Fjölskyldan Frá vinstri: Helga, Áslaug, Sólrún, Þórður og Silja Ósk.
Fjölskyldan Frá vinstri: Helga, Áslaug, Sólrún, Þórður og Silja Ósk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áslaug Sigvaldadóttir er fædd 10. mars 1965 í Reykjavík en ólst upp fyrstu árin á Syðra-Lágafelli í Miklaholtshreppi, en fjölskyldan flutti síðan suður haustið 1968, í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég á mjög góðar minningar tengdar æskuslóðunum,…

Áslaug Sigvaldadóttir er fædd 10. mars 1965 í Reykjavík en ólst upp fyrstu árin á Syðra-Lágafelli í Miklaholtshreppi, en fjölskyldan flutti síðan suður haustið 1968, í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég á mjög góðar minningar tengdar æskuslóðunum, Vesturbænum, ilmur af sumri, börn í leik um sumarkvöld og skautar á Melavellinum að vetri. Ég var í sveit nokkur sumur á Hofstöðum og í vist að passa börn á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi.“

Áslaug gekk í Melaskóla og Hagaskóla og á þaðan góðar minningar. „Ég var sjoppustjóri og í skreytingarnefnd í Hagaskóla.“

Framhaldsskólarnir voru tveir hjá Áslaugu. „Fyrst fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð. Var þar í listafélaginu og í leiklistarfélaginu, sá fram á að útskrifast aldrei vegna þátttöku í félagsstörfum svo ég labbaði mér yfir í Ármúla og lét meta mig inn í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þaðan útskrifaðist ég af náttúrufræðibraut 1987. Ég hitti Þórð í Ármúlaskóla og við byrjuðum að búa á Holtsgötunni í Vesturbænum.“

Þau gengu í hjónaband haustið 1988 og Þórður fór í Garðyrkjuskólann að Reykjum og Áslaug bjó í Reykjavík. „Seinni veturinn í garðyrkjuskólanum leigðum við dásamlegt hús í Hveragerði, tengdist ég því vel bæði náminu og samnemendum Þórðar, en síðan þá höfum við alltaf talað um þegar við vorum í Garðyrkjuskólanum.

Þórður réð sig sem garðyrkjumann í Stykkishólmi og fluttum við þangað með tvær eldri dætur okkar og við byrjuðum að rækta á Lágafelli. Við keyptum okkur litla íbúð á Mánagötunni og vorum þar á veturna. Mig langaði alltaf í myndlist og tók ég inntökupróf vorið 1991 í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist úr málaradeild 1995. Við vorum á þessum tíma búin að byggja okkur lítið hús á Lágafelli og byrjuðum að rækta garðplöntur, vorum sumarlangt í sveitinni en á vetrum í Reykjavík.“

Áslaug fór í uppeldis- og menntunarfræði í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1997. „Ég réð mig til kennslu á Hellissandi og sumrin voru í sveitinni. Hvalfjarðargöngin voru ekki komin, svo að þetta var besta leiðin til að komast sem næst sveitinni. Ég hef kennt síðan 1995, hef alltaf haft áhuga á kennslunni og er að ná 30 árum í starfinu. Ég bætti við mig námi 2008 en þá fór ég í almenna náttúrufræði í Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég kláraði ekki það nám, enda nóg að gera í öllu mögulegu.“

Þau hjónin hafa rekið garðplöntustöð síðan 1991, sem heitir Ræktunarstöðin Lágafelli. „Garðyrkjan er helsta áhugamálið mitt og dætur okkar þrjár hafa unnið með okkur í garðyrkjunni.“

Áslaug hefur haldið nokkrar myndlistarsýningar frá því að hún útskrifaðist. „Þótt það hafi farið minna fyrir þeim síðustu ár er helsta markmiðið mitt að mála og vinna meira í myndlist.“

Áslaug hefur gaman af að vera innan um fólk og vann lengi vel í kvenfélaginu í sveitinni og var formaður Kvenfélagasambands Snæfells og Hnappadalssýslu í nokkur ár. „Þessi pakki er þó búinn í dag.

Við ákváðum að byggja okkur kaffi- og veitingahús við hliðina á Ræktunarstöðinni. Þórður er mjög laghentur og vann lengi með föður sínum sem er húsasmíðameistari og með hans hjálp, dætra okkar, fjölskyldu og vina höfum við komið upp litlu og kósí kaffihúsi. Þar eru sumarfríin núna, sem áður var eytt í gróðurhúsinu.

Kaffihúsið heitir Hjá góðu fólki og er nafnið vísun í ævisögu sr. Árna Þórarinssonar Hjá vondu fólki. Snæfellingar eru gott fólk og sjálfsagt að gera því skil. Ég hef minnkað við mig kennslu síðustu tvö ár, einn daginn verður kaffihúsið aðalvinnan en ekki aukavinnan. Áhugamálin eru fjölmörg fyrir utan garðyrkjuna, ég hlusta mikið á tónlist og fer á tónleika, syng í kvennasöngsveitinni Skaði sem er hér á sunnanverðu Snæfellsnesi en karlarnir syngja í karlakórnum Heiðbjörtu. Ég er líka mikil kattakona og á þrjá ketti núna. Við erum einnig með hund, hesta, hænur, dúfur, og á tímabili vorum við með kindur, það fór ekki vel með gróðurhúsinu svo að það var mikil léttir að hætta því.

Við eigum marga og góða vini, sem hafa safnast í gegnum nám og kennslu áratuganna, höfum kannski ekki getað sinnt þeim eins og við helst vildum. Það verður bragarbót á því í vor því það stendur til að halda upp á afmælin okkar saman, en Þórður varð einnig 60 ára fyrr á árinu. Ég hlakka óendanlega til framhaldsins, vona að heilsan verði góð og að við eigum margar góðar stundir með vinum og fjölskyldu og góðar minningar skapist.“

Fjölskylda

Eiginmaður Áslaugar er Þórður Ingimar Runólfsson, f. 7.2. 1965, garðyrkjufræðingur. Þau eru búsett á Lágafelli. Foreldrar Þórðar eru hjónin Runólfur Grétar Þórðarson, f. 23.5. 1942, byggingameistari, og Sigríður Lúðvíksdóttir, f. 11.10. 1944, húsmóðir, búsett í Reykjavík.

Dætur Áslaugar og Þórðar eru 1) Silja Ósk Þórðardóttir, f. 29.3. 1987, vöruhönnuður og þjóðfræðingur, búsett í Ósló. Maki: Tumi Ferrer kaffiristari. Synir þeirra eru Kolbeinn Þinur, f. 2011, og Þórbergur Váli, f. 2013; 2) Sólrún Þórðardóttir, f. 13.3. 1989, náttúru- og umhverfisfræðingur, búsett í Ölfusi. Maki: Arnar Þór Sigurðsson vélagæslumaður. Börn þeirra eru Emilía Guðrún, stjúpdóttir Sólrúnar, f. 2012, Jenný Helga, stjúpdóttir Arnars Þórs, f. 2014, og Jökull Þór, f. 2022; 3) Helga Þórðardóttir, f. 2.1. 1999, snyrtifræðingur, búsett í Reykjavík. Maki: Jan Carlo Cagatin, húsasmiður.

Systkini Áslaugar eru Sigrún Matthea Sigvaldadóttir, f. 29.4. 1962, fasteignasali, búsett í Garðabæ, og Guðjón Sigvaldason, f. 5.10. 1963, leikstjóri og fararstjóri, búsettur í Kópavogi.

Foreldrar Áslaugar: Sigvaldi Jóhannsson, f. 3.7. 1932, d. 29.5. 2016, þaklagningarmaður í Reykjavík, og Hólmfríður Helga Guðjónsdóttir, f. 20.2. 1937, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík.