Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Það kom í hlut Sverris Péturssonar að hafa eftirlit með smíði nýja skipsins og lætur hann vel af dvölinni á Spáni undanfarin misseri. Það er Armon sem sér um smíði Þórunnar Þórðardóttur HF 300 en sama fyrirtæki smíðaði Huldu Björnsdóttur GK 11 í Gijon sem afhent var á síðasta ári og þar á undan Baldvin Njálsson GK 400 sem smíðaður var í Vigo.
Armon er mjög stórt fyrirtæki með starfsstöðvar í nokkrum bæjum á norðurströnd Spánar og var nýja rannsóknarskipið smíðað í stöðinni í Vigo. „Armon heldur úti fimm skipasmíðastöðvum og svo er sjötta einingin sem fæst einungis við plötuskurð fyrir allar skipasmíðastöðvarnar. Hver starfsstöð hefur sína sérhæfingu og eru t.d. tvíbytnur smíðaðar hjá stöðinni í Gijon en rannsóknarskip yfirleitt smíðuð í Vigo“, útskýrir Sverrir og bætir við að rannsóknarskip séu á ýmsa vegu frábrugðin hefðbundnum fiskveiðiskipum. Oft er smíðin nokkuð flókin og óhefðbundin og er t.d. mjög mikilvægt að rannsóknarskip séu hljóðlát.
Sverrir segir nýja íslenska rannsóknarskipið sérstakt fyrir margra hluta sakir. „Það er óvenjulegt við íslensku rannsóknarskipin, og á við um Þórunni Þórðardóttur, að helmingurinn af skipinu er fullbúinn togari með pokagálga, skutrennu, fiskilúgu, veiðarfærarennum og grandaravindum, og tvær togvindur uppi á flugbrautnum. Aðrar þjóðir þurfa ekki rannsóknarskip með þessa veiðigetu og eru í staðinn með gálga sem ganga út frá hliðum skipanna til að setja ýmiss konar rannsóknartæki út í sjó.“
Geta siglt lengi á rafmagninu einu saman
Nýja skipið er líka óvenjulegt að því leyti að vera með fellikjöl sem festa má mæli- og rannsóknarbúnað við. „Þessi kjölur er um sjö metra hár og þegar hann er dreginn upp gengur hann alveg upp að næstu hæð fyrir neðan brúna. Þegar kjölurinn er uppi er hægt að komast undir hann og skipta um botnstykki neðan á honum, og þegar kjölurinn er í neðstu stöðu stendur hann um 4 metra niður fyrir botn skipsins.
Mælitækin eru mjög nákvæm og með þessu móti er t.d. hægt að koma í veg fyrir að loftbólur frá yfirborði sjávar trufli mælingar. „Prófanir á nýja skipinu gengu eins og í sögu og leiddu m.a. í ljós að skipið er eins hljóðlátt og til stóð. Sverrir segir öll rannsóknarskip þurfi að vera þannig hönnuð að þau gefi frá sér sem minnst hljóð á siglingu því mörg mælitækin um borð byggja á því að nema endurkast frá hljóðbylgjum og gæti vélarniður því bjagað mælingarnar.
Ekki er nóg með að hönnun skipsins og vélabúnaður sé hljóðlátur heldur er fleyið líka búið stórri rafhlöðu – sem hægt er að stækka – og hægt að sigla skipinu nokkuð langan spöl á rafmagninu einu saman. „Þrjár dísilaflvélar eru í skipinu sem framleiða rafmagn fyrir framdrifsmótor og til að hlaða 600 kWst rafhlöðuna. Með svona stóra rafhlöðu má sigla skipinu nær hljóðlaust á 5-6 sjómílna hraða í um það bil eina og hálfa klukkustund,“ útskýrir Sverrir.
