Hreinsun Fiskeldisbátar vinna að lúsahreinsun í Tálknafirði 2023. Það ár varð óeðlilega mikil fjölgun lúsa.
Hreinsun Fiskeldisbátar vinna að lúsahreinsun í Tálknafirði 2023. Það ár varð óeðlilega mikil fjölgun lúsa. — Morgunblaðið/Guðlaugur J.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á síðasta ári veitti fisksjúkdómanefnd heimild til 13 lyfjameðhöndlana gegn fiskilús fyrir lax á 12 eldissvæðum í fimm fjörðum og tveggja meðhöndlana gegn fiskilús á regnbogasilungi á tveimur eldissvæðum í tveimur fjörðum

Baksvið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Á síðasta ári veitti fisksjúkdómanefnd heimild til 13 lyfjameðhöndlana gegn fiskilús fyrir lax á 12 eldissvæðum í fimm fjörðum og tveggja meðhöndlana gegn fiskilús á regnbogasilungi á tveimur eldissvæðum í tveimur fjörðum. Árið 2023 var 21 lyfjameðhöndlun heimiluð, þegar lús var sérstaklega ágeng. Á tímabilinu 2017 til 2022 var hins vegar meðhöndlað gegn lús tvisvar til sjö sinnum á ári, samkvæmt ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun.

Lúsin er fyrst og fremst vandi í eldi á Vestfjörðum en í fjörðunum eru einnig mikilvæg uppeldissvæði þorsks. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lyfin geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir rækju og humar sem verða fyrir áhrifum lyfjanna.

„Hafrannsóknastofnun hefur bent á í umsögnum til fisksjúkdómanefndar og Matvælastofnunar að stofnunin lýsi yfir áhyggjum sínum af áhrifum þessara lyfja á villt dýr – sérstaklega krabbadýr – í fjörðum þar sem lyfin eru notuð. Jafnframt er bent á að þessi villtu dýr séu mikilvæg í fæðuvef fjarðanna,“ segir Rakel Guðmundsdóttir, doktor í líffræði og sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun í umhverfismálum sjókvíaeldis og verkefnastjóri burðarþolsmats fjarða.

Hún bendir á að hlutverk stofnunarinnar snúi ekki eingöngu að málefnum sjókvíaeldis heldur að ráðgjöf og rannsóknum á meðal annars útbreiðslu svifdýra, botndýra og fiska.

„Því væri hentugast fyrir lífríkið, ekki eldisfiskana, að notaðar væru mekanískar aðferðir (t.d. þvottur fiska með volgu ferskvatni), en sú aðferð getur verið slæm fyrir velferð eldisfiska. Ljóst má þó vera að ef ekki er meðhöndlað, t.d. með lyfjum, geta eldisfiskar hlotið skaða af og þeir mögulega drepist í miklu magni vegna sára og vanlíðanar. Nauðsynlegt er að horfa bæði til velferðar eldisdýra og umhverfismála,“ útskýrir Rakel.

Laxalúsin veldur meiri skaða

„Laxa- og fiskilýs eru sviflæg krabbadýr sem ungviði (mörg stig) en geta fest sig á fiska ef þær komast í snertingu við þá. Þær eru fyrst hreyfanlegar á fiskinum en festa sig svo og nærast þá á roði, slími og holdi fiskanna. Laxalús lifir á laxfiskum (laxi, silungi og bleikju) en fiskilús er ósérhæfð og getur fundist á flestum ef ekki öllum villtum fiskum í sjó, t.d. þorski og ýsu.

Laxalús veldur mun meiri skaða enda talsvert stærra dýr en fiskilúsin og með stóra og öfluga bitkróka. Vegna þess að þær eru frábrugðnar á þennan hátt veldur laxalús mikið meiri skaða en fiskilús sem virðist aðallega pirra fiska, sér í lagi ef fjöldi þeirra á hverjum fiski er orðinn mjög mikill. Fiskilýs geta þó líka myndað sár en sár á laxi eru þó yfirleitt vegna laxalúsar. Í nágrannalöndunum er laxalús eitt stærsta vandamálið í sjókvíaeldi og hafa vandamál af hennar völdum verið vaxandi hér við land á undanförnum árum og þá sérstaklega árið 2023, þegar öllum aðferðum var beitt til að ráða niðurlögum hennar á Vestfjörðum,“ útskýrir Rakel.

Hún bendir á að laxalús fylgi villtum laxi og að lífferlar þeirra séu samhæfðir. „Þegar mikill fjöldi laxa er alinn í sjókvíum í fjörðum getur fjöldi lúsa á því svæði orðið mjög mikill og valdið miklu álagi á villta laxfiska, jafnvel þó að fjöldi lúsa á hverjum eldisfiski sé ekki mikill. Til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif af völdum lúsa á bæði villta fiska og eldisfiska þarf að halda fjölda þeirra og viðkomu í skefjum.“

Lyfin eru taugaeitur

Rakel segir ýmsar aðferðir tiltækar til að ráða niðurlögum lúsa. Nefnir hún lyfjanotkun í fóðri og í böðun, hrognkelsi sem éta lús af löxum og mekanískar aðferðir, sem felast í þvotti fiska með volgu ferskvatni. Þessar aðferðir hafa þó allar kosti og galla bæði fyrir umhverfið og eldisfiskana, að hennar sögn.

Samkvæmt ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma var á síðasta ári heildarmagn virkra efna sem notuð voru gegn laxa- og fiskilús 2,35 kg á formi Alpha Max-baðlyfs, 33,3 kg Salmosan-baðlyfs og 2,32 kg á formi Slice sem blandað er í fóður.

„Rannsóknir hafa verið gerðar erlendis m.t.t. áhrifa lúsalyfja á rækjur, humra og fleiri krabbadýr. Þær benda til þess að þessi lyf, í litlum styrk – jafnvel niður í 1% af styrk sem gefinn er gegn lús – hafi banvæn áhrif á þessi dýr. Lyfin eru taugaeitur og ýmist lama dýrin og/eða hamla því að þau nái að hafa hamskipti. Þá geta dýrin afmyndast, og þau geta skert getu þeirra til fjölgunar og blindað þau. Krabbadýr vaxa ekki jafnt og þétt heldur í þrepum og eru því hamskipti hluti af því að krabbadýr geti vaxið og lifað af,“ segir Rakel um möguleg áhrif lyfjanna á lífríki sjávar.

Hún segir ekki hafa verið gerðar sérstakar rannsóknir á áhrifum lyfja á villt krabbadýr í náttúrunni við Ísland. „Þó er langtímavöktunarverkefni á vegum Hafrannsóknastofnunar þar sem botndýr eru vöktuð á fjarsvæðum – svæðum utan vöktunarsvæða eldisfyrirtækjanna í fjörðum – og gætu áhrif komið fram með tíð og tíma í fjörðum ef lyfin hafa áhrif í náttúrulegu umhverfi á stórum skala. Einnig er verið að taka upp í vöktunaráætlunum framkvæmdaaðila að þeir skuli vakta vatnshlot sem þeir nota m.t.t. laga um stjórn vatnamála. Í þeirri vöktun á að vakta áhrif m.a. á botndýr sem eru að hluta til krabbadýr. Áhrif geta svo verið á önnur dýr en krabbadýr en það er minna rannsakað.“

Líftíminn lítið rannsakaður

Rakel útskýrir að lyfin sem notuð eru hafi mismunandi virk efni með mismunandi áhrif og bendir á að virka efnið emamectin benzoate sé í lyfjafóðrinu Slice.

„Lyfinu er úðað utan á fóðurkúlur/pallettur og kemst þannig til skila í laxinn. Slice hefur verið notað lengi í sjókvíaeldi og má þess geta að virka efnið í því, ememectin benzoate, er þekkt sem skordýraeitur í matvælarækt á landi. Kostir Slice umfram önnur lúsalyf er að það virkar vel gegn bæði laxa- og fiskilús og hefur forðaverkun sem þýðir að það virkar ákveðinn tíma á eftir fóðurgjöf, fjórar til sex vikur. Því hefur það t.d. verið notað á haustin til þess að aflúsa fyrir veturinn og draga úr líkum á því að fiskurinn fari með lús inn í erfiðasta tíma ársins.

Fari laxinn inn í veturinn með lús og/eða sár eftir hana er hætta á að hann drepist vegna bakteríusýkinga sem koma í sárin. Einnig er seiðum stundum gefið Slice áður en þau eru sett í kvíar því það hefur fyrrgreinda forðaverkun sem dregur úr líkum á að seiðin fái á sig lús. Seiði eru mun viðkvæmari fyrir lús en stærri fiskar.“

Þar sem er um að ræða lyf sem er blandað í fóður skilar laxinn því magni sem fer ekki í blóðrás út sem úrgangi, að sögn Rakelar.

„Því getur uppsöfnun lyfsins orðið þar sem skítur fiska safnast saman í grennd við eldiskvíar. Þá er líka eitthvað af lyfjafóðri sem endar beint í umhverfinu ef laxinn étur það ekki. Uppsöfnunin er þá einna helst á botn undir og við eldiskvíar, á sama stað og lífræn mengun safnast fyrir. Líftími efnisins í hafinu er ekki mikið rannsakaður, en talinn geta verið nokkrar vikur. Það sem skiptir einna helst máli við niðurbrot og uppsöfnun efna eins og emamectins eru umhverfisþættir eins og hiti, sýrustig, straumar, vatnsskipti o.fl.“

Einnig vandi með böðunarlyf

Sem fyrr segir hafa auk Slice verið notuð böðunarlyfin Alpha Max og Salmosan.

„Böðunarlyf eru gefin þannig að utan um eldiskvíar er settur dúkur og er lyfinu svo dælt í kvíarnar og ef vel gengur drepast flestar lýsnar. Þegar ákveðinn tími er liðinn er dúkurinn losaður af og við það fer efnið út í umhverfið og getur þá mjög líklega haft neikvæð áhrif og þá helst á sviflæg dýr eins og t.d. ljósátu og marflær. Einnig sýna tilraunir á rannsóknarstofum að þessi lyf hafa eitrunaráhrif á dýr sem alla jafna lifa á botni.

Sumir eldisaðilar fara með lúsalyfið úr böðuninni í brunnbátum langt frá fjörðum út á rúmsjó þannig að það komist út fyrir firðina og telur Hafrannsóknastofnun það vera stóran kost ef á annað borð er nauðsynlegt að nota þessi lyf. Galli við öll lúsalyf í laxeldi, hvort sem þau eru lyfjafóður eða lyfjaböðunarefni, er að hraður kynslóðartími, tímgunargeta, þ.e. gríðarlega mörg egg á hverja kvenlús, náttúrulegt val lúsa, aukið lyfjaþol vegna stökkbreytingar, gerir það að verkum að laxalúsin myndar þol gegn lyfjunum hratt. Því er alltaf verið að leita nýrra leiða til þess að hafa stjórn á lúsinni,“ segir Rakel.

Hún vekur athygli á því að laxa- og fiskilýs séu krabbadýr líkt og mjög mörg dýr sem lifa í fjörðunum þar sem eldi er stundað. „Þessi villtu dýr eru hluti af vistkerfi fjarðanna og eru flest mikilvæg fæða fyrir t.d. nytjafiska. En í íslenskum fjörðum er almennt mikið dýralíf, frá fiskungviði, fullorðnum fiskum, rækju og hvölum svo fátt eitt sé nefnt.“

Ekkert varð af skoðun Umhverfisstofnunar

Vísað á Hafrannsóknastofnun

Í febrúar 2022 upplýsti Umhverfisstofnun í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að síðar það ár stæði til að taka til skoðunar notkun lúsalyfja í íslensku eldi með tilliti til umhverfisáhrifa, m.ö.o. áhrif á lífríki sjávar. Enda í verkahring stofnunarinnar að hafa eftirlit með mengun hafsins.

Ekkert gerðist í málinu og gat Umhverfisstofnun upplýst um mitt ár 2023 að „í ljósi boðaðrar stefnumótunar matvælaráðuneytisins í lagareldi mun stofnunin skoða málið heildstætt með öðrum stofnunum sem koma að fiskeldismálum“. Stefnumótun stjórnvalda lauk síðar það ár með kynningu frumvarps um lagareldi en það var aldrei lagt fyrir Alþingi.

Í janúar síðastliðnum var fyrirspurn um fyrrnefnda skoðun á lyfjanotkun í sjókvíaeldi beint til nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar. Svar barst í lok febrúar og þar sagði: „Lyfjamál í fiskeldi eru ekki hjá Umhverfis- og orkustofnun svo stofnunin hefur ekki í hyggju að gera úttekt á áhrifum lyfjanotkunar á lífríki hafsins. Þessi tiltekna fyrirspurn á að öllum líkindum heima hjá Hafrannsóknastofnun.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson