Nýtt og glæsilegt skip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300, eykur mjög getu stofnunarinnar til að rannsaka lífríki sjávar. Þetta er fyrsta nýja skipið í aldarfjórðung og býr yfir margvíslegri getu sem eldri skipin gera ekki, svo sem að sigla hljóðlaust, sem truflar síður það sem verið er að rannsaka og bætir þannig niðurstöður og eykur þekkingu.
Óhætt er að segja að skipið komi á tíma þegar full þörf er á að auka þekkingu á fiskistofnunum við landið og samspili þeirra, bæði hvers við annan og einnig við annan hluta lífríkisins, til dæmis hvalastofninn.
Þessi mál hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu og má þar nefna athyglisverða grein Svans Guðmundssonar hér í blaðinu á dögunum, þar sem hann benti á að bolfiskstofnar við Ísland, einkum þorskur, stæðu frammi fyrir vaxandi áskorunum. Nefndi hann ýmsa þætti í því sambandi sem full ástæða er til að rannsaka nánar.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf., hefur einnig lýst áhyggjum af ástandinu í sjónum og sagði í samtali við Morgunblaðið um helgina að hann teldi að neyðarástand ríkti þegar kæmi að nýtingu loðnustofnsins. Hann nefnir sem dæmi að ekkert tillit sé tekið til afráns hvala og að magainnihald hvala á loðnuvertíð sé ekki rannsakað. Svanur benti einnig í grein sinni á fjölgun hvala sem áhyggjuefni og sagði þá éta margfalt meira en sem nemur veiði manna.
Í þessum efnum er augljóslega að mörgu að hyggja og miklir hagsmunir í húfi. Bættar rannsóknir á lífríki sjávar eru þess vegna fagnaðarefni.