Sigurður Guðleifsson fæddist 5. febrúar 1963. Hann lést 15. febrúar 2025.
Útför Sigurðar fór fram 6. mars 2025.
Elsku Siggi. Elsku frændi okkar.
Það er erfitt að meðtaka þá staðreynd að þú sért farinn frá okkur. Innst inni vissum við að það kæmi að þessum degi en við héldum að við hefðum meiri tíma, við vonuðum að við hefðum meiri tíma. Við gætum auðveldlega dottið ofan í þá holu að fara yfir erfiðu tímana síðustu ár, en við kjósum frekar að hugsa til þeirra jákvæðu og gleðjast yfir góðum minningum sem við eigum með þér. Því að þær minningar eru svo miklu fleiri og það veitir okkur gleði í hjarta.
Þú varst okkur virkilega náinn frændi og við höfum talað um þig sem elsta bróður. Þú varst hluti af okkar kjarna. Þegar við fórum í fjölskylduferð innanlands eða til útlanda þá tókum við þig með. Kjarninn var með fjölskylduspjall í símanum, og auðvitað þú með. Barnaafmæli, matarboð eða aðrar veislur, alltaf Siggi frændi líka.
Við eigum öll okkar eigin minningar með þér. Sama hvort það er að hafa fengið blöðrur í risastórum kassa í afmælisgjöf, veiðiferðir, utanlandsferðir, rökræður um pólitík eða samræður um bíómyndir. Öll eigum við það sameiginlegt að eiga alveg ótrúlegar margar dýrmætar minningar með þér í bústaðnum, í Sveitinni okkar. Þar varðir þú öllum helgum og öllum þínum frítíma. Þar eyddum við stórum hluta af sumarfríinu okkar með þér. Börnin okkar hafa öll á einhverjum tímapunkti haldið að frændi ætti bara heima í Sveitinni því alltaf varst þú þar þegar við komum. Við erum líka svo þakklát fyrir tímann og þolinmæðina sem þú gafst börnunum okkar. Þau voru heppin að eiga þennan frænda sem gaf sér ávallt tíma fyrir þau, nennti að dröslast með þau um allt landið í kringum Sveitina, hugsa um hænurnar, búa til leikföng og leika einhvern karakter til að gleðja þau.
Við gætum rætt fram og til baka um „hvað ef“ en staðreyndin um að þú sért farinn mun ekki breytast. Við munum halda áfram að tala um allt sem við gerðum með þér, allar þessar jákvæðu og skemmtilegu minningar og þannig halda minningu þinni á lofti. Þú lifir áfram í hjörtum okkar, við erum stöðugt minnt á þig í öllu því sem við eigum eftir þig, og við erum viss um að við munum finna fyrir nærveru þinni í Sveitinni líkt og við finnum fyrir ömmu og afa. Í næstu ferð í Sveitina munum við skála fyrir þér í pottinum, og hver veit? Við kannski klárum að gera útieldhúsið sem þú hafðir teiknað upp og gerum fínt við eldstæðið eins og stefnan var. Siggalundur. Fullkomið.
Hvar sem þú ert þá vitum við að þú hefur loksins fundið friðinn og að amma og afi tóku á móti þér með hlýjan faðminn. Við sjáumst seinna, elsku frændi. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Við elskum þig.
Leifur, Hákon,
Kristín og Bjarni.
Okkar kæri félagi Sígú er farinn heim, eins og við skátar segjum. Minningar um góðan dreng með frjóan huga og hönd vakna og myndir af Sígú sitjandi við listilega unnið handverk koma upp í hugann.
Sígú hefur starfað ötullega með skátahreyfingunni frá unga aldri og lét sig það varða alla ævi. Hann var þekktur fyrir að miðla og deila þekkingu, skrafa um lífsins gang og málefni og styðja við skátastarf með sköpun, kennslu og að styðja við hin leyndardómsfullu ævintýri skátastarfsins og Gilwell-námskeiðanna.
Skátahreyfingin kveður og þakkar Sígú fyrir sitt ötula starf í þágu hreyfingarinnar, leiðsagnar hans og sannan skátaanda.
Skátar sakna vinar í stað, fjölskyldu hans og ástvinum öllum sendi ég samúðarkveðjur.
Þú ert skáti horfinn heim,
himinn, jörð, ber sorgarkeim.
Vinar saknar vinafjöld,
varðar þökkin ævikvöld.
Sérhver hefur minning mál,
við munum tjöld og varðeldsbál,
bjartan hug og brosin þín,
þau bera ljósið inn til mín.
Kveðjustundin helg og hlý,
hugum okkar ríkir í.
Skátaminning, skátaspor,
skilja eftir sól og vor.
(H.Z.)
Með hinstu kveðju frá Bandalagi íslenskra skáta,
Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi.