Þróttmiklir fjölmiðlar eru nauðsynlegir í virku lýðræðisþjóðfélagi. Þeir gegna lykilhlutverki við að miðla fréttum af hinu markverðasta nær og fjær, stuðla að upplýstri umræðu og veita hvers kyns valdhöfum aðhald.
Þeir afla frétta og staðfesta þær, rannsaka og greina kjarna hvers máls, segja frá í aðgengilegu og auðskiljanlegu máli og koma til skila, hratt og vel.
Án öflugra fjölmiðla með hagsmuni lesandans í fyrirrúmi verður upplýsingin einhliða og lýðræðið veikist.
Allt þetta hefur mönnum lengi verið ljóst og af þeirri ástæðu hefur svo mikil áhersla verið lögð á tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðla í stjórnarskrám, lögum og rétti lýðræðisríkja.
Það er ekki heldur nein tilviljun að hér á landi kviknaði sjálfstæðisbaráttan af hugmyndum upplýsingaraldar og prentfrelsinu. Eða að lýðræðið efldist og þroskaðist með öflugum og fjölbreyttum fjölmiðlum liðinnar aldar.
Um aldamótin síðustu tók fjölmiðlun hins vegar að breytast, mjög í takt við tæknibyltingu og samfélagslegar afleiðingar hennar. Hér á landi setti bankahrunið einnig strik í þann reikning, svo mjög að segja má að fjölmiðlun sé eina atvinnugreinin sem ekki hefur rétt úr kútnum síðan.
Það er áhyggjuefni, einmitt út af hinu sérstaka lýðræðislega hlutverki fjölmiðla. Á það hafa stjórnmálamenn í öllum flokkum fallist, en þrátt fyrir að margt hafi verið skrafað og ýmislegt aðhafst hefur rekstrarumhverfi fjölmiðla ekki batnað og þeir lagt upp laupana, einn af öðrum. Við svo búið kann þeim enn að fækka.
Viðskiptaráð Íslands birti í vikunni svarta skýrslu um íslenskt fjölmiðlaumhverfi undir fyrirsögninni Afsakið hlé. Þar er dregið fram hvernig umsvif Ríkisútvarpsins (Rúv.) með sína ríflega 6 milljarða króna árlegu meðgjöf og vaxandi samkeppni erlendra félagsmiðla hafa leitt til mikils tekjusamdráttar annarra miðla með þeirri afleiðingu að starfsfólki í greininni hefur fækkað gríðarlega og miðlarnir týnt tölunni einn af öðrum.
Starfsfólki einkarekinna fjölmiðla hefur fækkað um 69% frá árinu 2008, úr 2.040 í 640, á meðan fækkun starfsmanna hjá ríkismiðlinum er mun minni, eða 16% (úr 320 í 270). Frá 2013 hefur starfsfólki Rúv. raunar fjölgað um 13%, á meðan einkamiðlar hafa glatað 62% af sínum starfsmönnum.
Þetta er afleit þróun, hvort sem litið er á hina einkareknu fjölmiðla út af fyrir sig eða í samanburði við ríkisfjölmiðilinn.
Bent er á að staða Ríkisútvarpsins á Íslandi sé mjög óvenjuleg, þar sem það fær ekki aðeins beinar og tryggar tekjur úr ríkissjóði (og meira til þegar reksturinn fer úr böndum), heldur keppir það einnig á auglýsingamarkaði, sem heita má einsdæmi. Á Íslandi hefur Rúv. 27% af heildartekjum á fjölmiðlamarkaði, en annars staðar á Norðurlöndum er meðaltalið 10%.
Þetta veldur samkeppnisójafnvægi sem einkareknir fjölmiðlar geta ekki búið við.
Um það er ekki deilt, en einmitt þess vegna brugðust stjórnvöld við með því að búa til styrkjakerfi á dögum heimsfaraldursins, sem hefur verið framlengt árlega síðan. Ekki verður þó séð að það hafi í nokkru haft áhrif á þróunina og styrkjakerfið er harðlega gagnrýnt í skýrslunni.
Það hefði vitaskuld mátt vera ljóst frá upphafi að styrkir til einkarekinna fjölmiðla hefðu lítið að segja meðan ríkismiðillinn fékk tólffalda þá upphæð.
En það má líka deila á aðferðina, því þar er minnstu miðlunum hyglað, en þeir stærstu – þeir sem annast nær alla frumfréttavinnslu í landinu – eru látnir gjalda stærðarinnar. Að því leyti ganga lögin gegn því meginmarkmiði að styrkja hið sérstaka lýðræðislega hlutverk miðlanna.
Með þessu móti eru allir fjölmiðlar í landinu komnir undir væng ríkisvaldsins, eru allir orðnir ríkisfjölmiðlar í einhverjum skilningi. Og borgararnir allir á einhvern hátt komnir í skylduáskrift að þeim öllum, hvort sem þeim líka þeir betur eða verr.
Alvarlegast er þó, að þegar hinir frjálsu fjölmiðlar eru orðnir háðir fjárveitingavaldinu er unnt að draga sjálfstæði þeirra í efa.
Það er ekki lengur einhver fræðileg vangavelta.
Þegar Morgunblaðið flutti fréttir af margþættri óreiðu Flokks fólksins, hikaði þingmaður hans ekki við að hóta því að blaðið yrði svipt ríkisstyrknum fyrir vikið. Það reyndist ekki vera út í bláinn, því nokkrum dögum síðar lagði Logi Einarsson, menningarmálaráðherra Samfylkingarinnar, fram frumvarpsdrög um breytingu á lögunum, þar sem framlag til stærstu miðlanna tveggja er enn lækkað og boðar að haldið verði áfram á þeirri braut. Enginn þingmaður Viðreisnar hefur andæft þeim fyrirætlunum.
Þetta er grafalvarlegt mál, hrein og bein aðför ríkisstjórnarinnar að fjölmiðlafrelsi, beinlínis ætluð til þess að jafna um þá sem dirfast að segja sannleikann um valdhafa; árás á góða lýðræðisvenju.
Því verður ekki unað og Morgunblaðið lætur hvorki kúga sig til hlýðni né þagnar.