Marta Finnsdóttir, Káranesi í Kjós, fæddist 7. mars 1943. Hún lést 27. febrúar 2025.
Hún var dóttir hjónanna Finns Bjarna Kristjánssonar og Svanhvítar S. Thorlacius.
Systkin Mörtu eru: Kristján, f. 1944, Guðfinna, f. 1946, Kristín, f. 1949, Þorleifur, f. 1951.
Eiginmaður Mörtu var Pétur Lárusson, f. 17. október 1937, d. 30. maí 2017.
Synir þeirra eru: Finnur, f. 26. júní 1962, Lárus, f. 19. janúar 1965, Kristján, f. 31. júlí 1967, Jón Smári, f. 3. desember 1978.
Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin níu.
Útförin fer fram frá Reynivallakirkju í dag, 8. mars 2025, klukkan 14.
Góður sveitungi Marta Finnsdóttir frá Káranesi hefur nú horfið til nýrrar dögunar í sumarlandinu. Marta hefur skilað góðu dagsverki á sinni ævi og þau hjónin Pétur Lárusson voru samhent í öllum sínum búskap. Þau voru góðir bændur og bar búskapurinn og búið í Káranesi þessi vitni sem einkenndist af snyrtimennsku og alúð í stóru sem smáu. Þau hjón lögð sitt af mörkum til samfélagsins. Marta var dugmikil kvenfélagskona og öflug í Kvenfélagi Kjósarhrepps og jafnframt söng hún með kirkjukór Reynivallasóknar í mörg ár ásamt því að leggja öðrum góðum málefnum lið. Framganga þeirra hjóna einkenndist af hógværð og nægjusemi og voru þau okkur samferðafólki sínu góðar fyrirmyndir hvað það varðar. Saman voru þau jafnframt í hestamennsku og voru ávallt á góðum hestum og höfðu einnig gaman af allri spilamennsku.
Faðir minn minnist þeirra hjóna með mikilli virðingu, hlýju og þakklæti fyrir samstarf og samvinnu. Þegar faðir minn var beðinn að taka við oddvitastarfinu fyrir Kjósarhrepp eftir að Ólafur Andrésson frá Sogni lést í embætti var hann tvístígandi og bauð Marta þá fram aðstoð sína, ef hann þyrfti að fá vélritað eða aðra aðstoð þá gæti hann leitað til hennar. Svo fór líka að hann fékk oft aðstoð hennar á því sviði sem var ávallt leyst fljótt og vel.
Pétur og faðir minn voru samtíða í sveitarstjórn og öðrum félagsmálum og minnist faðir minn þess hvað hann var ávallt framfarasinnaður og réttsýnn. Þannig áttu þeir samleið í mörgum framfaramálum fyrir Kjósarhrepp sem skilað hafa góðu fyrir samfélagið t.d. að hefja hitaveiturannsóknir, að færa skólaaksturinn heim í sveitina og taka vel á móti nýjum sveitungum og greiða götu þeirra.
Vorið er árstíð bænda og því fer vel á því að Marta hverfi nú aftur til æskunnar vors og hinnar eilífu vornætur í sumarlandinu bjarta, þar sem þau ganga saman hjónin móti vorsins ilm.
Við sendum fjölskyldu og aðstandendum Mörtu okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi sá sem öllu ræður gefa henni góða heimkomu. Faðir minn þakkar fyrir allt samstarf, aðstoð og samvinnu á kveðjustund.
Vornóttin
Lifnar aftur lauf á grein,
ljúf er vorsins angan.
Birta sólar björt og hrein,
bræðir vetur langan.
Ljómar heimur, lyngið grær,
lífsins kraftur dafnar.
Lindin streymir lygn og tær,
ljóssins afli safnar.
Logar himinn, leiftrið bjarta,
lofar daga alla.
Heitust þrá í ungu hjarta,
heilla stjörnur kalla.
Ólafur M. Magnússon frá Eyjum II, Kjósarhreppi.