Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík, heldur sinn árlega skattadag á morgun, sunnudag, þar sem framteljendur geta komið í HR og fengið aðstoð við skattframtölin, sér að kostnaðarlausu.
Nemendur sem lokið hafa 3. ári í lögfræði sjá um aðstoðina í samstarfi við endurskoðunarskrifstofuna Gæðaendurskoðun. Skattadagurinn fer fram milli kl. 10 og 15 á morgun.
Þeir sem vilja nýta sér þessa þjónustu þurfa að hafa með sér rafræn skilríki eða veflykil, aðgangsupplýsingar að heimabanka og aðgangsupplýsingar að skattframtalinu á skattur.is.
Einstaklingar hafa frest til 14. mars nk. til að skila framtalinu. Lögrétta minnir á að skattadagurinn er ekki ætlaður aðilum í rekstri eða þeim sem hafa verktakalaun yfir 2 milljónum, eru með skráð VSK-númer, reikna sér laun sjálfir, stunda verðbréfaviðskipti eða hafa meira en 12 milljóna kr. tekjur á ári.