Þota Airbus á Keflavíkurflugvelli. Vélar þessarar gerðar í flota Icelandair eru nú tvær en verður fjölgað býsna hratt á allra næstu árum.
Þota Airbus á Keflavíkurflugvelli. Vélar þessarar gerðar í flota Icelandair eru nú tvær en verður fjölgað býsna hratt á allra næstu árum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Önnur vélin af gerðinni Airbus A321LR hefur nú verið tekin inn í flota Icelandair. Sú kom til landsins um síðustu helgi og fer fyrstu áætlunarferðina í dag, laugardag. Þá er stefnan sett á Dublin á Írlandi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Önnur vélin af gerðinni Airbus A321LR hefur nú verið tekin inn í flota Icelandair. Sú kom til landsins um síðustu helgi og fer fyrstu áætlunarferðina í dag, laugardag. Þá er stefnan sett á Dublin á Írlandi.

Icelandair fékk fyrstu Airbus-vélina í desember síðastliðnum. Sú fékk nafnið Esja og fór þá strax í notkun, sem einkum hefur verið flug út frá Keflavík á styttri leggjum til áfangastaða í Evrópu, svo sem á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Er það gert í því skyni að flugmennirnir fái strax sem mesta þjálfun og reynslu, sem talin er í samanlögðum fjölda á flugtökum og lendingum.

Nýja vélin hefur fengið nafnið Lómagnúpur. Tvær vélar til viðbótar af gerðinni Airbus A321LR, sem fá nöfnin Ásbyrgi og Dynjandi, eru væntanlegar til Icelandair á næstu vikum, þannig að á sumarvertíðinni verða fjórar slíkar í útgerð. A321LR eru vélar sem taka 187 farþega, þar af 22 á fyrsta farrými. Fleiri Airbus-vélar bætast við á næstu árum, en samningar við flugvélaframleiðandann gera ráð fyrir kaupum Icelandair á allt að 25 slíkum.

Þjálfun hefur gengið vel

Nú taka alls um 80 flugmenn hjá Icelandair þátt í þjálfun á Airbus og 50 hafa lokið henni. Þessi undirbúningur fer að stórum hluta fram í flughermum, meðal annars hjá verksmiðjum framleiðandans í Toulouse í Frakklandi.

Flestir hafa þó flugmenn Icelandair sótt þjálfun til Færeyja. Þar er Atlantic Airways – færeyska flugfélagið – sem er með nokkrar Airbus-vélar í notkun og er með hermi á flugvallarsvæðinu á Vogum.

Átta flugmenn eru ytra í þjálfun í Færeyjum, en 12 höfðu lokið þar þjálfun. Fleiri flugmenn fara í þessu skyni til Færeyja á næstunni.

Hermar fyrir Airbus eru væntanlegir til Icelandair á næsta ári og verða í þjálfunarsetri félagsins í Hafnarfirði.

„Þetta eru æðislega vélar sem er gaman að fljúga. Þjálfunin hefur gengið vel og mannskapurinn er ánægður,“ segir Arnar Jökull Agnarsson flugstjóri. Hann er einn þeirra flugliða Icelandair sem leitt hafa þjálfun á Airbus-vélarnar nýju og nú eru þeir sem fyrstir fóru komnir í endurþjálfun. Hana þarf að taka á sex mánaða fresti. Sjálfur flaug Arnar Jökull Airbus talsvert á síðasta ári fyrir sænska Braathens Regional Airlines, sem var upptaktur þess sem síðan hefur komið hjá Icelandair.

„Ég er búinn að fljúga mikið að undanförnu á nýju Esjunni; svo sem til Ósló, Dublin, Stokkhólms og London og margar ferðir til Kaupmannahafnar. Þetta hefur verið mjög ánægjulegt,“ segir Arnar flugstjóri.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson