— Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keizo Takewaka, nýr sendiherra Japans á Íslandi, segir heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Japans í maí verða mikilvægan áfanga í samskiptum ríkjanna. Jafnframt gefist þá gott tækifæri til að kynna Ísland fyrir Japönum sem séu áhugasamir um land og þjóð

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Keizo Takewaka, nýr sendiherra Japans á Íslandi, segir heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Japans í maí verða mikilvægan áfanga í samskiptum ríkjanna. Jafnframt gefist þá gott tækifæri til að kynna Ísland fyrir Japönum sem séu áhugasamir um land og þjóð.

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Japans og Íslands 8. desember 1956 og hafa forsetar Íslands nokkrum sinnum heimsótt Japan (sjá dæmi í rammagrein).

Næsti kafli í þeirri sögu verður skrifaður þegar Halla verður heiðursgestur á þjóðardegi Íslands á heimssýningunni í Osaka hinn 29. maí næstkomandi. Þema dagsins mun skírskota til þess að Ísland sé friðsælasta ríki heims og í fremstu röð varðandi jafnrétti kynjanna.

Með sameiginlegan skála

Heimssýningin fer fram á manngerðri eyju, Yumeshima, í Osaka-flóa. Hún hefst 13. apríl og stendur til 13. október. Norðurlöndin verða með sameiginlegan sýningarskála og fær hver Norðurlandaþjóðanna úthlutaðan sinn þjóðardag, sem verður sem áður segir 29. maí hjá Íslandi.

Takewaka rifjar upp að 2,3 milljónir gesta hafi heimsótt norræna skálann á heimssýningunni í Aichi í Japan árið 2005 og hafi skálinn þá verið einn sá fjölsóttasti á sýningunni. Kveðst sendiherrann gera sér vonir um að enn fleiri gestir muni heimsækja norræna skálann á sýningunni í Osaka, enda sé áhuginn mikill. En hvað skyldi skýra áhuga Japana á hinni fámennu þjóð í norðri?

Sendiherrann svarar því til að Japanir hrífist af hreinleika Íslands. Þá deili þjóðirnar grunngildum lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Hann hafi veitt því athygli að margir Íslendingar viti mikið um Japan.

Tækifæri til fjárfestinga

Takewaka hvetur Íslendinga til að fjárfesta í Japan. Japanskt efnahagslíf einkennist af gagnsæi og fyrirsjáanleika, sem sé kostur við þá ókyrrð sem nú einkenni heimsmálin. Þá bendir hann á að Japan sé stór neytendamarkaður, þar búi rúmlega 120 milljónir manna og landið sé með öfluga millistétt. Þá standi japanska hagkerfið á krossgötum en það kalli á lausnir og nýjungar.

Vísar sendiherrann meðal annars til þess að japanska þjóðin er að eldast og landsmönnum að fækka vegna lækkandi fæðingartíðni.

„Við getum lært ýmislegt um breytingar af Íslendingum,“ segir Takewaka og nefnir græna orkuöflun og jafnréttismál. „Japan er stór markaður en Japan þarfnast umbóta. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum, ekki aðeins í öryggismálum heldur einnig í efnahagsmálum,“ segir Takewaka og nefnir ríkisskuldir.

Íslendingar þurfa nú að millilenda í öðru landi ef þeir ætla til Japans. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að Isavia á í viðræðum við yfirvöld flugmála í Kína, Japan, Suður-Kóreu og Indlandi um beint flug til Íslands.

Spurður hvernig þau mál standa gagnvart Japan segir Takewaka að sem stendur séu ferðamenn frá Japan aðeins lítið brot erlendra ferðamanna á Íslandi. Þá þýði flugbann yfir Rússlandi að japönsk flugfélög þurfa að fljúga lengri leið en áður, sem sé áskorun. „Hitt liggur fyrir að ég hef fundið fyrir auknum áhuga á Íslandi af hálfu Japana,“ segir Takewaka.

Reyndur diplómati

Takewaka á að baki langan feril í japönsku utanríkisþjónustunni og eru Japanir því að senda reyndan diplómata til landsins.

Takewaka hóf störf hjá utanríkisþjónustunni árið 1984 og árið 1996 fór hann fyrir fastanefnd Japans hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París. Hann hefur síðan sinnt margvíslegum störfum fyrir utanríkisþjónustuna, þar með talið í Japan, á Ítalíu, á Indlandi, á Filippseyjum, í Ástralíu og í Laos en þar tók hann við fyrstu sendiherrastöðu sinni árið 2019.

Samstarf á norðurslóðum

Því næst varð Takewaka sendiherra norðurslóðamála í Japan og átti þá í samskiptum við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, á vettvangi Hringborðs norðurslóða. Þaðan lá leiðin í efnahagsmál og norðurslóðamál og kom Takewaka þá meðal annars að fríverslunarsamningum. Takewaka var skipaður sendiherra Japans á Íslandi í nóvember síðastliðnum og hann afhenti Höllu forseta trúnaðarbréf sitt 8. janúar.

Loks segir Takewaka það munu gagnast honum að hafa reynslu af norðurslóðamálum sem fyrrverandi sendiherra norðurslóða en hann hafi nokkrum sinnum setið Hringborð norðurslóða í Hörpu í Reykjavík.

Einnig megi nefna samstarf ríkjanna í gegnum vísindavettvanginn Arctic Science Ministerial (ASM) árið 2021 en í maí það ár fór fram norðurslóðaráðstefna á þeim vettvangi í Tókýó.

Þjóðhöfðinginn

Nokkrar forsetaheimsóknir

Þær upplýsingar fengust frá japanska sendiráðinu að Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, hefði heimsótt Japan sem fyrrverandi forseti Íslands í nóvember 2002. Þá hefði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands 1996-2016, heimsótt Japan sem fyrrverandi forseti í febrúar árið 2018.

Næst hafi Guðni Th. Jóhannesson, þá forseti Íslands, verið viðstaddur krýningu Japanskeisara í október 2019 og svo heimsótt landið aftur í desember 2022 sem forseti vegna jafnréttisþingsins World Assembly for Women. Loks hafi Ólafur Ragnar sótt málstofu Hringborðs norðurslóða í Japan í mars árið 2023. Fram undan er svo heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta í lok maí.

Höf.: Baldur Arnarson