Sýningin Geislapinnar Magnúsar 2025 með verkum eftir Magnús Helgason var opnuð í Listvali í gær.
Titill sýningarinnar Geislapinnar Magnúsar 2025 er sagður vísa í þá orku sem birtist í verkunum. Sterkir litir eru sagðir skjótast yfir myndflötinn eins og geislaskot. „Ég laðast að sterkum litum, svona er þetta bara,“ er haft eftir Magnúsi.
„Magnús Helgason heldur sig við sama heygarðshornið – alltaf að mála, en líka mikið í því að „ekkimála“. Ein hugmyndin á bak við fagurfræðina í verkunum er að mála sem minnst, að skilja lítið eftir af eigin pensilskrift. Hann reynir frekar að raða saman tilviljunum sem finnast á förnum vegi, að láta náttúruna sjá um að búa til listina. Hlutverk hans er að koma auga á hana og ramma hana inn,“ segir í kynningartexta. „Ég er kannski frekar innrammari en málari,“ er jafnframt haft eftir myndlistarmanninum.