Hilmar Tómas Guðmundsson fæddist 27. febrúar 1967. Hann lést 21. febrúar 2025.

Útför hans fór fram 7. mars 2025.

Mér brá við fréttirnar af skyndilegu fráfalli jafnaldra míns, gamals og góðs vinar og leikfélaga. Ætli við höfum ekki verið 6-7 ára gamlir þegar við kynntumst.

Afi og amma Hilmars bjuggu á Miðbraut 21 þar sem hann sleit barnsskónum og ég á Miðbraut 29. Það var stutt á milli og margt brallað.

Það var mikið af krökkum í hverfinu og leikið allan daginn og fram á kvöld. Við Hilmar vorum því æskuvinir og lékum okkur heilmikið saman í fótbolta eða við að smíða kofa. Nóg var af smíðaefninu því nokkur hús voru í byggingu við Miðbrautina á þessum árum. Við fengum eitthvað af því efni ásamt verkfærum „lánað“ og vorum duglegir við smíðar. Lögregluþjónar bæjarins komu svo af og til og klöppuðu okkur á kollinn og sóttu verkfærin til okkar.

Við gengum saman í Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla og voru það skemmtileg ár á Nesinu.

Þegar Valhúsaskóla sleppti lágu leiðir okkar hvors í sína átt.

Við rákumst af og til hvor á annan í gegnum tíðina og fannst mér alltaf gott að sjá að Hilmari vegnaði vel í sínu.

Ég vil þakka gömlum góðum vini samfylgdina og votta fjölskyldu Hilmars mína dýpstu samúð.

Guð geymi minningu góðs drengs.

Þór Sigurgeirsson.

Í dag kveðjum við góðan vin og samstarfsfélaga sem fallinn er frá, óvænt og allt of snemma.

Ég var svo heppinn að fá að kynnast Hilmari og vinna með honum á þremur ólíkum vinnustöðum yfir 15 ára tímabil og kynntist ég honum bæði sem samstarfsfélaga og vini.

Hilmar skilur eftir sig skemmtilegar minningar hjá þeim sem kynntust honum. Hann var gæddur ótrúlegri sköpunargáfu og frjóum huga sem birtist í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Sem hönnuður hafði hann sérstakt auga fyrir einfaldleika og skilvirkni og gat gert flókin verkefni aðgengileg. Með dugnaði og frumleika bjó hann ekki bara til vefsíður og auglýsingar, heldur stofnaði hann fyrirtæki og rak ásamt eiginkonu sinni og hjálpaði einnig öðrum á sömu vegferð.

Brosið og gleðin var aldrei langt undan og hann var með húmor bæði gagnvart sjálfum sér og umhverfinu sem var smitandi. Hann var traustur bæði sem vinur og liðsfélagi, þegar á reyndi var hann alltaf til staðar, tilbúinn að hlusta, styðja og taka þátt og gerði verkefnin skemmtilegri með því að sjá gleði í litlu hlutunum og deila henni jafnharðan með öðrum.

Við sem fengum að kynnast Hilmari munum sakna gleðinnar, sköpunarkraftsins, hlýjunnar og þess einstaka hæfileika að gera heiminn örlítið bjartari. Minning hans lifir áfram í hjörtum okkar og í öllum þeim verkum sem hann skildi eftir sig. Við hjónin sendum Lottu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Maron Kristófersson.

Í dag fylgjum við Hilmari Tómasi, varabæjarfulltrúa Framsóknar í Mosfellsbæ, síðasta spölinn. Mig langar í örfáum orðum að minnast vinar sem kvaddi allt of fljótt. Það er hálfótrúlegt til þess að hugsa að ég hafi ekki þekkt hann Hilmar í nema rétt þrjú ár, þegar hann kvaddi þessa jarðvist svo skyndilega, langt fyrir aldur fram. Mér finnst eins og árin sem við höfðum þekkst hljóti að hafa verið miklu fleiri miðað við það mikla og góða samstarf sem við áttum á þessum árum, en svo er víst ekki, og ljóst að árin í beinu samstarfi verða heldur ekki fleiri, þótt hugurinn muni eflaust halda því áfram lengi enn. En mikið óskaplega er ég þakklátur fyrir þó þennan tíma og allt það sem ég lærði af okkar samstarfi og mun búa að þeim lærdómi um ókomin ár.

Það er ótal margt sem kemur upp í hugann þegar ég reyni að raða þessum stöfum saman til að mynda samfelldan texta, í þeim tilgangi að minnast míns góða félaga, sem alltaf var boðinn og búinn að leggja hönd á plóg fyrir samfélagið sitt og ávallt var hægt að stóla á að væri uppfullur af góðum og nýstárlegum hugmyndum um hvert það mál sem var til umræðu hverju sinni. En sú upprifjun verður að bíða betri tíma, því að stafabilin hér væru fljót að klárast áður en ég kæmi mér að efninu.

Takk fyrir allt og allt, kæri Hilmar, í gegnum okkar stuttu en góðu kynni, fyrir hönd bæjarstjórnar flyt ég þér kærar þakkir fyrir þitt framlag til okkar góða samfélags í Mosfellsbæ.

Kæra Karlotta og fjölskylda, megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur.

Horfinn er vinur handan yfir sundin,

hryggðin er sár, svo jafnvel tárast
grundin.

Þá er svo gott, um ævi megum muna

milda og fagra geymum kynninguna.

Óvæntust ætíð kemur kveðjustundin

kærast í hjarta geymum minninguna.

(Vilhjálmur S.V. Sigurjónsson)

Örvar Jóhannsson,
forseti bæjarstjórnar
í Mosfellsbæ.

Fréttir af andláti Hilmars komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Aðeins kvöldið áður höfðum við fundað saman, hlegið og talað um framtíðina. Það verður stórt skarð sem Hilmar skilur eftir sig í þéttum hópi okkar framsóknarfélaga í Mosfellsbæ. Hann var mjög virkur í félagsstarfi Framsóknarfélags Mosfellsbæjar ásamt því að sinna nefndarstörfum en hann gegndi meðal annars varaformennsku í menningar- og lýðræðisnefnd.

Fyrstu kynni okkar flestra af Hilmari var í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022. Hilmar var kosningastjóri í þeirri baráttu þar sem Framsókn kom, sá og sigraði. Hann var ósérhlífinn, bóngóður, þjónustulundaður og vinur vina sinna. Það var alltaf hægt að heyra í Hilmari sama hvað það var og gott var að taka upp símann og heyra í honum til að leita ráða. Hann hafði einstaklega rólegt og yfirvegað fas sem hann kom með að borðinu þegar leysa þurfti úr málum og redda hinu og þessu. Hann var hnyttinn og hafði gaman af því að leika sér með orð og hafði mikinn áhuga á hvers konar samfélagsmálum. Hilmar og Lotta hans voru alltaf mætt ef það þurfti að setja saman húsgögn, baka vöfflur eða bara setjast yfir bolla og ræða málin. Það verður skrítið að sitja fundi eða skipuleggja viðburði án þess að hafa hann okkur við hlið. Hilmars verður sárt saknað og við verðum ævinlega þakklát fyrir samfylgdina, vináttuna og allt það óeigingjarna starf sem hann innti af hendi síðustu ár.

Hilmar var einstaklega mikill fjölskyldumaður en hin fallega nánd þeirra hjóna og stolt þeirra af börnunum sínum þekkja allir sem hafa hitt þau. Elsku fjölskylda, við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og vonum að vinátta okkar gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

F.h. Framsóknarfélags Mosfellsbæjar,

Hrafnhildur Gísladóttir.