Rúnar Pétursson Tavsen fæddist 3. febrúar 1953 á Hofsósi. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 20. febrúar 2025.

Foreldrar Rúnars voru Aðalheiður Bára Vilhjálmsdóttir, f. 31.10. 1922, d. 3.10. 1960, og Pétur Andreas Tavsen, f. 20.9. 1919, d. 24.5. 1990. Systkini Rúnars eru: 1) Uni Þórir, f. 19. mars 1942, d. 24. mars 2014. 2) Jaspur Henrik, f. 15. ágúst 1946, d. 27. apríl 1948. 3) Hermína Sofía, f. 29. júlí 1948, d. 1. ágúst 1993. 4) Steinn, f. 8. júlí 1949, d. 6. maí 2015. 5) Sigurður Bjarnar, f. 21.10. 1950. 6) Salmína Sofie, f. 6.9. 1954.

Rúnar eignaðist þrjú börn: 1) Bára Waag Rúnarsdóttir, f. 24. mars 1977, maki Jóhann Helgi Steinarsson, f. 30. júlí 1973, börn þeirra eru Stefán Már, f. 9.3. 1996, d. 3.10. 2009, Marta Ósk, Almar Ingi og Hilmar Már. 2) Simun Rúnarsson, f. 13. apríl 1978. Börn hans: Stefán Leó og Saga Ísabella. Barnsmóðir Ronja Edda Þorbergsdóttir, þau slitu samvistir. 3) Jóhann Rúnar Rúnarsson, f. 23. maí 1990. Móðir þeirra og fv. eiginkona Rúnars er Anna María Waag, f. 28. nóvember 1956.

Rúnar var smiður og atvinnubílstjóri að mennt.

Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku frændi minn. Nú hefur þú stimplað þig út og kvatt í síðasta sinn. Farinn á vit feðranna alltof snemma.

Þú misstir mömmu þína allt of snemma en hún lést aðeins þrjátíu og sjö ára gömul. Við andlát hennar leystist heimilið upp og þið systkinin fóruð öll á hvert á sinn staðinn. Þú fórst á Reykjaströndina á Daðastaði til Jóhanns og Sesselju. Þegar ég fæðist og elst upp innan um ykkur bræðurna var það svipað og þegar sú tíð var að öll mið voru tekin af föstum punktum
á láði og legi, af fjöllum, klettum, eyjum og skerjum. Óhaggandi vitar sem tíminn hefur reynt að buga og brjóta með allri sinni náttúru. Ofsaveðri og vindum í okkar skilningi, eilífar vörður sem kvikan lemur á dag eftir dag, ár eftir ár, öld eftir öld. Fyrir mér voruð þið bræður sams konar fasti, klettadrangur sem stóð upp úr lífsins brimi, samtvinnaður Hofsósi, menningu og sögu á svo sérstakan hátt. Og sama hversu harkalega öldurótið barðist við að brjóta þig niður, þá stóðstu alltaf keikur þegar á reyndi. Þú þekktir vel landið okkar og varst búinn að keyra flesta ef ekki alla vegi og troðninga sem til eru er þú varst að keyra rútur. Einnig þekktir þú Færeyjar en þar bjóstu um tíma og tvö eldri börnin þín eru fædd þar.

Þú lentir í tveimur slysum, öðru á sjó og hinu í landi er þú fékkst olíu í lungun. Eftir hið síðara var sagt að þú yrðir ekki langlífur því lungun skemmdust mikið. En þú náðir að verða 72 ára sem er sami aldur og pabbi náði. Steinn bróðir þinn náði að verða 66 ára, Hermína systir þín 44 ára en Jaspur bróðir þinn fékk einungis tvö ár.

Eftir að heilsu þinni hrakaði komstu þér fyrir á Akureyri og fékkst mjög mikinn áhuga á golfi. Það var eitthvað sem þú gast talað um, gleymt þér við það. Sú útivist og hreyfing hefur líklega hjálpað til að þú náðir þó þessum aldri. Ekkert er sjálfgefið í þessum heimi.

Það hefur örugglega verið tekið vel á móti þér í sumarlandinu. Þar verða foreldra þínir og systkin ásamt abbastráknum þínum, Stefáni Má, sem þú saknaðir sárt eftir að hann fór einungis 13 ára gamall.

Elsku frændi sem var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd og gefa ráð. Þú lærðir smíðar, varst verklaginn þúsundþjalasmiður og dverghagur í höndunum. Margs er að minnast og margs er að sakna. Takk fyrir allt og allt, minningarnar lifa í hjörtum okkar sem eftir erum. Takk fyrir allar góðu stundirnar og skemmtilegu samverustundirnar og öll símtölin sem við áttum og þau síðustu þar sem þú varst að hjálpa mér að finna báta fyrir Smábátasafnið.

Elsku Bára, Símun, Jóhann og abbabörn, söknuðurinn er sár. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar. Megi höfuðáttirnar norður, austur, suður og vestur leiðbeina ykkur og vernda í vegferð ykkar. Þín er sárt saknað elsku frændi.

Þorgrímur Ómar
Tavsen.