Andrea Sigurðardóittir
andrea@mbl.is
Samband íslenskra sveitarfélaga sendi í gær út tilkynningu með leiðréttum upplýsingum um laun formanns sambandsins, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur.
Áður hafði sambandið gefið út að stjórnarlaun Heiðu Bjargar í upphafi árs 2023 hefðu verið 285.087 krónur en þá láðst að veita upplýsingar um yfirvinnu sem hún fékk greidda á þeim tíma. Yfirvinna nam 296.080 krónum og heildar mánaðarlaun í upphafi árs námu því samtals 581.167 krónum, en ekki var greitt fyrir akstur.
Í upphafi árs nú námu föst laun Heiðu Bjargar 762.921 krónu auk aksturs sem nam 105.750 krónum, eða alls 868.671 krónu. Voru laun í upphafi árs nú því um 50% en þau voru í upphafi árs 2023.
Breytt afstaða sambandsins til verkefnaálags stjórnar
Þegar Morgunblaðið óskaði eftir upplýsingum um launaþróun formannsins í síðustu viku var sérstaklega tekið fram í svari sambandsins að fundum stjórnar hefði fjölgað úr einum í tvo á mánuði.
Spurði blaðamaður sambandið í kjölfarið hvers vegna fundum hefði verið fjölgað og hvort það helgaðist af því að verkefnum hefði fjölgað frá því sem áður var. Sambandið svaraði fyrirspurninni svo:
„Stjórn fundar, sem fyrr, einu sinni í mánuði á staðfundi en fundar einnig einu sinni í mánuði á styttri fjarfundi. Það var í raun bara gert til þess að einfalda afgreiðslu mála og auka skilvirkni.“
Í tilkynningu sambandsins frá því í gær kveður við annan tón, en þar segir meðal annars:
„Mikil aukning hefur orðið í fundarhöldum stjórnar Sambandsins undanfarin ár. Áður voru um 10-11 fundir haldnir á ári, en árið 2023 voru þeir 24, árið 2024 voru þeir 20, og nú þegar hafa 11 fundir farið fram á þessu ári. Gert er ráð fyrir að fundir á árinu 2025 verði um 26.“
Ekki er tekið fram hversu margir fundanna hafi verið styttri fjarfundir, en leiða má að því líkur að ör tíðni funda framan af þessu ári skýrist að miklu leyti af kennaradeilunni sem þegar hefur verið leyst.
Fram kemur í tilkynningunni að starfskjaranefnd hafi metið vinnu formanns til 50% starfs. Heiða er jafnframt borgarstjóri Reykjavíkur og stjórnarformaður Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Alls nema laun Heiðu Bjargar fyrir störf þessi um 3,8 milljónum króna.