Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafnar Viðskiptablaðsins taka eftir ýmsu og ráku augun í það á dögunum að Dagur B. Eggertsson, „sérstakur stuðningsfulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi, er að reyna að gera sig gildandi í umræðum um alþjóðamál eftir að hann var kjörinn…

Hrafnar Viðskiptablaðsins taka eftir ýmsu og ráku augun í það á dögunum að Dagur B. Eggertsson, „sérstakur stuðningsfulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi, er að reyna að gera sig gildandi í umræðum um alþjóðamál eftir að hann var kjörinn formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, sem er ein af fastanefndum Alþingis“.

Hrafnarnir segja að þetta virðist þó ekki ganga sérlega vel hjá Degi. Á mánudag hafi hann skrifað grein um að flýta eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB vegna viðsjár í alþjóðamálum.

Þá segja þeir: „Greinin var varla búin að birtast þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, steig fram í fjölmiðlum og sagði engar breytingar verða gerðar á áætlunum um fyrirhugaða þjóðaratkvæðisgreiðslu á seinni hluta kjörtímabilsins. Um kvöldið var svo Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í Silfrinu, þar sem hún sagði að ekki ætti að flýta ferlinu á grundvelli ótta vegna varnarmála. Grein Dags var því einungis búin að vera í nokkra klukkutíma í birtingu þegar strikað hafði verið yfir hana.“

Bæði Finnland og Svíþjóð voru í ESB þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og ákváðu þá að varnarleysið dygði ekki lengur og gengu í NATO. Engan þarf að undra þó að Kristrún og Þorgerður séu ekki ginnkeyptar fyrir rökleysu Dags.