Verkföll og aðrar uppákomur
Smíðin hefur gengið meira eða minna eðlilega fyrir sig og segir Sverrir nokkuð góðlátlega að það sé ekki óvanalegt að endrum og sinnum sé núningur á milli verkkaupa og skipasmíðastöðvar um frágang og vinnubrögð. Hann segir margt til í þeirri kenningu að íslenskir kaupendur séu mjög kröfuharðir og vilji meiri gæði en útgerðir annarra landa sætta sig við. „Þeim þykir ég kannski fullsmámunasamur, en það vill stundum bregða við að menn ráðfæra sig lítið við kaupandann meðan á smíðinni stendur. Mitt aðalhlutverk er að tryggja að smíðin sé í fullu samræmi við smíðalýsingu og grípa inn í þegar þörf krefur.“
Afhending nýja skipsins er nokkrum mánuðum á eftir áætlun en upphaflega stóð til að skipið væri klárt í október síðastliðnum. Sverrir segir það ekki óeðlilegt að skipasmíðaverkefni taki lengri tíma en að var stefnt. „Strax sumarið 2023 var farið að bera á töfum sem mátti rekja til blokkarsmíðinnar og náðist hreinlega aldrei að vinna það upp. En fjögurra mánaða töf þykir ekki svo mikið í skipasmíðageiranum í dag,“ segir hann. „Þá voru einhver verkföll á tímabili sem flæktust fyrir Armon, og eitt rafmagnsfyrirtækið sem vann að skipinu hvarf af vettvangi. Hafði þá nýr eigandi keypt fyrirtækið og hætti að borga mönnum laun og var ekkert unnið við rafmagn í skipinu í rúman mánuð af þeim sökum.“
Þegar blaðamaður ræddi við Sverri var afhending skipsins á lokametrunum en því fylgir mjög ítarleg yfirferð og uppgjör á reikningum. Fjármálin eru ekki í höndum Sverris, en hann segir þó ekki annað að sjá en smíðin hafi staðist kostnaðaráætlun. „Við afhendingu skipa þróast reikningurinn iðulega í báðar áttir. Bæði eru viðbætur vegna ýmissa kostnaðarauka en líka frádrættir, s.s. vegna tafa á afhendingu.“
690 dagar á Duolingo
Sverrir hefur búið í Vigo frá páskum 2023 og kveðst hafa haft það nokkuð huggulegt. „Ég fékk afnot af ágætri íbúð inni í bænum með tvö aukasvefnherbergi svo að ég hef getað tekið á móti fjölskyldumeðlimum sem hafa komið til mín í heimsókn og konan mín hefur búið hér hjá mér lungann af tímanum. Um síðustu jól vorum við bara tvö ein hér úti en þarsíðustu jól mætti öll fjölskyldan hingað til Spánar og var hjá mér yfir hátíðirnar,“ segir hann spurður um viðskilnaðinn við ástvini meðan á verkefninu stóð.
Vigo er rúmlega 300.000 manna bær og nokkuð þéttbýll. „Hér búa allir í blokkum sem liggja þétt hver upp við aðra og bærinn er ósköp fallegur. Þetta er ekki beint túristabær, ólíkt flestum bæjunum á Miðjarðarhafsströnd Spánar, en auk skipasmíðastöðvanna er hér t.d. að finna stórar bílaverksmiðjur og annan iðnað.“
En er Sverrir ekki orðinn sleipur í spænskunni eftir allan þennan tíma og mun hann ekki örugglega sakna spænskrar matseldar nú þegar skipið er fullklárað? „Ég er kominn með 690 daga lotu í Duolingo,“ segir hann léttur í bragði og játar að spænskan hafi batnað þó að hann sé fjarri því orðinn altalandi á málinu. Hins vegar hefur hann náð góðum tökum á að njóta spænskra sjávarrétta: „Af mat heimamanna er ég afskaplega hrifinn af smokkfisknum og réttinum „pulpo“ sem er þjóðarréttur Galisíu og er kolkrabbi þar aðalhráefnið.“