Ingunn Sigurðardóttir fæddist í Súðavík við Álftafjörð 31. júlí 1926. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu, Laugarási, 30. janúar, á 99. aldursári. Foreldrar Ingunnar voru Ólöf Halldórsdóttir frá Neðri-Miðvík í Aðalvík, f. 9. mars 1896, d. 1985, og Sigurður Hallvarðsson frá Skjaldabjarnarvík á Ströndum, f. 1892, d. 1977.

Systkini hennar voru: Halldóra Kristjana, f. 1920, d. 2000, Júlíana, f. 1922, d. 2020, Þorsteina Guðrún, f. 1924, d. 2015, Þorsteinn, f. 1930, d. 2013, og Finnur Kári, f. 1937, d. 1999.

Þann 8. nóvember 1958 giftist Ingunn Tryggva Sveinbjörnssyni blikksmíðameistara. Tryggvi fæddist á Snorrastöðum í Laugardal 4. september 1921, d. 15. febrúar 1993. Foreldrar hans voru Sveinbjörn Eyjólfsson bóndi á Snorrastöðum, f. 1. apríl 1880, d. 1933, og Guðrún Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 1. maí 1886, d. 1943.

Dóttir Ingunnar og Tryggva er Guðrún, f. 1962. Hennar maður er Sturla Friðriksson, f. 1962, og þeirra synir Gautur, f. 1980, og Tryggvi Steinn, f. 1989. Með sambýliskonu sinni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttir, á Gautur soninn Garp Sturlu, f. 2016. Börn Nönnu Kristínar eru Kristinn Kolur, f. 2007,
og Unnur María, f. 2010.
Með Söndru Hlíf Ocares á Gautur dæturnar Ragnheiði Uglu, f. 2004, og Úlfhildi Ingu, f. 2009. Sambýliskona Tryggva Steins er Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland og eiga þau soninn Starkað Mána, f. 2024.

Útför Ingunnar Sigurðardóttur var gerð frá Áskirkju 18. febrúar 2025 í kyrrþey.

Mig dreymdi ömmu fyrir stuttu. Hún var létt í lund og það er bjart yfir henni og hún segir mér að hún sé alræt. Ég vakna með hlýja tilfinningu í hjartanu. Einu tímaskeiði er lokið og nýtt tekur við.

Kynslóðirnar eru eins og laufgaðar greinar og með tímanum falla laufin eitt og eitt. Amma var síðasta laufið á sinni grein. Tenging við gamla tíma, við horfinn heim liðinna jólaboða og ættarmóta. Hún kveður síðust af sínum vinum, sinni kynslóð, síðust af stórum systkinahóp.

Ég hef notið þess að hafa ömmu sem bjargfestu í mínu lífi alla mína tíð. Þvílík blessun að hafa fengið allan þennan tíma. Engin venjuleg orð duga til að lýsa þeim stað sem amma hefur alltaf átt hjá mér og mun eiga um ókomna tíð.

Sem lítill drengur fékk ég tækifæri til að verja mörgum góðum stundum með ömmu og afa og það var mér mikil gæfa. Amma og afi voru nefnilega fólk þeirrar gerðar að af þeim lærði ég að skilja úr hverju virkilega, virkilega gott fólk er gert.

Amma sýndi mér alltaf skilyrðislausan kærleika og umhyggju. Hún veitti skjól með hlýrri nærveru og sýndi einlægan áhuga á mér og öllu mínu fólki. Fjölmargar minningar bernskunnar flögra um hugann. Þar er mikil birta og góður matur, já og auðvitað rjómapönnukökur og jólakaka – alltaf jólakaka og kaffi – nóg af því.

Þegar afi féll óvænt frá fór ég að heimsækja ömmu alltaf á laugardögum og eftir því sem árin liðu bættust börnin mín eitt af öðru í hópinn.

Við amma gátum spjallað um heima og geima. Það var gaman að fá að kynnast ömmu sem fullorðinn maður og eiga hana sem trúnaðarmanneskju. Hún hallmælti engum og tók alltaf upp hanskann fyrir lítilmagnann og lagði áherslu á mikilvægi þess að vera góð manneskja.

Amma tjáði gjarnan ást sína með veitingum af ýmsu tagi sem ég naut góðs af í hvívetna. Alltaf var hún jafn eldhress og reiðubúin að spjalla og traktera ungviðið með einhverju gúmmelaði. Skelfing sem mér þykir vænt um alla þessa liðnu morgna og góðu samverustundir.

Það eru forréttindi að eiga slíkan hauk í horni, slíka stuðnings- og trúnaðarmanneskju. Það er ofboðslega dýrmætt að hafa upplifað slíka væntumþykju. Við fjölskyldan örvæntum þó ekki í þeirri vissu að ekki verði stuðningurinn minni frá Sumarlandinu.

Þegar ég hugsa um ömmu þá fyllist ég djúpu þakklæti fyrir alla óskilyrtu ástina, kærleikann og aðdáunina. Ég finn líka alltaf lyktina af pönnukökum og verð aftur, eitt örstutt augnablik, sjö ára uppi í sumarbústað að hlaupa um á sólbökuðum degi. Engar áhyggjur, engar þrautir, bara þessi stund undir verndarvængnum hennar ömmu. Við rifjuðum stundum upp þessa gömlu góðu tíma síðustu árin sem hún lifði og hlógum og glöddumst yfir góðum stundum. En nú bý ég einn að þessum minningum, geymi þær í hjartanu mínu sem dýrgripina sem þær eru.

Eins og á greinum trjánna þá kemur að því að síðasta laufið fellur til jarðar. Nú hefur amma kvatt að sinni, södd lífdaga og deilir vonandi uppáhellingi og jólaköku með afa í Sumarlandinu.

Guð geymi þig alla tíð og takk fyrir allt, elsku amma mín.

Þinn,

Gautur.