Sviðsljós
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Niðurgreiðsla rafmagnsbíla er ekki bara óskilvirk leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur sú versta,“ segir Sigríður Á. Andersen alþingismaður Miðflokksins í samtali við Morgunblaðið, en fyrr í vikunni kom til orðaskipta á milli hennar og Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra, þegar fram fór umræða um frumvarp ráðherrans um kílómetragjald á ökutæki.
Sigríður segir að í frumvarpinu komi fram að kerfisbreytingin sem frumvarpinu sé ætlað að stuðla að sé með vísan til aðgerða í loftslagsmálum og orkuskipta. Vísað sé í frumvarpinu til niðurgreiðslu á rafmagnsbílum sem sé aðgerð sem halda eigi áfram með.
„Þess vegna spurði ég fjármálaráðherra hvort hann væri ekki meðvitaður um skýrslu Hagfræðistofnunar sem var ábatagreining á aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum,“ segir Sigríður, en Daði Már Kristófersson var einmitt forstöðumaður Hagfræðistofnunar þegar skýrslan kom út árið 2022, en hún var unnin að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Í skýrslunni voru teknar fyrir nokkrar aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum og lagt mat á þær.
„Ég spurði ráðherrann hvort hann væri sammála niðurstöðu skýrslunnar um að niðurgreiðsla rafmagnsbíla væri versta aðgerðin í loftslagsmálum af þeim sem mat var lagt á. Undir það tók ráðherrann og ég fagna því að loksins skuli vera kominn fram ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem áttar sig á því að þarna sé farið illa með fé fyrir óskaplega lítinn ávinning,“ segir Sigríður og segir að næsta spurning hljóti að vera sú hvort ráðherrann ætli að beita sér fyrir því að betur verði farið með fé og að þeirri neyslustýringu sem niðurgreiðsla á rafmagnsbílum sé verði hætt.
„Frumvarpið um kílómetragjald dregur ekkert úr neyslustýringu stjórnvalda þegar kemur að vali fólks á bílategundum. Ég hef goldið varhug við og bent á að þar fari ekki saman hljóð og mynd, þegar menn halda þessari neyslustýringu á lofti með vísan til loftslagsmála,“ segir hún.
„Ég hvatti til þess í umræðunni að menn myndu leggja niður kolefnisgjaldið. Þá kom fram þingmaður úr stjórnarliðinu, Pawel Bartoszek, sem benti réttilega á að gjaldið væri ekki endilega aðgerð í loftslagsmálum, heldur hrein tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég tek undir það og þess vegna finnst mér mikilvægt að slíkir skattar séu lagðir á alla, en ekki bara suma,“ segir Sigríður.
Hún bendir á að allir bifreiðaeigendur eigi að greiða kílómetragjaldið og því væri skynsamlegt að færa kolefnisgjaldið inn í sama form, þannig að það dreifðist á alla bifreiðaeigendur. Mótrökin við því væru þau að kolefnisgjaldið væri losunargjald vegna losunar af bruna jarðefnaeldsneytis.
„Það er ekki svo,“ segir Sigríður, „gjaldið er ein allsherjartekjuöflun fyrir ríkið. Ég benti líka á í umræðunni að rafmagnsbílarnir sem fluttir eru hingað til lands, hafa losað mikið meira kolefni heldur en jarðefnaeldsneytisbílarnir. Menn eru komnir í mikla mótsögn við sjálfa sig varðandi marga þætti í skattlagningu á bifreiðum,“ segir hún og vísar til þess að framleiðsla rafmagnsbíla losi miklu meira kolefni en losnar við framleiðslu bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Á heimasíðu Volvo-bílaframleiðandans væri skilmerkilega gerð grein fyrir þessu og þar kæmi fram að framleiðsla á rafmagnsbíl leiddi til 70% meiri losunar kolefnis en við framleiðslu jarðefnaeldsneytisbíla.
„Við eigum að hætta að niðurgreiða rafmagnsbíla fyrir efnafólk sem getur leyft sér að kaupa og hefur aðstöðu til að eiga slíka bíla. Það var það sem ég vildi draga fram í umræðunni og fagna því að ráðherrann var mér sammála um að það sé afleit loftslagsaðgerð að niðurgreiða rafmagnsbíla,“ segir Sigríður.
Í stuttu máli þá mælir frumvarpið fyrir um að greitt skuli gjald fyrir hvern ekinn kílómetra ökutækja og fer gjaldið stighækkandi eftir leyfðri heildarþyngd ökutækisins, en með því er átt við þyngd bifreiðarinnar og þess farms sem heimilt er að flytja í henni.
Þau ökutæki sem gjaldið verður greitt af eru skráningar- og skoðunarskyld ökutæki; létt bifhjól, bifhjól, bifreiðar, bæði fólksbílar, bílar ætlaðir til farþega- og farmflutninga, dráttarvélar og eftirvagnar.
Lægsta gjaldið er greitt af bifreiðum með leyfða heildarþyngd að 3,5 tonnum, en í þann flokk falla hefðbundnir fólksbílar og jeppar og nemur gjaldið 6,70 kr./km. Hæsta gjaldið er greitt af ökutækjum með leyfða heildarþyngd yfir 31 tonni og kílói betur, 43,56 kr./km.