Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Kötturinn er í fullu starfi hér og mjög duglegur við músaveiðar, heldur öllu hreinu hjá okkur. Þetta er gömul og geðvond læða sem heitir Fínó,“ segir Margrét Gunnarsdóttir á Ísabakka þegar hún kynnir köttinn sem tekur á móti blaðamanni í Ullarverinu í Hrunamannahreppi, rétt utan við Flúðir. Magga er annar eigandi Ullarversins en hinn er Elín Jóna Traustadóttir í Tungufelli í sömu sveit. Ullarverið er verslun, ullarvinnsla, vinnustofa og aðstaða til námskeiðahalds.
„Ég byrjaði að brasa í þessu haustið 2021 og er að nota fiskþurrkunarhúsnæði sem var lokað 2020. Ég velti fyrir mér hvaða starfsemi ég gæti haft í þessum húsum og þá vaknaði hugmyndin að setja á fót ullarvinnslu. Ég var að skoða vélar frá Kanada til að vinna hreina ull í band, en þær voru svo dýrar að ég hætti við þá fjárfestingu. Ég fór þá í dvala um tíma með ullarpælingar, en tók samt til í byggingunum til að búa til pláss, ég reif niður risastóran frystiklefa og fleira. Ég keypti vél frá Kína til að tæta niður ull, en hún var reyndar ekki eins öflug og hún átti að vera, hárin í íslensku haustullinni eru svo löng að vélin ræður ekki við hana. Hún ræður aftur á móti vel við snoðið og bændur eru fegnir því að einhver vilji nýta snoðið. Ég þvæ og tæti niður snoð, sem verður þá fullkomið tróð, til að setja inn í púða, úlpur eða annað sem þarf að fylla, og Ella Jóna hefur nýtt það í þeim vörum sem hún hannar og selur.“
Fór út með ull í ferðatöskum
Magga segist nýta allt sem hún mögulega geti sem fyrir er í húsunum og áður tilheyrði rekstri fiskþurrkunar.
„Ég nota fiskikörin til að þvo ullina og heita vatnið fæ ég úr borholunni okkar, síðan skelli ég blautri ullinni í létta vindingu í þar til gerðum vélum og loks set ég ullina á fyrrverandi fiskigrindur til lokaþurrkunar inni í þurrkklefum sem voru hér fyrir. Ég tek við ull beint frá bændum, þvæ hana og þurrka og bráðum get ég líka unnið hana í band. Nú er ég búin að festa mér risastórar notaðar vinnsluvélar úti í Bretlandi, sem geta unnið ullina í band. Ég hef farið tvisvar út og er búin að finna þrjár hluta af fjórum af vélasamstæðu sem til stendur að kaupa. Ég þvældist út með ull í tveimur ferðatöskum til að prófa vélarnar, því ég verð að vera viss um að þær ráði við íslensku ullina. Við gerðum margar tilraunir og komumst að því að nauðsynlegt er að kaupa sérstaka vél sem klippir ullina niður, en þaðan fer hún í aðra vél sem tætir hana og síðan fer ullin í vélasamstæðu þaðan sem hún kemur út sem plötulopi. Fólk ræður svo hvort það prjónar beint úr plötulopa eða spinnur hann upp í fínna band,“ segir Magga en hana vantar endann á vélasamstæðuna.
„Ég flyt þetta ekki heim fyrr en allt er komið, en ég er með mann úti sem er að leita fyrir mig að þessu púsli sem vantar. Á meðan ég bíð eftir því þá þvæ ég og þurrka ull sem ég hef sankað að mér, svo allt sé til reiðu þegar vélasamstæðan kemur til landsins. Þá get ég mokað ull í vélarnar,“ segir Magga og bætir við að þær Ella Jóna flytji sjálfar inn lífræna mjúka sápu til að þvo ullina.
Þessi brjálaða á gólfinu
Magga og Ella Jóna sjá saman um prjónabúðina í Ullarverinu sem þær opnuðu formlega í nóvember í fyrra. Þar selja þær ullartengdar vörur, garn og afurðir, peysur, vettlinga og fleira heimaprjónað sem og hönnun Ellu Jónu. Magga prjónar sjálf margar af þeim peysum sem þar eru til sölu, en restina sjá konur í sveitinni um að prjóna.
