mér enn.“
Eitthvað á þessa leið komst bláókunnugur maður að orði við bandaríska málmlistamanninn og rithöfundinn Randy Blythe á dögunum þegar fundum þeirra bar saman. Blythe var þá að kynna og árita nýjustu bók sína, Just Beyond The Light: Living With The War Inside My Head.
„ÞETTA er ástæðan fyrir því að ég er að þessu [skrifa bækur],“ sagði Blythe á samfélagsmiðlum sínum. „Að heyra ÞETTA og vita að ég hef haft áhrif á líf einhvers. Það eru ógnvekjandi og galnir tímar í heiminum nú um stundir. Höldum því vöku okkar og styðjum hvert annað. Vegna þess að þegar allt kemur til alls þá erum VIÐ allt sem VIÐ eigum að.“
Fyrir þau ykkar sem ekki þekkja Randy Blythe þá er hann söngvari málmbandsins Lamb of God frá Richmond í Virginíu sem notið hefur lýðhylli undanfarna þrjá áratugi. Fyrsta bók hans, Dark Days: A Memoir, kom út 2015 og vakti mikla athygli og seldist vel. Þar fjallar Blythe meðal annars um manndrápsákæru á hendur honum en hann var handtekinn í Tékklandi árið 2012 fyrir að hafa hrint aðdáanda af sviðinu á tónleikum Lamb of God með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka sem drógu hann til dauða. Niðurstaða dómstóla var sú að Blythe hefði sannarlega hrint manninum af sviðinu en honum var samt ekki gerð refsing enda var það metið svo að ábyrgðin lægi fyrst og fremst hjá tónleikahöldurum og öryggisgæslunni. Maðurinn hefði aldrei átt að komast upp á sviðið og skjóta Blythe skelk í bringu. Málið hafði að vonum djúpstæð áhrif á Blythe.
Nýju bókinni hefur Blythe lýst sem hnitmiðuðum vegvísi um það hvernig hann sjálfur hefur reynt að halda sig við það sem hann kallar skynsamlegt sjónarhorn í lífinu, jafnvel á erfiðum tímum.
Í samtali við Leica Stories á B&H Event Space ber Blythe bækurnar tvær saman. „Í fyrri bókinni var meginþemað persónulegt uppgjör varðandi lagavandræði sem ég rataði í og margir þekkja ábyggilega til. Seinni bókin hverfist um sjónarhorn, að því er mér sýnist eftir að hafa skrifað hana, vegna þess að ég var ekki með skýra áætlun þegar ég byrjaði að skrifa bókina. Þetta snerist um að leita að ytra sjónarhorni frá öðru fólki eða reynslu sem ég hef gengið gegnum sjálfur í því augnamiði að rétta af kúrsinn og gera ekki aftur eins mikið að heimskulegum mistökum og ég hef gert gegnum árin.“
Blythe segir það alltaf hjálpa sjónarhorninu að hlusta á fólk sem gengið hefur gegnum erfiðleika og komið út sem betri og sterkari manneskjur. „Þetta er það sem ég var að reyna. Og það er mikil sjálfsskoðun í þessu. Ég veit ekki hvort rétt sé að skilgreina bókina sem endurminningar en hún er samsafn af einhverju, ef til vill ritgerðum. Ég er að skrifa um reynslu mína af öðru fólki eða bara af lífinu sjálfu. Og ég gekk nærri mér meðan ég var að skrifa bókina. Ég vissi að ég vildi skrifa um ákveðna hluti en annað var ráðgáta. Þannig að þetta er mikil sjálfsskoðun.“
Og hvert er markmiðið? Því svarar Blythe í Leica Stories. „Það sem ég óska lesandanum – vonandi er það kjarni málsins – er að hann fari að hugsa um sína eigin afstöðu til lífsins og hvað hann geti gert til að breyta henni til hins betra.“
Enginn er fullkominn
Öll erum við breysk og Blythe segir ekkert okkar lifa hinu fullkomna lífi, alltént enginn sem hann hefur hitt. „Og Guð veit að þar er ég sjálfur meðtalinn. En það þýðir ekki að ég þurfi að sitja með hendur í skauti og refsa sjálfum mér og krossfesta um aldur og ævi. Ég þarf að reyna að læra af reynslunni og vonandi verða betri maður. Pönkist maður í sífellu á sjálfum sér er það í reynd bara hin hliðin á hinum sjálfhverfa og narsissíska peningi. Hugsi ég í sífellu um allt það slæma sem ég hef gert þá er ég samt bara að hugsa um eina manneskju – sjálfan mig. Því eldri sem ég verð sannfærist ég alltaf betur um þá skoðun að því minna sem ég hugsa um sjálfan mig, þeim mun betur gengur lífið fyrir sig. Það er aldrei gott að festast hérna uppi, í eigin höfði. Höfuðið á mér er slæmt hverfi og ég ætti aldrei að fara þangað upp nema í fylgd með fullorðnum.“
Þegar litið er upp úr eigin nafla er ekki úr vegi að horfa til fólks sem hefur góð tök á eigin tilveru. Blythe kom inn á þetta í öðru viðtali, við bandaríska útvarpsmanninn Radioactive MikeZ. „Fylgist maður vel með og fylgi forskrift fólks sem maður dáist að dregur úr líkum á axarsköftum hjá manni sjálfum. Ég er alls ekki að segja að mér verði ekki lengur á, mikil ósköp, en ég legg mig allan fram á gamals aldri um að læra af öðrum.“
Þó hann tali hér eins og áttræður er Blythe ekki nema 54 ára, fæddur á því ágæta ári 1971.
Ein af manneskjunum sem hann lærði af var amma hans, sem varð 100 ára, og óx úr grasi í kreppunni miklu. Hún kom að uppeldi hans og þegar hún var orðin 94 ára settist Blythe niður með henni og rakti úr henni garnirnar. Hafði raunar ekki bókina á huga á þeim tíma en á endanum er einn kafli tileinkaður ömmu hans. „Ef aldrað fólk er í ykkar lífi, takið þá viðtöl við það strax, meðan minnið er óbrigðult,“ sagði hann við Radioactive MikeZ.
Mesti munurinn á gamla tímanum og þeim nýja, að mati ömmunnar, hafði ekkert með tækni að gera. Heldur: „Randy minn, fólk er ekki eins náið og það var!“
Tvöfaldur metsöluhöfundur
Just Beyond The Light: Living With The War Inside My Head kom út 18. febrúar og hefur farið vel af stað. Bókin kom ný inn í 15. sæti á lista Publishers Weekly í Bandaríkjunum yfir rit almenns efnis. Blythe brást við þeim tíðindum á samfélagsmiðlum sínum. „Ég tilkynni með stolti að ég er í annað skipti formlega orðinn metsöluhöfundur! Ég get ekki þakkað öllum sem hafa keypt Just Beyond The Light nægilega!“
Hann notaði tækifærið til að hnýta í annan bóksölulista, sem hann þó nafngreinir ekki, en samkvæmt tölum frá Circana BookScan sem safnar saman upplýsingum um bóksölu vestra, seldist bók hans meira en bækurnar sem verma sæti 15 til 8 á téðum lista. Samt er hennar hvergi getið. „En það er allt í lagi – ég bjóst hvort eð er ekki við að vera á listanum. Ég er nefnilega söngvari í málmbandi og þess vegna er litið á mig sem hellisbúa – ég er vanur því yfirlæti.“