Átak Anna Birna Almarsdóttir er verkefnisstjóri verkefnisins.
Átak Anna Birna Almarsdóttir er verkefnisstjóri verkefnisins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, er verkefnisstjóri átaksverkefnisins „Vitundarvakning og valdefling eldra fólks um notkun svefnlyfja“ sem Alma D. Möller heilbrigðisráðherra setur opinberlega af stað á mánudag

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, er verkefnisstjóri átaksverkefnisins „Vitundarvakning og valdefling eldra fólks um notkun svefnlyfja“ sem Alma D. Möller heilbrigðisráðherra setur opinberlega af stað á mánudag. Átakið er notendamiðað með eldri borgara við stjórnvölinn og er það nýlunda hérlendis. „Allir landsmenn hafa aðgang að verkefninu,“ leggur Anna Birna áherslu á.

„Þetta er vitundarvakning sem á að vara eldra fólk við hættum af svefnlyfjum og benda því á aðrar lausnir við svefnvanda án lyfja vegna þess að þau virka ekki sérstaklega vel og lengi,“ heldur Anna Birna áfram. Hún bendir á að 2020 hafi um 10% Íslendinga fengið einn eða fleiri lyfseðla á öll svefnlyf, en 2024 hafi um 6% fengið einn eða fleiri lyfseðla á aðeins algengustu svefnlyfin og eru þá ekki öll talin. „Árið 2020 notuðu Íslendingar rúmlega sex sinnum meira af svefnlyfjum en Danir, sem voru lægstir Norðurlandaþjóða.“

Bæklingar liggja frammi

Svefnlyf eru ein ofnotuðustu lyf á Íslandi og fólk er árum saman á lyfjunum án þess að vita að þau séu hætt að virka, að sögn Önnu Birnu. „Til að byrja með hafa svefnlyf heldur ekki sérlega mikla verkun.“ Algengustu svefnlyfin hjálpi fólki að sofna að meðaltali sjö mínútum fyrr en ef það tæki engin svefnlyf og það sofi um 20 mínútum lengur á hverri nóttu að meðaltali. Áhætta fylgi einnig notkun svefnlyfja. Fólk missi jafnvægi, eigi á hættu að detta og slasa sig, lyfin hafi áhrif á akstur og minnisglöp tengist notkuninni. „Áhætturnar eru sérstaklega miklar hjá eldra fólki.“

Rannsóknarhópur Önnu Birnu við Kaupmannahafnarháskóla hefur sérhæft sig í mörg ár við að skoða viðhorf og þekkingu fólks á lyfjum. Sjúklingarnir hafa í vaxandi mæli komið inn í ráðgjafarhópinn og þannig haft áhrif á framgang mála. Anna Birna vinnur íslenska verkefnið á svipaðan hátt. Auk ýmissa stoða í heilbrigðisþjónustunni og Háskóla Íslands fékk hún Landssamband eldri borgara til þess að vinna með sér. „Það er nýlundan sem ég kem með inn í þetta átak,“ segir hún. Verkefnið sé einkum miðað við eldri borgara og þeir komi að skipulagningu og útfærslu þess. „Þetta er lýðheilsuaðgerð þar sem fólkið sjálft er við stjórnina.“

Verkefni í Dalhousie-háskóla í Halifax í Kanada er haft til hliðsjónar og er fyrirliggjandi fræðsluefni, bæklingarnir Hvernig má hætta á svefnlyfjum og Að endurheimta gæðasvefn, útbúið í samstarfi við rannsakendur þar. „Við fengum nýjustu útgáfur af bæklingum þeirra,“ segir Anna Birna, en efninu verður dreift í apótek, á heilsugæslustöðvar, í heimahjúkrun og á Landspítalann. „Það þarf að trappa sig út úr svefnlyfjum hægt og sígandi og fólk sem vill fræðast um svefnlyf er hvatt til að sækja sér bæklinga í apótek eða heilsugæslustöðvar.“

Anna Birna segir að átakið í Kanada hafi haft viðamikil áhrif. 46% þeirra sem fengu nýjustu bæklingana hafi til dæmis minnkað skammtana eða hætt. Vakni einhverjar spurningar sé fólki ráðlagt að að spyrja lyfjafræðinga í apótekum eða annað heilbrigðisstarfsfólk. „Við erum líka með vefsíðu [sofduvel.is] sem beinir fólki í úrræði til að trappa sig niður í lyfjatökunni og til að bæta svefninn.“

Verkefnið er styrkt af Fléttunni á vegum menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytinu og Lyfjafræðingafélagi Íslands. Skipulagning með öllum hlutaðeigandi hófst í byrjun desember á liðnu ári og á Anna Birna að skila fyrrnefndum ráðuneytum frumniðurstöðum í ágúst á þessu ári, en endanlegar niðurstöður liggja væntanlega fyrir öðruhvorumegin við næstu áramót. „Við væntum þess að notkun svefnlyfja fari niður á við, sérstaklega hjá eldri borgurum, og að þekking þeirra á lyfjunum aukist,“ segir Anna Birna.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson