— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er alveg ljóst að fjölgun hnúfubaks hefur áhrif á afrakstur loðnustofnsins í það minnsta, en það er svo önnur spurning hversu mikið það er. Hnúfubakur hefur verið friðaður frá miðri síðustu öld og síðan þá hefur ekki verið umræða á…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er alveg ljóst að fjölgun hnúfubaks hefur áhrif á afrakstur loðnustofnsins í það minnsta, en það er svo önnur spurning hversu mikið það er. Hnúfubakur hefur verið friðaður frá miðri síðustu öld og síðan þá hefur ekki verið umræða á vettvangi stjórnvalda um að afturkalla friðun á tegundinni,“ segir Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir ljóst að erfitt sé að ná fullum skilningi á kerfinu þegar kemur að mati á afráni hvala.

Meint afrán hnúfubaks úr loðnustofninum hefur komist í sviðsljósið í kjölfar afar lítillar ráðgjafar um loðnuveiðar, en útgefinn heildarkvóti í loðnu nam aðeins tæpum 8.600 tonnum í ár.

„Það er fullt af hval og tölur sem verið er að vinna úr eftir talningar í sumar geta allt eins sýnt fram á að hvölum fari enn fjölgandi,“ segir Þorsteinn, en hnúfubak hefur fjölgað mjög við landið allmörg undanfarin ár. Sökum þess að ekki hefur komið fram vilji stjórnvalda til að afnema friðun hnúfubaks segir Þorsteinn að það sé ekki hlutverk Hafrannsóknastofnunar að veita ráðgjöf um nýtingu stofnsins. Einungis sé nýtingaráætlun til gagnvart hrefnu og langreyði og því sé veitt ráðgjöf um veiðar úr þeim stofnum hvala.

„Lítið sást af hnúfubak þegar farið var af stað með talningar um miðjan níunda áratuginn, en hann er nú mjög algeng sjón við landið. Einnig hefur sú breyting orðið á háttsemi hnúfubaks að hann er farinn að hafa vetursetu við landið, öfugt við það sem áður var,“ segir Þorsteinn.

„Langreyðurin er minna í nytjastofnum, gengur meira norður með kantinum, utan við þær slóðir sem okkar fiskimið eru og gögn úr langreyði sýna að hún er mest í ljósátu,“ segir hann.

Þorsteinn segir að hnúfubakur og hrefna séu þær hvalategundir sem sjáist mest á þeirri slóð sem loðnan sést á.

Reyndu að ná fitusýnum

Í ljósi mikils vaxtar í stofni hnúfubaks og þess að hann er djarftækur í loðnu þegar hún er hér við land, væri ástæða til þess að rannsaka hvert afrán hnúfubaks kann að vera í loðnu?

„Við vorum með áætlun um slíkt í tengslum við rannsóknir sem við gerðum á árunum 2018 til 2022. Eitt verkefnið var að ná fitusýnum úr hnúfubak, en með þeim hætti er hægt að greina fæðusamsetningu hans í einhverja mánuði á undan,“ segir Þorsteinn, en til að gera langa sögu stutta skiluðu þær tilraunir ekki neinu. Erfitt reyndist að ná sýnum úr hvölunum úti á rúmsjó.

„Aðstæður til að ná sýnum voru svo erfiðar að þau skiluðu sér ekki. Aðferðafræðin til að greina fæðuna án þess að drepa dýrið er til staðar, en að ná í sýnið er þrautin þyngri,“ segir Þorsteinn.

Spurningu um hvort einfaldara væri að veiða hnúfubak til þess að komast að því hvað hann sé að éta t.a.m. af loðnu svarar Þorsteinn þannig að það geti verið nokkuð snúið. Til þess þurfi sérútbúna báta og ekki sé nóg að skjóta hvalina á þeim tíma sem vitað sé að þeir séu að éta loðnu, dreifa þurfi rannsókninni yfir tíma svo að skilja megi fæðuvistfræðina hjá þessari tegund hvala, t.a.m. hvað hvalurinn væri að éta mikið af ljósátu þegar hann væri ekki í loðnunni. Þá væri ekki nægjanlegt að taka bara eitt dýr í mánuði til að fá niðurstöðu. Til þess þyrftu þau að vera fleiri.

Nefna má að ljósáta er aðalfæða fullvaxinnar loðnu.

Væri ástæða til að afla sér vitneskju og auka þekkingu til þess að sjá betur heildarmyndina og samhengi hlutanna þegar kemur að afráni hnúfubaks?

„Það væri auðvitað langskynsamlegast að gera, en til þess þyrfti mjög umfangsmiklar rannsóknir og sérbúið skip,“ segir Þorsteinn og nefnir að það gildi einnig um alla vistfræði og tengsl lífvera í hafinu við landið.

Þorsteinn segir að ekki megi gleyma því að fyrir síðustu aldamót hafi orðið breyting á útbreiðslumynstri loðnunnar og vísar þar til þess að bent hefur verið á lítinn loðnustofn á sama tíma og hnúfubaksstofninn sé stór. Það að loðnan hafi þurft að hörfa til vesturs í kaldari sjó geti líka verið stór breyta og skýring á því hve erfitt stofninn hefur átt uppdráttar. Því sé spurning hvort sé meginorsökin fyrir minnkandi loðnustofni; breyting á útbreiðslu eða afrán hnúfubaks.

„Ég get ekki svarað því,“ segir Þorsteinn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson