Bjarki Jóhannesson
Bjarki Jóhannesson
Skipulag er fyrir fólk! Þetta gleymist oft þegar skipulaginu er stjórnað af aðilum sem vinna út frá öðrum forsendum.

Bjarki Jóhannesson

Búsetuumhverfi myndar daglegt umhverfi okkar. Skipulag á að miða að því að íbúar lifi í sátt við umhverfið sem styðji við góða andlega og líkamlega heilsu og gefi fólki færi á að líða vel í því. Rannsóknir sýna að aðgengi að útivistarsvæðum og ósnortinni náttúru, skjólgóðum gönguleiðum með gróðri og grænum svæðum hafi jákvæð áhrif á vellíðan fólks, bæti heilsu og auki langlífi og minnki þar með álag á öldrunarþjónustu og sjúkrastofnanir. Íbúðarsvæði eiga að vera skjólgóð, björt og laus við hávaða og mengun frá bílaumferð og öðru. Þetta næst með lágri og hæfilega þéttri byggð en háhýsi magna upp vind, og þétt háhýsabyggð hleypir ekki inn birtu.

Í arkitektanámi mínu í Lundi í Svíþjóð var mikil áhersla á nærumhverfi fólks. Bækur Ingrid og Jan Gehl, Bomiljö og Livet mellem husene, lögðu áherslu á þarfir fólks í nærumhverfinu, svo sem félagsleg tengsl, fjölbreytt umhverfi, þörf fyrir að finnast það vera hluti af umhverfinu, þörf fyrir fegurð og að gott sé að vera þar.

Um svipað leyti og þessar kenningar komu fram voru skipulögð í Reykjavík hverfi sem byggðu á þessum mannvænu gildum, og má þar nefna Neðra Breiðholt sem byggðist um 1970. Hæð bygginga er stillt í hóf, mest þrjár íbúðarhæðir og þeim er raðað þannig að þær mynda skjól í hverfinu. Innigarðar eru u-laga og þeir eru víðir þannig að birtu njóti sem best inni í U-inu. Mörg af þeim gildum sem hér eru talin má einnig sjá í eldri byggð, svo sem verkamannabústöðum við Hringbraut sem Guðjón Samúelsson skipulagði 1931-37. Þeir voru byggðir sem randbyggð með góðu útivistar- og leiksvæði í miðju, sem stuðlaði að útivist og félagslegri umgengni fólks. Meðal nýlegri hverfa með áherslu á aðgengi að útivistarsvæðum er Grafarvogur, sem byggðist um 1990.

Því miður hafa þessi gildi á síðari árum týnst í steinsteyptum háhýsum sem standa þétt við helstu umferðaræðar höfuðborgarinnar með hávaða, rykmengun frá sliti á lélegu malbiki og mengun frá útblæstri, oft svo þétt að ljós kemst vart á milli þeirra, aðeins rok sem þau magna upp. Fólki er sagt að þétting byggðar sé á umhverfislegum forsendum. Með þéttri byggð þurfi íbúar ekki bíl, en geti nálgast alla þjónustu gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum, einkum Borgarlínu sem kemur kannski eftir 10 ár. Þar með sé umhverfinu og heimsbyggðinni bjargað. Ekki er hugað að lífsgæðum þeirra sem eiga að búa í háhýsaþyrpingum, en allt kynnt með tölvuteiknuðum glansmyndum sem sýna léttklætt fólk í ofursnyrtilegu umhverfi þar sem sólin skín í sömu hæð og á Ítalíu og skuggarnir eru samkvæmt því litlir eða engir. En umhverfi fyrir fólk fæst ekki með tölvuteiknuðum glansmyndum. Hver og einn getur skoðað nýleg þéttingarsvæði og hvernig þetta allt er í raunveruleikanum.

Að mínu mati liggur sökin á þessari afturför hérlendis oft hjá kjörnum fulltrúum og nefndarfulltrúum sem stjórna skipulaginu niður í smáatriði. Þau eru kosin af fólkinu en eru því miður ekki alltaf að vinna fyrir fólkið heldur virðast oft vinna út frá pólitískum rétttrúnaði eða fyrir verktaka og fjárfesta. Orðið „grænt“ er ofnotað og misnotað. Borgin verður ekki græn með því að auka almenningssamgöngur, eins og fyrrverandi ráðherra skrifaði nýlega, eða með því að byggja á grænu svæðunum í Grafarvogi og setja leiktæki og bekki á þau sem eftir standa. Þetta gerir ekki borgina græna, heldur verður hún græn með samfelldum opnum svæðum. Sem dæmi má nefna svæðið frá Keldnalandinu alla leið að Elliðavatni.

Ábyrgð á útfærslu skipulags liggur hjá skipulagsfulltrúum, en oft er víst best að segja sem minnst þegar skipanir koma ofan frá. Því hef ég sjálfur kynnst sem skipulagsfulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, og í skipuriti Reykjavíkur segir að hlutverk skipulagsfulltrúa sé aðeins ráðgefandi, þótt skipulagsreglugerð segi að hann skuli hafa umsjón með skipulagsgerð. Allt annað var uppi á teningnum þau 10 ár sem ég vann við skipulag í Svíþjóð, þar vann fagfólk að skipulagi án beinna pólitískra afskipta. Ekki má gleyma eftirlitsskyldu Skipulagsstofnunar með því að skipulag sé auglýst eða grenndarkynnt með áberandi hætti og gefi rétta mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Ef við viljum mannvænt umhverfi er þörf á umbótum. Þær liggja í menntun og þekkingu þeirra sem koma að skipulagi og virðingu þeirra fyrir fólki í byggðu og náttúrulegu umhverfi. Þeir sem vinna að skipulagi mega ekki selja sál sína fyrir verkefni sem ganga á skjön við áður nefnd gildi. Síðast en ekki síst verða kjörnir fulltrúar að sýna þá ábyrgð að treysta þeim sem kunna til verka og hafa til þess menntun og reynslu að vinna skipulag út frá þeim faglegu forsendum sem hér voru nefndar í byrjun.

Höfundur er skipulagsfræðingur Ph.D., verkfræðingur og arkitekt.

Höf.: Bjarki Jóhannesson