„Ég þurfti að innrétta allt upp á nýtt til að opna búð hér inni, rífa niður veggi, þrífa og mála. Ég lagði parketið sjálf, enda er ég þessi brjálaða á gólfinu, en Ella Jóna sér um allt í tölvunni, auk þess að vera mjög afkastamikil handverkskona. Hún fékk að koma með saumavélarnar sínar hingað og setti upp saumastofu, enda stendur hún með mér fyrir námskeiðum hér tengdum ullarvinnslu, spuna, vefnaði, litun og þæfingu.“
Ella Jóna segir að í næstu viku bjóði þær upp á spunanámskeið þar sem unnið verður með íslenska ull með sömu aðferðum og fyrrum voru notaðar.
„Hin þýska Marianne Guckelsberger ætlar að kenna og það verður „tekið ofan af“, kembt og spunnið á halasnældu og kynntir verða tog- og ullarkambar, íslenskar snældur og erlendar. Markmið okkar hér hjá Ullarsetrinu er að fræða og halda við öllu sem tengist þessari afurð íslensku sauðkindarinnar, ullinni. Hingað koma margir áhugasamir útlendir ferðamenn sem versla mikið og við tökum á móti vina- og vinnustaðahópum sem vilja koma í heimsókn og skoða fyritækið og fræðast um sauðkinda og ullina.“
Líkar þó við séum ólíkar
Ella Jóna á og rekur fyrirtækið Fjallaspuna sem býður upp á vefsíðugerð, en hún er menntaður kennari og starfar við Menntaskólann að Laugarvatni. Fjallafrúin er vörumerki hennar utan um saumastofuna, hönnun hennar og framleiðslu á kúrukoddum, ungbarnahreiðrum, hálspúðum og gæludýrabólum.
„Ég er með vörulínurnar Hnoðra, Þófa og Værukær, púða fyrir börn og gæludýr, en ég fór inn í þetta samstarf með Ullarverinu af eiginhagsmunahvötum, mig vantaði ull til að nota sem fyllingu í þessar vörur. Þvegna og niðurtætta snoðið hennar Möggu er fullkomið til þess, en snoðinu er oftast hent, svo það er frábært að geta nýtt það með þessum hætti og ég mæli með því fyrir þá sem leita eftir tróði,“ segir Ella Jóna sem einnig sérsaumar brúðarslör og hringapúða.
„Við Magga skiptum með okkur verkum í Ullarverinu, en við erum þokkalega líkar þó við séum ólíkar. Í haust tók Magga meira yfir sjálfa ullarvinnsluna, hún sér um að koma vélum af stað og kaupa ull af bændum, en ég sé meðal annars um kynningarmál og heimasíðu. Við erum með álíka mikinn athyglisbrest og báðar mjög hugmyndaríkar, svo þetta hentar okkur vel.“
Sótti munstur í altaristöflu
Ella Jóna hefur saumað sér faldbúning sem hún skrifaði heila bók um, og kallast Tungufellsfaldbúningurinn.
„Í Tungufelli þar sem ég bý er lítil kirkja og útsaumsmunstrið á faldbúningnum er upp úr máluðu munstri á altaristöflu kirkjunnar. Ég tek stundum á móti litlum hópum klædd þjóðbúningi og fer með fólk í Tungufellskirkju, sýni faldbúninginn og segi alla söguna. Þangað fæ ég til mín íslenska hópa, norska og bandaríska,“ segir Ella Jóna og bætir við að saumaáhugi hafi alltaf blundað í henni, en í þjóðbúningabransanum hafi hann byrjað fyrir alvöru.
„Í framhaldinu komu allskonar hugmyndir þar sem ég nýti ullina og við ætlum að smíða námskeið í Ullarverinu fyrir fólk af erlendu bergi brotið í uppsveitunum, til að læra að spinna og fræðast um íslensku ullina. Við ætlum líka að smíða námskeið fyrir skólakrakka, en allir grunnskólar í Flóanum og uppsveitunum eru með samstarf um smiðjur sem standa í einn og hálfan dag í senn. Þá munum við bæði fræða krakkana og kenna þeim að búa eitthvað til úr ullinni. Núna er ofboðslega mikil vakning í menningartengdri ferðaþjónustu, og við erum vel í sveit settar við Magga með Ullarverið, hér í nágrenni við Gullna hringinn.“
Nánar um spunanámskeiðið nk. laugardag á heimasíðu: ullarver.is og á Facebook: Ullarverið-Icelandic Woolmarket & Mill
Heimasíður Ellu Jónu: Fjallafruin.is, Fjallaspuni.is, Tungufell.net