[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson þarf að gangast undir skurðaðgerð eftir að hafa meiðst á öxl á æfingu með félagsliði sínu Lech Poznan í síðustu viku. Gísli Gottskálk, sem er einungis tvítugur, hefur komið af krafti inn í pólska…

Knattspyrnumaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson þarf að gangast undir skurðaðgerð eftir að hafa meiðst á öxl á æfingu með félagsliði sínu Lech Poznan í síðustu viku. Gísli Gottskálk, sem er einungis tvítugur, hefur komið af krafti inn í pólska toppliðið eftir að hafa verið keyptur frá Víkingi úr Reykjavík í janúar á þessu ári og leikið fimm leiki í deildinni á tímabilinu. „Myndatökurnar komu ekki nægilega vel út þannig að ég þarf að fara í aðgerð. Þetta er hrikaleg tímasetning en það þarf bara að tækla þetta eins og allt annað,“ sagði Gísli Gottskálk í samtali við Fótbolta.net. Vera kann að tímabili Gísla Gottskálks sé lokið vegna alvarleika meiðslanna, en tíu leikir eru eftir af pólsku deildinni á yfirstandandi keppnistímabili.

Albert Guðmundsson var á skotskónum fyrir Fiorentina þegar liðið tapaði á útivelli fyrir Napoli, 2:1, í 28. umferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta en Albert minnkaði muninn á 66. mínútu. Fiorentina er í áttunda sæti deildarinnar með 45 stig, fimm stigum frá Evrópusæti. Þórir Jóhann Helgason lagði upp fyrsta mark Lecce þegar liðið tapaði naumlega á heimavelli fyrir AC Milan, 3:2, en Þórir Jóhann lék fyrstu 74 mínúturnar fyrir Lecce sem er í sextánda sætinu með 25 stig. Mikael Egill Ellertsson lék fyrstu 63 mínúturnar fyrir Venezia áður en Bjarki Steinn Bjarkason leysti hann af hólmi þegar liðið gerði jafntefli gegn Como, 1:1, á útivelli. Venezia er með 19 stig í nítjánda og næstneðsta sætinu, fimm stigum frá öruggu sæti.

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta og Bayern München í Þýskalandi, var ekki í leikmannahópi liðsins í gær þegar Bayern hafði betur gegn Köln á útivelli, 3:0, í 16. umferð þýsku 1. deildarinnar. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Glódís Perla hafi ekki leikið með liðinu vegna eymsla í hné en hún hefur vart misst af leik með landsliði eða félagsliði á undanförnum árum. Bayern München er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar eftir sigur gærdagsins.

Arnór Ingvi Traustason kom inn á sem varamaður í framlengingu þegar lið hans Norrköping hafði betur gegn Trelleborg, 3:1, í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í fótbolta. Arnór Ingvi meiddist í bikarleik gegn GAIS um síðustu helgi og vildu forráðamenn ekkert gefa upp um meiðsli Íslendingsins í síðustu viku. Ísak Andri Sigurgeirsson lék allan leikinn með Norrköping sem mætir Häcken á útivelli í undanúrslitunum, 15. mars. Þá kom Kolbeinn Þórðarson inn á sem varamaður hjá Gautaborg á 70. mínútu þegar liðið hafði betur gegn Hammarby á heimavelli, 4:0. Gautaborg mætir annaðhvort Malmö eða Elfsborg í undanúrslitunum þann 15. mars á útivelli en Malmö og Elfsborg mætast í kvöld. Úrslitaleikurinn fer fram 28. maí.

Íslendingalið Bröndby er komið áfram í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar í fótbolta eftir nauman sigur gegn AGF á útivelli, 1:0, á laugardaginn. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bröndby en Hafrún Rakel Halldórsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Bröndby á 85. mínútu. Bröndby verður því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin ásamt Fortuna Hjörring, Nordsjælland og Köbenhavn en Bröndby tapaði í úrslitaleik keppninnar í fyrra fyrir Nordsjælland, 2:1.

Handknattleiksmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson hefur neyðst til að draga sig úr landsliðshópi Íslands fyrir tvo leiki gegn Grikklandi í 3. riðli undankeppni EM 2026 vegna meiðsla. Björgvin Páll Gústavsson, leikmaður Vals í úrvalsdeildinni, kemur inn í hópinn í hans stað en hann er langleikjahæstur í hópnum með 281 A-landsleik. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HSÍ, þar sem segir að Björgvin Páll hafi ferðast með starfsfólki landsliðsins til Grikklands um helgina. Þá hefur Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Kolstad í Noregi, einnig verið kallaður inn í leikmannahópinn en það er handbolti.is sem greinir frá. Leikmenn liðsins komu saman í gær og í dag í Grikklandi og hefst þá formlegur undirbúningur liðsins fyrir leikina tvo. Íslenska liðið er í efsta sæti riðilsins með 4 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína gegn Bosníu og Georgíu. Fyrri leikur Íslands og Grikklands fer fram miðvikudaginn 12. mars í Chalkida í Grikklandi en síðari leikurinn verður svo í Laugardalshöll laugardaginn 15. mars.