Hafsteinn Jónsson fæddist 14. október 1956. Hann lést 28. desember 2024.

Útför Hafsteins var gerð frá Lindakirkju 14. janúar 2025.

Það var ekki auðvelt að melta þær harmafregnir sem mér bárust nú skömmu eftir jól að Hafsteinn, vinnufélagi og mikill vinur, hefði orðið bráðkvaddur.

Ég kynntist Haffa skömmu eftir að ég hóf rútuakstur, þá var hann bílstjóri hjá Kynnisferðum. Þar vann hann megnið af sinni starfsævi, fyrst sem bílstjóri en síðan sem vaktstjóri og síðar yfirvaktstjóri. Þegar ég fór að vinna fyrir Kynnisferðir kynntist ég þessum öðlingi enn betur, hann var minn yfirmaður á A-vaktinni þegar ég starfaði þar sem bílstjóri. Á þessum árum var bílafloti Kynnisferða ekki stór og oft þurfti að nýta bíla og mannskap til hins ýtrasta. Þar komu mannkostir Hafsteins strax í ljós, með framkomu sinni og jákvæðum samskiptum við vinnufélaga sína tókst honum alltaf að láta hlutina ganga upp með sóma. Þegar mér bauðst að taka við vaktstjórastarfi með Hafsteini var það auðveld ákvörðun að taka boðinu, og þar var hvatning hans stór hluti af ákvörðun minni. Það fór svo að við unnum í 16 ár saman sem vaktstjórar og það var skemmtileg og góð reynsla að vinna við hlið Haffa öll þessi ár. Það fór aldrei á milli mála hvað hann hafði gaman af vinnu sinni og má segja að samviskusemi hans hafi oft verið með ólíkindum og hollusta hans við vinnuveitandann nánast ótakmörkuð.

Það væri hægt að skrifa heila bók um þennan tíma okkar saman á þessum vettvangi og margar sögur urðu til og var það alltaf jafngaman þegar þessi gamli Kynnisferðahópur hittist og menn duttu í sögugírinn, þar var sannarlega af nógu af taka. Haffi dró ekki af sér að segja sögur ásamt fleirum og gerði hann það með tilburðum og jafnvel leikin atriði þar inn á milli. Um árabil ferðaðist þessi gamli starfsmannahópur innanlands á hverju hausti og voru þær ferðir alltaf vel heppnaðar, landið skoðað, sagðar sögur og gert vel við sig í mat og drykk.

Við vorum samferða nokkrum sinnum á rútusýningar erlendis og frá þeim ferðum er margs að minnast. Meðal annars flugferðanna þar sem hann sat við skjáinn í sætinu fyrir framan sig að fylgdist grannt með framvindu flugsins. Eitt skipti pantaði félagi okkar reynsluakstur á einni af þessum sýningum og áttum við að mæta kl. 15, þetta fannst okkar manni ekki gáfulegt þar sem hann varð að sneiða hjá veitingum þeim sem voru í boði þar til bíltúrnum lauk.

Við áttum fleira sameignlegt en að vinna saman, við deildum afmælisdegi og var stundum slegið saman í „veislu“ á vinnustaðnum 14. október. Að vinna jafn þétt saman þetta lengi eins og við Haffi gerðum skapaði að sjálfsögðu mikla og góða vináttu. Vissulega hittumst við ekki eins oft núna seinni árin, en kaffibolli og stutt spjall var aldrei langt undan ef við áttum tækifæri til að hittast í dagsins önn. Nú í vetur áttum við þannig tíma saman, höfðum þá ekki hist í nokkurn tíma og var af nógu að taka, ákváðum báðir að hittast fljótlega og fara betur yfir málin. Nú verður ekki af þeirri gæðastund en allar þær minningar sem ég á um Haffa bæði í leik og starfi lifa og mun ég sannarlega geyma þær vel og rifja upp framvegis.

Sigurður E. Steinsson.