Samtal við Sigfús – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar er yfirskrift á sýningu Einars Fals Ingólfssonar sem verður opnuð í dag, laugardaginn 8. mars, klukkan 14 í Þjóðminjasafninu. Segir í tilkynningu að þar muni Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður bjóða gesti velkomna og forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, opna sýninguna.
Einar Falur, sem er fæddur 1966, vinnur út frá og í sjónrænu samtali við myndverk Sigfúsar Eymundssonar (1837-1911) en undanfarin misseri hafa myndir Sigfúsar verið nokkurs konar fararstjóri á ferðalögum Einars Fals víða um land. Hefur hann bæði endurtekið valin sjónarhorn forvera síns, sem og tekið sína eigin myndramma á sömu stöðum og Sigfús myndaði á, en á sýningunni má sjá úrval þessara samtalsverka. Samhliða sýningunni gefur Þjóðminjasafnið út bókina Aftur – samtal við Sigfús, með rúmlega 130 ljósmyndum ásamt texta eftir Einar Fal.