Svanur Guðmundsson
Svanur Guðmundsson
Íslenskur sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær, ólíkt flestum öðrum ríkjum. Ríkisstyrkir annarra landa skapa ósanngjarna samkeppni.

Svanur Guðmundsson

Í viðamikilli skýrslu OECD Review of Fisheries 2025 eru tekin fyrir 30 þróuð ríki með markaðshagkerfi og 11 ríki utan þeirra skoðuð með tilliti til stöðu sjávarútvegs. Það kemur kannski einhverjum á óvart en Ísland er eina landið í skýrslunni þar sem sjávarútvegurinn greiðir meira til ríkisins en hann fær í opinbera styrki. Greiðslur frá greininni eru meira en tvöfalt hærri en opinber útgjöld ríkisins vegna rannsókna, eftirlits og kostnaðar, svo sem Haf og Vatn (rannsóknar- og ráðgjafastofnun, þ.e. Hafró), Fiskistofa og Landhelgisgæslunnar. Þær stofnanir sinna rannsóknum og eftirliti bæði á landi, sjó og lofti. Það er mun meira en snýr eingöngu að veiðum og nýtingu fiskstofna. Látum það liggja á milli hluta.

Þetta er ólíkt því sem tíðkast í mörgum öðrum OECD-löndum, þar sem ríkisstyrkir eru algeng leið til að styðja við sjávarútveg.

Þrátt fyrir smæð sína á heimsvísu er Ísland meðal fremstu fiskútflutningsríkja og var í 14. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir heims árið 2022. Útgerðarfyrirtæki í löndum þar sem ríkisstyrkir eru ríkjandi hafa lægri rekstrarkostnað, sem getur skapað ósanngjarna samkeppni. Ísland keppir þannig við stærstu ríki heims í fiskveiðum en ekki á jafnréttisgrundvelli.

Veiðigjöld og skattaspor

Samkvæmt útreikningum Ríkisskattstjóra fyrir árið 2024 námu veiðigjöld rúmum 10 milljörðum króna, en samkvæmt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var skattaspor greinarinnar 86 milljarðar króna. Skattaspor íslensks sjávarútvegs samanstendur af nokkrum þáttum, þar á meðal veiðigjöldum, tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga í greininni, tryggingagjaldi og sköttum á eldsneyti og kolefnisgjöldum. Ísland er þannig eitt af fáum ríkjum þar sem sjávarútvegur er nettógreiðandi til ríkisins, á meðan mörg önnur lönd styðja sjávarútveg sinn með ríkisstyrkjum, sum umtalsvert. Þessi mismunur hefur áhrif á rekstrarskilyrði íslenskra útgerða á alþjóðamarkaði, þar sem þær þurfa að keppa við ríkisstyrktar útgerðir sem fyrir vikið njóta lægri rekstrarkostnaðar.

Styrkir til sjávarútvegs á heimsvísu

Flest ríki sem stunda fiskveiðar veita sjávarútvegi ríkisstyrki til að styðja við reksturinn, oft í formi styrkja til endurnýjunar skipaflotans, kaupa á veiðarfærum eða beinna niðurgreiðslna á eldsneyti. Á árunum 2020-2022 veittu
OECD-ríki samtals 54 milljörðum króna í styrki til skipasmíða og endurnýjunar veiðiskipa, þar af fóru 90% upphæðarinnar í endurbætur á skipum og kaup á búnaði.

Styrkir til kaupa á nýjum skipum eru sjaldgæfari, en Kína hefur veitt verulegum fjármunum í slíkt, með hámark upp á 70 milljarða króna á ári á árunum 2015-2017. Margir ríkisstyrkir hafa einnig verið veittir undir yfirskini loftslagsaðgerða, til að styðja við orkusparandi tæknibúnað í skipum.

Afleiðingar ríkisstyrkja í sjávarútvegi

OECD hefur þróað aðferð til að meta áhrif ríkisstyrkja á sjálfbærni í sjávarútvegi. Í skýrslunni kemur fram að á árunum 2020-2022 voru 65% allra ríkisstyrkja til sjávarútvegs í OECD-ríkjum metin með miðlungs- eða mikla áhættu þegar kemur að því að hvetja til ósjálfbærra veiða.

OECD bendir á að ríkisstyrkir geti haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á sjávarútveg. Þeir geta stuðlað að betri stjórnun fiskistofna og aukinni framleiðni en einnig ýtt undir rangar fjárfestingar og ofveiði ef þeir eru illa útfærðir. Ísland er eitt fárra ríkja þar sem stuðningur ríkisins skapar ekki hvata til umframveiða eða offjárfestinga, en í mörgum öðrum löndum gerir fjárhagslegur stuðningur útgerðarmönnum kleift að viðhalda eða auka veiðigetu sína án tillits til raunverulegrar afkomu veiðanna.

Til að sporna við neikvæðum áhrifum ríkisstyrkja leggur OECD áherslu á að þeir séu hannaðir með sjálfbærni að leiðarljósi. Í skýrslunni er mælt með því að stjórnvöld veiti styrki aðeins til útgerða sem starfa við sjálfbærar veiðar og að styrkir til eldsneytiskaupa og nýrra skipa verði endurskoðaðir eða aflagðir. Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) hefur þegar tekið stór skref í þessum efnum með því að banna styrki sem stuðla að ólöglegum veiðum, veiðum á ofveiddum stofnum og veiðum utan lögsögu viðkomandi ríkja.

Niðurstaða

Það er óumdeilanlegt að íslenskur sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær í beinum stuðningi. Samkeppnisskekkjan er hins vegar ósanngjörn, þar sem fiskveiðar í mörgum öðrum OECD-ríkjum njóta ríkisstyrkja sem lækka rekstrarkostnað þeirra verulega.

Til að tryggja sanngjarna samkeppni á alþjóðamarkaði er mikilvægt að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum samtökum og samningum um að minnka ósanngjarna ríkisstyrki í fiskveiðum. Ísland hefur byggt upp sjálfbært fiskveiðikerfi sem byggir á markaðsdrifnum forsendum, ekki á ríkisstyrkjum. Hins vegar skapar fyrrgreind styrkjastefna erlendra ríkja ósanngjarnt alþjóðlegt samkeppnisumhverfi þar sem aðrir aðilar njóta góðs af umfangsmiklum stuðningi frá ríkjum sínum. Til að viðhalda samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs er nauðsynlegt að efla nýsköpun og vinna að sanngjarnari alþjóðlegri samkeppni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf. og sjávarútvegsfræðingur.

Höf.: Svanur Guðmundsson