Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins er óskað til hamingju með verðskuldaðan sigur. Guðrún Hafsteinsdóttir hefur alla burði til að verða traustur og farsæll formaður flokksins og vonandi mun óhamingjusama fólkið í fylkingunni sem tapaði ekki leitast við að gera henni lífið leitt í því starfi.
Báðir formannsframbjóðendur lögðu í kosningabaráttu sinni áherslu á að breikka þyrfti Sjálfstæðisflokkinn. Í ræðum sínum á landsfundinum voru Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þó að þrengja skilyrði fyrir stuðningi við flokkinn. Af einhverjum ástæðum fannst þeim brýn þörf á að höggva í Evrópusambandið og vara við inngöngu í það.
Guðrún Hafsteinsdóttir sagði ekkert skjól vera í Evrópusambandinu en sagði um leið að við ættum að styrkja böndin við vinaþjóðir okkar. Hún hlýtur að vita að þær þjóðir eru allflestar einmitt í Evrópusambandinu og kvarta ekki undan því. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bullaði enn meir og sagði plan nýrrar ríkisstjórnar vera að fórna auðlindum okkar, fullveldi og sjálfstæði fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Tal eins og þetta er hræðsluáróður og skrum.
Afar skiptar skoðanir eru meðal þjóðarinnar um aðild Íslands að sambandinu. Stjórnmálaflokkur sem er einbeittur í því að verða fjöldahreyfing verður að leyfa ágreining um svo stórt mál innan sinna raða. Öðruvísi verður hann ekki stór. Það er þó nokkuð síðan Sjálfstæðisflokkurinn blindaðist í óbeit sinni á Evrópusambandinu og á sínum tíma hrökklaðist hópur fólks úr flokknum vegna þess að trú þess á Evrópusambandinu þótti vera hið argasta guðlast.
Kristrún Frostadóttir hefur sýnt þá fyrirhyggju að leyfa bæði jákvæðar og neikvæðar skoðanir á Evrópusambandinu innan síns stóra flokks. Margir samfylkingarmenn vilja örugglega meiri áherslu á stuðning við inngöngu í Evrópusambandið, en Kristrún áttar sig á því, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki skilja, að þjóðinni verður ekki þröngvað inn í sambandið. Meirihluti hennar þarf að kjósa inngöngu. Svona starfa almennilegir stórflokkar.
Guðrún og Áslaug Arna töluðu á landsfundinum eins og þær gerðu á sama tíma og Bandaríkjaforseti hótar öllum þeim sem neita að gerast strengjabrúður hans. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur líkt meðferð Trumps á Volodomír Selenskí á fundi þeirra í Hvíta húsinu við heimilisofbeldi. Selenskí sýndi þar sjálfstæðistilburði og þá varð samstundis að kveða niður.
Þjóðarleiðtogar heims tipla á tánum í kringum Trump og bugta sig og beygja ef þarf því Trump er svo valdamikill að á engan hátt má koma honum úr jafnvægi. Þetta sást berlega þegar forsætisráðherra Breta, Keir Starmer, mætti í Hvíta húsið með boð til Trumps um heimsókn til Karls Bretakonungs. Starmer lagði hönd sína á handlegg Trumps um leið og hann sagði honum að konungurinn veitti ekki öllum slíkan heiður. Trump ljómaði og Starmer var greinilega létt.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins bar ein kona af öðrum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fyrrverandi utanríkisráðherra steig í ræðupúlt og ræddi um ástand sem svo ótalmargir víða um heim hafa þungar áhyggjur af.
Hún sagði: „Tími alvörunnar er runninn upp. Ég segi það með djúpri sorg í hjarta og ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að segja það. Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ekki málsvarar raunverulegs frelsis …“
Þetta var brýn og einlæg ræða, flutt af stjórnmálamanni sem var að stíga úr stóli varaformanns. Óneitanlega hugsaði maður með sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði virkilega efni á að hafa konu eins og Þórdísi Kolbrúnu einungis á hliðarlínunni. Hún talaði eins og formaður stjórnmálaflokks á að tala. Hún talaði hvorki með né gegn Evrópusambandinu, enda þurfti hún þess ekki. Hún var að tala fyrir heimsmynd sem byggist á friði og frelsi. Heimsmynd sem við viljum umfram allt sjá, hvort sem við heillumst af Evrópusambandinu eða ekki.