Elmar Þórðarson fæddist 16. júní 1951. Hann lést 20. febrúar 2025.
Útför hans fór fram í kyrrþey 3. mars 2025.
Það var áfall þegar Ólafía kona Elmars vinar míns og samstafsfélaga hringdi og færði mér þá frétt að Elmar lægi dauðvona uppi á Landspítala.
Kynni okkar Elmars hófust þegar hann kom til mín í verklega þjálfun á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Hann var þá ungur maður við nám í talmeinafræði í Osló. Það var ljóst að hann hafði strax áhuga á faginu enda vann hann við það allan sinn starfsferil. Hann vann sem talmeinafræðingur á Fræðsluskrifstofu Vesturlands hjá Snorra Þorsteinssyni fræðslustjóra og síðar hjá Guðbjarti Hannessyni skólastjóra Grundarskóla á Akranesi. Báðir þessir miklu skólamenn höfðu örugglega sterk áhrif. Á Fræðsluskrifstofunni kynntist Elmar einnig Ástþóri Ragnarssyni sálfræðingi sem átti eftir að verða tryggur samstarfsfélagi Elmars í mörg ár. Þegar á leið stofnaði Elmar fyrirtækið Talþjálfun og ráðgjöf og starfaði þar sem sjálfstæður sérfræðingur fyrir skólana á Vesturlandi og við hluta af grunnskólum Vestfjarða. Einnig vann Elmar nokkur ár sem talmeinafræðingur fyrir Leikskóla Reykjavíkur. Elmar ók alltaf út frá Akranesi til þessara staða og þeirra á milli. Hann virtist aldrei mikla fyrir sér langar ökuferðir.
Eftir heimkomuna frá náminu var Elmar fljótt virkur félagsmaður í fagfélagi okkar FTT og var formaður félagsins árin 1989-1992 og svo aftur 2001-2003. Sem formaður kom það m.a. í hans hlut að bjóða til faglegrar ráðstefnu norrænna tal- og raddsérfræðinga hér í Reykjavík 2.-4. júní 1991. Þátttakan var ótrúlega góð frá Norðurlöndunum. Vigdís forseti opnaði ráðstefnuna með góðri ræðu og flott tónlist var flutt. Ráðstefnan stóð síðan í tvo daga á Hótel Loftleiðum. Á þessum tíma voru félagsmenn FTT örlítill hópur sem var alls óvanur undirbúningi og framkvæmd svo stórrar ráðstefnu. En þetta tókst allt undir góðri stjórn og með áræði Elmars. Góður rómur var gerður að bæði efni og framkvæmd ráðstefnunnar og fékk félagið hrós frá formönnum erlendu félaganna. Félagið fékk óvænt greiðslur úr norrænum sjóði sem kom félaginu vel í mörg ár.
Þéttasta samstarf okkar Elmars var þegar við ásamt Ingibjörgu Símonardóttur talmeinafræðingi gerðum að beiðni Landlæknis málþroskaskimun til notkunar á heilsugæslustöðvum. Við fengum Amalíu Björnsdóttur aðferðafræðing og prófessor til samstarfs með okkur. Í tíu ár var EFI-málþroskaskimun lögð fyrir nánast öll 3ja ára börn á landinu. Árið 2010 breytti Landlæknir aldursviðmiðum sinnar skimunar og tók upp önnur matstæki. Þá kölluðum við inn allar EFI-möppur og gerðum nýja og endurbætta skimun með 270 barna stöðlun ætlaða til notkunar í leikskólum. Sú skimun fékk nafnið EFI-2 og kom fyrst út 2012 og var Elmar útgefandi. EFI-2 er enn notuð í flestum leikskólum landsins.
Elmar var stoltur faðir og afi og greinilegt að hann fylgdist vel með fólkinu sínu. Alltaf tilbúinn ef á þurfti að halda.
Það er mikið högg að missa svo góðan vin og samstafsmann sem Elmar Þórðarson. Þín er og verður sárt saknað.
Ég votta Ólafíu og allri fjölskyldunni mína dýpstu samúð.
Friðrik Rúnar
Guðmundsson.