Magnea Halldórsdóttir fæddist 3. ágúst 1948. Hún lést 27. febrúar 2025.

Útför Magneu fór fram 7. mars 2025.

Elsku Maggý mín.

Það er skrítið að setjast niður og horfast í augu við að þú ert farin frá okkur, sérstaklega þegar tíminn var svo knappur að ég náði ekki einu sinni að koma og kveðja þig.

Ég á svo margar dásamlegar minningar frá því í æsku, það sem ég var heppin að hafa þig sem auka-mömmu. Ég gat alltaf komið til þín og það skipti ekki máli hvort það var mikið að gera eða ekki, alltaf mátti ég vera með hvort sem ég vildi bara koma í heimsókn eða gista. Ótal sumarbústaðarferðir með þér og Gísla þar sem ég fékk að njóta þess að vera næstum því einkabarn. Þú kenndir mér að prjóna og sauma í og ég drakk te og spilaði við Gísla eða bara fékk að liggja í friði tímunum saman uppi á lofti og lesa. Í minningunni eru þetta draumatímar. Þegar ég varð níu ára varst það þú sem bauðst í afmæliskaffi í bústaðnum. Ég fékk að hjálpa til við að baka vöfflur og fleira og síðan komu allir í afmæliskaffi til mín og þín.

Ég hef ekki töluna á því hvað ég fékk að vera mikið með þér í Stapanum og hef oft sagt að ég hafi eiginlega verið alin upp þar. Að fá að hjálpa til við að undirbúa stórar veislur, dúka upp, leggja á borð og brjóta servíettur eins og á fínasta veitingastað er enn eitthvað sem ég bý að og er án efa ein af ástæðunum fyrir því að þegar eitthvað stendur til er ég fyrst til að segja að þetta sé nú ekkert mál, eins og þú sagðir alltaf við mig.

Þegar ég fermdist þá bakaðir þú kransakökuna með mér og mömmu og passaðir upp á að allt væri gert eftir kúnstarinnar reglum og í mínum huga var fátt sem þú kunnir ekki að gera betur en flestir aðrir.

Þú saumaðir og prjónaðir á mig og seinna þegar ég varð mamma þá komstu oft með eitthvað nýprjónað til mömmu fyrir Elmu mína sem að sjálfsögðu átti sérstakan stað í þínu hjarta af því að hún er stelpan mín.

Ég mun sakna þín mikið kæra frænka.

Þín

Heiða.

Elsku Maggý mín,

Það er ótrúlega erfitt að kveðja þig. Þetta var svo óvænt, ég talaði við þig um kvöldið og þá leið þér ekki vel. Eftir það samtal fóru verkirnir að aukast. Allt ferlið frá greiningu gerðist svo hratt. Vinátta okkar hefur verið löng og góð, allt frá því við vorum þriggja og fjögurra ára gamlar. Margt var brallað á þessum árum, oftast var leikið heima hjá mér uppi á lofti og þar lékum við okkur í búðarleik. Oft vorum við búnar að rifja upp þennan tíma. Við búnar að dressa okkur upp í síðkjóla og fínerí.

Svo flaug tíminn hratt. Við vorum ungar komnar með börn og allt í einu giftar konur. En alltaf stutt á milli okkar, báðar á Norðurbrautinni. Við fórum með börnin í langa göngutúra sem enduðu yfirleitt í Hellisgerði. Þetta voru góðir tímar sem við áttum saman. Þú varst mikil listakona, málaðir á postulín sem var þvílíkt flott hjá þér. Síðan kom glerlistin sem var líka flott. Síðan komu öll málverkin og ekki voru þau síðri. Allt lék í höndunum á þér, þú saumaðir endalaust falleg föt á þig. Síðast en ekki síst var okkar sameiginlega áhugamál, sem voru prjónarnir. Þar gast þú allt og prjónaðir fram á síðasta dag peysukjól á litlu langömmustelpuna þína.

Nú er síminn þagnaður. Við sem töluðum saman tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Þetta eru búnir að vera skrítnir og erfiðir dagar. En ég efast ekki um að vel hafi verið tekið á móti þér í sumarlandinu. Takk fyrir alla þessa löngu vináttu okkar, elsku Maggý mín, hún var einstök. Þú varst alltaf svo hlý og yndislega góð manneskja. Þú varst svo þakklát börnunum og systkinum þínum. Og svo Signýju vinkonu þinni sem aðstoðaði þig í veikindum þínum, sem voru stutt og snörp. Ég sendi þeim öllum hlýjar kveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Takk fyrir fallegu samveruna okkar, elsku vinkona mín, ég á eftir að sakna þín endalaust.

Ragnheiður
Matthíasdóttir (Dista).