Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
Landlæknisembættið var enda holdgervingur gamaldags hugsunar og fordóma í garð einkaframtaksins í stjórnartíð Ölmu Möller þar.

Diljá Mist Einarsdóttir

Það er óhætt að segja að ég hafi beðið lengi eftir því að mæta nýjum heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, í umræðum á Alþingi. Sá dagur rann loks upp í vikunni þegar ég bar upp fyrirspurnir til hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ráðherrann og viðhorf hennar þekkjum við auðvitað vel af störfum hennar sem landlæknir. Þau störf urðu mér endurtekið tilefni til ræðu og rita á síðasta kjörtímabili og var því af nógu að taka þegar kom að hugmyndum að fyrirspurnum. Helsta vandamálið var að koma þeim fyrir í fyrirspurnatíma sem telur tvær plús eina mínútu.

Mótstaða vinstriafla

Í fyrri umferð spurði ég heilbrigðisráðherra út í viðhorf hennar til einkaframtaksins til að stytta biðlista og til að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Við þekkjum jú öll margvíslega biðlistavanda og mótstöðu vinstriafla við að leysa þann vanda undanfarin ár. Kjósendur eiga hins vegar eftir að finna fyrir því hjá vinstriöflum þessarar ríkisstjórnar. Í þessu samhengi nefndi ég í dæmaskyni lýðheilsutengdar aðgerðir fyrir konur, m.a. vegna legsigs, þvagleka og aðgerðir tengdar ófrjósemi, en sömuleiðis gallblöðruaðgerðir og aðgerðir á botnlanga.

Heilbrigðisráðherra svaraði því til að viðhorf hennar til einkaframtaksins hefði margoft komið fram í hennar fyrra starfi. Heilbrigðisþjónustan ætti að „standa styrk á opinberum grunni“ en ekkert væri að því að „útvista einstökum verkefnum“. Ég tek undir að viðhorf hennar sé öllum kunnugt. Landlæknisembættið var enda holdgervingur gamaldags hugsunar og fordóma í garð einkaframtaksins í stjórnartíð Ölmu Möller þar. Sem dæmi má nefna innleiðingu á fjarlausnum til að bæta heilbrigðisþjónustu og sömuleiðis viðhorf í garð einkaframtaks sem byggist á heilsulæsi og ábyrgð fólks á eigin heilsu.

Ég spurði sömuleiðis um það hvort til stæði að nýta einkaframtakið við ristilskimun sem ráðherrann hafði nýlega tjáð sig um. Hún svaraði því til að skimanirnar hefðu ekki verið útfærðar.

Ótrúlega flókið mál?

Í síðari fyrirspurnaumferð spurði ég heilbrigðisráðherra út í meðferð opinbers fjár. Embætti landlæknis undir stjórn ráðherrans gerðist enda uppvíst að því að brjóta gegn lögum um opinber innkaup og samkeppniseftirlitið hefur hafið athuganir á innkaupum ríkisins á heilbrigðislausnum, innkaupum sem eftirlitsstofnun ESA er komin með á sitt borð. Heilbrigðisráðherra reyndi að bera í bætifláka fyrir framgöngu embættisins og sagði að niðurstaða kærunefndar um lögbrot hefði ekki verið til lykta leidd fyrir dómstólum. Svo væri það „ekki alveg einfalt með lög um opinber innkaup og innkaup á heilbrigðisþjónustu og sýnist þar sitt hverjum enda um ótrúlega flókið mál að ræða“.

Að mati undirritaðrar er það alls ekki „ótrúlega flókið mál“ að fara að lögum um opinber innkaup. Þau eru sett til hagsbóta fyrir atvinnulífið, neytendur og ekki síst fyrir skattgreiðendur. Þá væri óskandi að neikvætt viðhorf heilbrigðisráðherra, sem er m.a. heilbrigðisráðherra Viðreisnar, í garð einkaframtaksins komi ekki í veg fyrir uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu og góða meðferð opinbers fjár.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Diljá Mist Einarsdóttir