Alpagreinar
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Skíðamaðurinn Jón Erik Sigurðsson hafnaði í 22. sæti í svigi á heimsmeistaramóti unglinga í Tarvisio á Ítalíu í vikunni.
Jón var í 26. sæti eftir fyrri ferðina, náði sjöunda besta tímanum í seinni ferðinni og endaði í 22. sæti en hann leiddi keppnina um tíma eftir frábæra seinni ferð.
Skíðamaðurinn, sem er einungis tvítugur, hefur átt viðburðaríkan vetur en hann hefur æft og dvalið í Val di Fassa á Ítalíu það sem af er keppnistímabili.
„Ég er mjög sáttur við þennan árangur í Tarvisio,“ sagði Jón Erik í samtali við Morgunblaðið.
„Ég átti frábæra seinni ferð og það var ótrúlega skemmtileg tilfinning að koma í mark og leiða keppnina um tíma. Ég settist í þennan fræga stól, þar sem þeir sem leiða keppnina hverju sinni fá að sitja, og fékk meira að segja að sitja í stólnum í smá tíma. Maður fékk aðeins smjörþefinn af því hvernig það er að vera á toppnum og þangað stefnir maður að sjálfsögðu,“ sagði Jón Erik.
Dýr mistök í stórsviginu
Jón Erik keppti einnig í stórsvigi á mótinu þar sem hann hafnaði í 39. sæti en er hann sáttur við árangurinn á HM unglinga?
„Ég ætlaði mér að enda aðeins ofar auðvitað, í báðum greinum, en eitt af markmiðunum fyrir keppnina var að setjast í leiðtogastólinn í sviginu og það gekk upp. Ég gerði smávægileg mistök í stórsviginu sem reyndust frekar dýr. Í fyrri ferðinni missti ég allan hraða þegar ég kom inn á flata kaflann og það er erfitt að ná aftur upp hraðanum þegar það gerist.
Mér gekk betur í seinni ferðinni en þá var það eiginlega orðið of seint. Ég er ekkert síðri í stórsvigi en svigi en því miður hefur mér ekki tekist að sýna það á þeim mótum sem ég hef keppt í í vetur. Mér hefur samt gengið vel á stórsvigsæfingum og næst á dagskrá er að yfirfæra það yfir í keppnirnar því ég sé fyrir mér að verða jafnvígur í báðum greinum og keppa í þeim báðum á stórmótum.“
Gengur sáttur frá borði
Jón Erik keppti einnig á heimsmeistaramóti fullorðinna í Salbaach í Austurríki um miðjan febrúar en mótið var hans annað heimsmeistaramót. Þar komst hann í úrslit í bæði svigi og stórsvigi en tókst ekki að ljúka fyrri ferðinni í báðum greinum.
„Það var virkilega gaman að keppa á HM í annað sinn. Ég var ekki sáttur við árangurinn á HM 2023 í Courchevel í Frakklandi og var því staðráðinn í því að gera betur í ár, sem tókst. Ég komst í úrslit í bæði svigi og stórsvigi og þó ég hefði auðvitað viljað klára keppnirnar þá geng ég nokkuð sáttur frá borði þar.
Ég tók ákvörðun um að keyra á þetta og það gekk ekki upp í þetta skiptið. Þetta er ákveðin áhætta sem þú tekur og þú þarft að tæma hugann fyrir hverja ferð. Af tveimur slæmum kostum finnst mér skárra að klára ekki keppnina, frekar en að koma í mark meðvitaður um það að ég átti eitthvað inni og hefði getað gefið meira í ferðina.“
Fremstu skíðamenn heims voru allir á meðal þátttakenda á HM í Salbaach, skíðamenn sem Jón Erik hefur fylgst lengi með.
„Það var frábært að eyða tíma með bestu skíðamönnum heims og ég lærði heilan helling meðan á mótinu stóð. Hvernig þessir bestu skíðamenn heims fara inn í brautarskoðun til dæmis. Hvernig þeir hita upp og hvernig þeir taka sér mjög góðan tíma í allt sem þeir gera. Þetta eru allt skíðamenn sem hafa ástríðu fyrir því sem þeir eru að gera.“
Stressið í hámarki
Jón Erik býr vel að þeirri reynslu sem hann öðlaðist á sínu fyrsta heimsmeistaramóti fyrir tveimur árum.
„Ég var miklu meira tilbúinn í slaginn núna en fyrir tveimur árum. Fyrir tveimur árum var ég nánast að deyja úr stressi, sem er ekkert sérstaklega góð tilfinning. Ég var miklu rólegri núna því ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í. Í þessum undanrásum þarf spennustigið að vera rétt stillt og það er ákveðin kúnst.
Ólíkt FIS-mótunum sem maður er vanur að taka þátt í þá er aðeins meira mál að skíða út úr braut á stórmóti. Það er alltaf næsta FIS-mót en HM er haldið á tveggja ára fresti og maður leggur mikið á sig til þess að taka þátt í þessu móti. Stressið er í hámarki því þú færð í raun bara einn séns en mér fannst ég ná að stilla strengina vel saman í Salbaach.“
Jón Erik hefur sett stefnuna á Vetrarólympíuleikana í Cortina á Ítalíu sem fram fara á næsta ári.
„Markmiðið er að koma sér inn á Ólympíuleikana. Tímabilið klárast um miðjan apríl og ég ætla að vera duglegur að keppa þangað til. Sumarið fer svo bara í það að styrkja sig almennilega. Mér hefur gengið mjög vel á FIS-mótum vetrarins og ég er búinn að safna ágætlega mörgum stigum. Markmiðið er að halda áfram að bæta í og tryggja sér þannig keppnisrétt á Ólympíuleikunum, nokkuð sem mig hefur dreymt um frá því ég byrjaði á skíðum,“ bætti Jón Erik við í samtali við Morgunblaðið.