Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa hafnað tveimur umsóknum um að breyta eldri auglýsingaskiltum í LED-skilti. Annað skiltið er á lóð bílaumboðsins BL við Sævarhöfða en hitt á lóð bensínstöðvar við Vallargrund á Kjalarnesi. Í báðum tilvikum var það umsögn Vegagerðarinnar sem gerði útslagið en umræddar breytingar þóttu geta stofnað umferðaröryggi í hættu.
Í umsókn um skiltið á lóðinni við Sævarhöfða kemur fram að það hafi þrjár hliðar og að hver þeirra sé rúmir 25 fermetrar að stærð. Aðeins hafi staðið til að breyta tveimur flötum þess í stafrænt skilti, þeim sem snúa í suðvestur og suðaustur. Til stóð að skiltin yrðu tengd við birtuskynjara sem myndi stýra ljóma þeirra eftir umhverfisbirtu.
Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að núverandi skilti sé um 100 metra frá miðju Vesturlandsvegar sem sé stofnvegur með mikilli umferð allan sólarhringinn. „Umferðarþungi og tilheyrandi bið vegfarenda á álagstímum gerir það að verkum að athygli ökumanna þarf að vera öll á umferðinni sem býður ekki upp á að sett sé stafrænt skilti í grennd við veginn þar sem það er talið rýra umferðaröryggi,“ segir í umsögninni.
Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er því tekið neikvætt í umsókn um að breyta umræddu flettiskilti í LED-skilti með vísan í umsögn Vegagerðarinnar. Þá er þess getið í framhjáhlaupi í niðurstöðukafla að bílastæði sunnan við umrætt skilti sé ekki heimilað og teljist það vera óleyfisframkvæmd.
Lóðarhafar á bensínstöðinni á Kjalarnesi óskuðu eftir að fá að taka niður auglýsingaskilti með þremur flötum, samtals tæpir 10 fermetrar að flatarmáli. Nýtt LED-skilti átti að vera með tveimur flötum, samtals um 24 fermetrar.
„Núverandi skilti á Vallargrund 3 er um 30 m frá miðju Vesturlandsvegar sem er stofnvegur í umsjá Vegagerðarinnar. Þó að nýtt skilti verði fært aðeins lengra frá veginum þá er stærð þess og lýsing til þess fallin að rýra umferðaröryggi á þessum kafla Vesturlandsvegs,“ sagði í umsögn Vegagerðarinnar.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hafa skipulagsyfirvöld í Reykjavík lagst gegn breytingum á fleiri skiltum. Má í því sambandi nefna skilti á vegg verslunarinnar Ormsson í Lágmúla og skilti á lóð bensínstöðvar Orkunnar við Miklubraut.