Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þorsteinn segir mikla eftirvæntingu ríkja meðal starfsmanna Hafrannsóknastofnunar eftir að taka hina nýju Þórunni Þórðardóttur í notkun.
„Já. Það er ótrúleg tilhlökkun sem maður skynjar. Bara þessa síðustu daga og vikur, ætli það hafi ekki verið um tíu sinnum á dag sem maður fer yfir stöðuna og hvenær megi vænta þess að skipið komi. Fólk hlakkar mikið til.“
Hann segir spennuna sérstaklega mikla því að fjölmargir starfsmenn stofnunarinnar komu að hönnun skipsins og eiga þannig beinan þátt í þessum miklu kaflaskilum í íslenskum hafrannsóknum, að til Íslands komi skip sem er nýsmíði, sérhannað fyrir rannsóknir á Íslandsmiðum, búið öllum helstu nýjungum sem vænta má af nútímalegu vísindafleyi. Fólk vilji eðlilega vita hverju vinna þeirra hafi skilað, að sögn Þorsteins, og sé því spennt að finna út hvort það skili árangri sem það hefur tekið þátt í að búa til.
Komið að hverjum krók og kima
Aðdragandinn að nýju skipi var þó nokkuð langur, að sögn Þorsteins sem bendir á að umræðan um smíði nýs rannsóknaskips hafi farið af stað 2003 þegar unnið var að umfangsmiklum breytingum á Bjarna Sæmundssyni. Var þá gert ráð fyrir að breytingarnar myndu gera Bjarna nothæfan til nokkurra ára og að nýtt skip tæki við 2010. Óhætt er að segja að síðan hafi runnið mikið vatn til sjávar og margar ríkisstjórnir komið og farið.
Þó að teikningar hafi verið til af hugsanlegu nýju skipi hafi ekkert raunverulega gerst í endurnýjunarmálum fyrr en Alþingi samþykkir 2018 að veita fjármagn í verkefnið og gefa Hafrannsóknastofnun nýtt skip í stað Bjarna. „Þá kemst raunverulegur skriður á málið og fór hönnun á fullt og teikningar og útboðslýsingar voru undirritaðar í mars það ár. Það er fyrst þá sem okkur verður ljóst að þetta sé að raungerast.
Þetta er búið að vera ansi skemmtileg vegferð að sjá þetta verða til. Að það verður til rannsóknaskip eftir höfði okkar fólks. Það eru teymi vísindamanna, annarra starfsmanna Hafrannsóknastofnunar og sjómanna sem hafa komið að hverjum krók og kima í hverju rými og hverri rannsóknastofu um borð í nýrri Þórunni Þórðardóttur.“
Fullyrðir Þorsteinn að unnið hafi verið að því að hámarka nýtingargildi hvers einasta fermetra í rannsóknaskipinu.
Betur búið til rannsókna
„Við erum að skipta út Bjarna Sæmundssyni sem er orðinn 55 ára gamall og er í raun fyrsta sérbyggða rannsóknaskip Íslendinga. Þótt gamli Árni Friðriksson hafi verið smíðaður fyrir stofnunina þá var hann hannaður fyrir síldarleit. Bjarni hefur þjónað okkur vel, en hann er barn síns tíma og eru komnar aðrar kröfur um aðbúnað, ekki síður aðrar kröfur um rannsóknaraðstöðu og tæki og tól til rannsókna.“
Þá útskýrir Þorsteinn að Þórunn verði miklu betur búin til rannsókna en Bjarni. Bendir hann meðal annars á að hið nýja skip verði búið neðansjávarmyndavélum og sérstöku rými helguðu slíkum rannsóknum, þetta geri vísindamönnum mun betur kleift að skoða hafið.
Þórunn er jafnframt smíðuð bæði sem togari og rannsóknaskip sem hentar einstaklega vel til að geta bæði sinnt vöktunar- og grunnrannsóknum. „Hún skiptist á miðju má segja. Bakborðshliðin er togari á meðan stjórnborðshliðin er meira rannsóknaskip. Þetta er miklu meira fjölnotaskip miðað við mörg önnur rannsóknaskip sem eru smíðuð.“
Einnig hafi smíði skipsins tekið mið af því að gera skipið eins hljóðlátt og hægt er til að draga úr fælingaráhrifum skipsins á fiska, sjávarspendýr og aðrar lífverur hafsins. Auk þess er um borð aðstaða fyrir rannsóknarkafbát sem mun ganga fyrir eigin afli en ekki vera dreginn eftir skipinu eins og gert hefur verið hingað til, þó á eftir að festa kaup á einum slíkum.
Bætt orkunýting
Skipið er búið sérstökum stöðugleikabúnaði sem heldur skipinu stöðugu á sama punkti sem eykur til að mynda nákvæmni í kortlagningu búsvæða. Á Bjarna Sæmundssyni hefur til dæmis við myndavélarannsóknir þurft að beita skipinu upp í straum til að halda því stöðugu, en staðan verður allt önnur á Þórunni. „Það er tölva sem stýrir fremri og aftari síðuskrúfu sem og stýrinu til að halda skipinu nákvæmlega á ákveðnum punkti. Tímalega gengur hraðar að gera hlutina heldur en að einhvern veginn fylgja straumum og keyra skipið eftir því hvernig straumarnir liggja. Til dæmis í rannsóknum eins og í talningu humarholna er hægt að hafa mun meiri stjórn á því hvernig við tökum okkar þversnið,“ útskýrir Þorsteinn.
Að hans sögn hafi einnig verið lagt upp með að ná fram betri orkunýtingu og má segja að Þórunn sé eins konar tengiltvinnskip.
„Hún er keyrð áfram á rafmótor, en þar sem er erfitt að vera með landtengingu við rafmagn er hún með ljósavélar til að framleiða rafmagn. Til viðbótar er hún með rafgeyma sem geta geymt 600 kílóvattstundir af rafmagni, sem gerir það að verkum að við getum siglt henni eingöngu á rafmagni í 45 mínútur á um það bil níu sjómílum á klukkustund. Það er ekki eina markmiðið heldur að í rannsóknum er oft verið að stoppa, bíða og vera lengi á sömu stöðinni. Ef þarf til dæmis aukaorku í smá tíma þarftu ekki að kveikja á fleiri vélum heldur er hægt að nýta varabirgðirnar á rafgeymunum á hverjum tíma. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig það samspil verður.“
Væntingar til Þórunnar eru miklar að sögn Þorsteins. „Að nota Þórunni í togleiðangri verður allt annað því togspilin og búnaðurinn til að taka trollið eru bara miklu hraðskreiðari en þessi 55 ára búnaður um borð í Bjarna.“
Bætt aðstaða
Gera má ráð fyrir byltingu í aðbúnaði áhafnar og vísindamanna sem Þorsteinn segir gera mikið fyrir starfsgleði þeirra sem starfa um borð.
„Aðbúnaðurinn um borð – vistarverur, sameiginleg rými og rannsóknarstofur – þetta er ekki næsta kynslóð eftir Bjarna heldur þriðja kynslóð. Þetta verður ótrúlegur munur fyrir áhöfn og rannsóknarfólk að geta unnið við miklu betri aðstæður. Þarna verður hægt að fara í líkamsrækt og jafnvel gufubað á eftir. Það er sjónvarp í hverjum klefa og miklu meira samband við það sem gerist á landi, mun betri samskipti við ástvini á meðan fólk er úti á sjó.“
Þorsteinn segir mikinn heiður að fá að taka á móti nýju hafrannsóknaskipi og bindur vonir við að það skili miklum árangri fyrir hafrannsóknir Íslendinga á komandi árum.
Bjarni
Sæmundsson til Noregs
Gengið var frá samningum um sölu á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni til norsks kaupanda í byrjun febrúar. Var með því bundinn endi á rúmlega hálfrar aldar samleið skipsins og íslensku þjóðarinnar.
Samkvæmt samkomulagi við kaupanda skal afhenda skipið nýjum eigendum um mánaðamótin febrúar/mars, en ef talin verður þörf á skipinu í komandi marsralli megi fresta afhendingu til 1. apríl.
Bjarni Sæmundsson var smíðaður af Schiffbau-Gesellschaft í Bremerhaven í Vestur-Þýskalandi árið 1970, en umtalsverðar breytingar voru gerðar á skipinu árið 2003. Skráð lengd skipsins er 50,26 metrar og breidd 10,6 metrar, og það er 822 brúttótonn.
Holberg Shipping er kaupandi skipsins og býr félagið yfir fjölbreyttu úrvali skipa sem sinna ýmsum verkefnum fyrir viðskiptavini sína. Má nefna sem dæmi brunnbáta, ferjur og eftirlitsbáta.
Fjársýsla ríkisins annaðist söluna en Bjarni Sæmundsson var seldur í gegnum skipasöluna BP shipping agency.