Úr bæjarlífinu
Gunnar Kristjánsson
Grundarfirði
Grundarfjarðarbær hlaut nýverið veglegan styrk frá Evrópusambandinu, ESB, vegna verkefnisins Life Icewater. Um er að ræða samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og 22 annarra stofnana og sveitarfélaga. Styrkurinn sem Grundarfjarðarbær hlýtur er tæpar 2,3 milljónir evra, sem samsvarar um 334 milljónum króna. Alls var styrkurinn frá ESB, sem kom í hlut Íslands, um 3,5 milljarðar króna.
Hér í Grundarfirði er talað um að þetta fé verði nýtt í svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir þar sem þetta bláa er rigningin og hið græna gróðurinn sem tekur við vatninu, öllum til mikilla hagsbóta. Þetta virkar svolítið nýtt fyrir suma og af þeim sökum eru áform uppi hjá Grundarfjarðarbæ um að kynna málið vel fyrir íbúum. Var það vel við hæfi að fyrsta kynningin fór fram á vikulegum hittingi eldri borgara í Sögumiðstöðinni.
Fleiri mál brenna á stjórnendum Grundarfjarðar. Þar eru skipulagsmálin efst á baugi. Breytingar á aðalskipulagi, til þess að hægt sé að kynna deiliskipulag, eru stöðugt á dagskrá. Búið er að kynna nýtt deiliskipulag fyrir Ölkeldudal hér efst í byggðinni sem og nýtt deiliskipulag fyrir iðnaðarsvæðið austanvert við byggðina. Þá er verið að vinna að nýju skipulagi á svokölluðum miðbæjarreit.
Höfnin byggir nú við hafnarskúrinn og ríflega tvöfaldar rýmið. Þessi viðbygging er ætluð til að bæta aðstöðu fyrir rútubílstjóra og leiðsögumenn sem tengjast komum skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Þá verður þarna salernisaðstaða fyrir ferðafólk og einnig aukið rými fyrir starfsmenn hafnarinnar sem voru orðnir aðþrengdir í eldri byggingunni. Í ár er von á um 80 skemmtiferðaskipum til Grundarfjarðar og þar af koma þrjú þegar í maí en þá á viðbyggingin að vera klár.
Nú þegar daginn tekur að lengja er tilvalið að hrista aðeins upp í menningarlífinu og þar rekur hver viðburðurinn annan. Í kvöld halda Lionsmenn í Grundarfirði sína árlegu sjávarréttaveislu sem þeir kalla Kútmagakvöld, þar sem matreiddir eru hinir margvíslegustu fiskréttir að ógleymdum sjálfum kútmaganum úttroðnum af lifur og mjöli.
Sem fyrr rennur allur ágóði kvöldsins til góðra málefna. Að þessu sinni eru það Golfklúbburinn Vestarr, sem nýverið keypti golfvöllinn að Suður-Bár, og Skotgrund, skotfélag Snæfellsness, sem stendur í miklum framkvæmdum vegna Evrópumóts í ágúst í sumar, sem njóta ágóðans.
Um næstu helgi er komið að Kvenfélaginu Gleym mér ei að halda sína árlegu Góugleði þar sem þemað í þetta sinn er Glimmer og demantar og eru allar konur vítt og breitt um Snæfellsnes hvattar til að mæta enda verða rútuferðir frá öllum þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi. Og ágóðinn af sölu happdrættismiða sem seldir verða á gleðinni rennur til Skíðasvæðis Snæfellsness.